fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Valgarður fór tólf ára úr klóm prests og í gin fíknar

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 12. nóvember 2018 21:30

Valgarður Var misnotaður sem barn í Landakotsskóla.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Listamaðurinn Valgarður Bragason hefur nú nýlokið við sýningu í Gallerý Port. Hann er í dag tveggja barna einstæður faðir og er þakklátur fyrir hvern dag enda hefur hann upplifað margt á sinni ævi. Æska hans var erfið bæði vegna aðstæðna á heimilinu og í Landakotsskóla var hann beittur grófu ofbeldi, andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Snemma ánetjaðist hann morfínskyldum lyfjum og um tíma var hann hætt kominn vegna neyslunnar. DV ræddi við Valgarð um ævi hans og raunir.

 

Gat átt von á hverju sem var

Valgarður er 47 ára og uppalinn í Reykjavík. Sonur Braga Kristjónssonar fornbókasala og Nínu Bjarkar Árnadóttur skálds sem lést árið 2000. Foreldrar Valgarðs voru frjálslynt menningarfólk, „hippar“ eins og hann segir sjálfur. Valgarður er annar í röðinni af þremur bræðrum. Þegar hann var tveggja ára flutti fjölskyldan til Kaupmannahafnar og dvaldi þar í þrjú ár.

„Við bjuggum á Friðriksbergi þar sem var mjög stór hópur íslenskra listamanna á þessum tíma. Alfreð Flóki, Helga Hjörvar, Ólafur Torfason, Signý Pál, Tryggvi Ólafs og fleiri. Þar var glatt á hjalla eins og gengur og gerist í þessum heimi. Þá var líka mikil tíska að pæla í kaþólsku og íslenska þjóðkirkjan þótti frekar þurr biti. Það þótti meiri dýpt í kaþólskunni. Mamma og pabbi tóku upp kaþólska trú og þá við bræðurnir líka,“ segir Valgarður.

Hvernig var æskuheimilið?

„Menningarlegt og frjálslegt. Það var mikil ást og hlýja en ekki stífar reglur og mikið utanumhald. En reglulega urðu erfiðar uppákomur. Sjálfsvígstilraunir, slagsmál, hjónarúmið tekið með öxi,“ segir Valgarður og brosir. „Það var mikið partíhald og drykkja. Á þessum tíma fór mamma líka að finna fyrir miklu þunglyndi. Þegar ég var þriggja ára reyndi hún að fyrirfara sér í fyrsta skiptið. Þá drakk hún eitraða blöndu af þvottaefni. Síðan var líka þessi mikla trú og sífellt verið að velta fyrir sér heimspekilegum hlutum. Þetta var mjög rómantískt fólk. Það vildi mikið út úr lífinu, skilja allt og bæta þennan vonlausa heim. En þessar aðstæður voru ekki góðar fyrir börn og sköpuðu ótta. Við gátum átt von á hverju sem var.“

Hvaða áhrif hafði þetta á þig?

„Ég varð snemma var við það að þau sem ég þurfti að reiða mig á voru ekkert endilega starfinu vaxin. Ég lærði því að bjarga mér sjálfur mjög ungur. Það var mikil hlýja og við vorum ekki beittir ofbeldi. En það er erfitt að sjá mömmu sína veinandi á leiðinni út í sjúkrabíl eftir sjálfsvígstilraun. Það er mikið áfall fyrir krakka.“

Valgarður var rólegt barn og lét ekki hafa mikið fyrir sér. Það var meðvitað að rugga ekki bátum eða gera of miklar kröfur. Hann átti vini en tók ekki þátt í neinu félagslífi.

 

Misnotaður af presti „Georg vissi alveg hvað hann var að gera og hafði sennilega gert þetta oft áður.“

Ofurmennið

Þegar fjölskyldan sneri heim frá Danmörku opnaði Bragi bókabúðina og Nína sneri sér að ritstörfum. Þau bjuggu í Þingholtunum en drengirnir voru sendir í Landakotsskóla. Það var kaþólskur einkaskóli sem þótti fínt að vera í á þessum tíma. Seinna kom í ljós að starfsfólkið hafði beitt nemendur skelfilegu ofbeldi í áratugi. Líkamlegu, andlegu og kynferðislegu. Valgarður var sex ára þegar hann steig þar inn í fyrsta sinn.

