Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum á fylgi stjórnmálaflokkanna er Sósíalistaflokkurinn ekki að ná neinu flugi. Hlýtur það að vera áhyggjuefni fyrir Gunnar Smára og félaga að flokkurinn mælist aðeins með um eitt prósent á landsvísu.
Stuðningsmenn Sósíalistaflokksins gætu haldið því fram að langt sé í kosningar og flokkurinn hafi aldrei boðið fram áður til þings. En hafa ber í huga að flokkurinn er nú þegar orðinn hreyfiafl í þjóðfélaginu. Í maí síðastliðnum náði flokkurinn manni inn í borgarstjórn, Sönnu Magdalenu sem hefur verið mjög áberandi. Einnig dyljast fáum þeir þræðir flokksins sem liggja inn í verkalýðsforystuna.
Sambærilegt dæmi gæti verið Miðflokkurinn á Akureyri. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor mældist flokkurinn á einum tímapunkti með tæplega níu prósenta fylgi. Þá var ekki búið að tilkynna neinn lista og ekki víst að flokkurinn yrði yfirhöfuð í framboði. Miðflokkurinn var þá mun nýrri stjórnmálahreyfing en Sósíalistaflokkurinn er nú.
Gunnar Smári og félagar hljóta að tala upp flokkinn á landsvísu því staðan nú er vandræðaleg.