„Ég var kaþólskur og þess vegna var ég strax kominn í ákveðinn forréttindahóp þarna,“ segir hann. „Við sem vorum kaþólsk fengum alveg að finna það, að vera í annarri deild en hinir. Ég var rauðhærður og með freknur og þess vegna sagði séra Georg að ég væri efni í svokallað übermensch, eða ofurmenni.“

Ágúst Georg var hollenskur prestur í Landakoti og skólastjóri í aldarfjórðung. Þremur árum eftir að hann lést árið 2008 komst ofbeldið sem hann og hin þýska Margrét Müller höfðu beitt börnin í hámæli. Bæði í skólanum sjálfum og í sumarbúðunum í Riftúni, þar sem Valgarður var tvö sumur.

„Strax og ég byrjaði í skólanum tók hann mig inn á skrifstofu til sín. Síðan einu sinni eða tvisvar í viku eftir það. Þá byrjaði okkar ástarsamband sem varði í sex ár. Ástarsamband í þeirri merkingu að hann lét mig finna að hann elskaði mig og vildi allt fyrir mig gera til að verða übermensch. Ég var kallaður inn úr frímínútum til hans og stundum sóttur í miðjar kennslustundir, sá eini í mínum bekk. Hann sagði mér hluti og fræddi mig, en eftir á sé ég að þetta var heilaþvottur. Talaði mikið um guð og mömmu mína og fékk mig til að tala um þetta allt. Georg vissi alveg hvað hann var að gera og hafði sennilega gert þetta oft áður.“

 

Misnotkun séra Georgs

Georg lét Valgarð finna fyrir væntumþykju og Valgarði leið eins og Georg væri að hjálpa honum í gegnum veikindi móður hans. En þegar Valgarður braut á einhvern minnsta hátt af sér var honum refsað harkalega. Valgarður sýnir hvernig Georg kramdi hné hans á bænastólnum með því að þrýsta hné sínu aftan á fótinn. Einnig hvernig Georg lamdi hann með priki í olnbogana og aftan á lærin. „Alltaf á sama staðinn, aftur og aftur og aftur.“

Fyrir hvaða brot var þetta?

„Það gat verið hvað sem var. Einu sinni reif ég kjaft við Margréti. Ég gleymdi nestinu og hún úthúðaði mömmu. Þá svaraði ég: Veistu ekki að hún er skáld? Þá reif hún í hárið á mér og dró mig inn til hans. Hún hvíslaði í eyrað á honum og hann horfði sorgmæddur á mig.“

Ofbeldið sem Valgarður varð fyrir í Landakotsskóla var ekki aðeins líkamlegt og andlegt heldur einnig kynferðislegt.

„Þegar ég var í átta ára bekk fékk hann mig inn til sín og fróaði sér. Hann hneppti frá skyrtunni minni, lyktaði af mér og fiktaði í hárinu.“

Valgarður segist hafa áttað sig á því að þetta væri rangt en hann vissi samt í raun og veru ekkert hvað var að gerast.

„Í dag fá börn fræðslu í skólunum og við sjáum auglýsingar í sjónvarpinu um hvar mörkin eru. Það var ekkert talað um svona hluti á þessum tíma. Ég vissi ekkert hvað hann var að gera þegar hann stakk typpinu ofan í kokið á mér. Ég vissi samt að þetta var ekki í lagi og fór á einhvern hátt út úr líkamanum. Sjálfsfróun, kynlíf … ég vissi ekkert hvað þetta var.“

Stundum gistu nemendur í skólanum, í turninum þar sem Margrét bjó. Valgarður telur að sér hafi verið byrluð ólyfjan í flóaðri mjólk sem hann fékk þar.

„Eftir það var ég með þessa skrýtnu minningu eða martröð í höfðinu. Að séra Georg væri að nauðga mér í endaþarminn í smíðastofunni. Ég vissi samt ekki hvað þetta var. Mig var alltaf að dreyma þessa sömu martröð.“

Sagðir þú einhverjum frá þessu?

„Ég reyndi einu sinni að segja mömmu frá því að það væri ekki allt í lagi í Landakoti. En ég fór mjög fínt í það því að ég var hræddur um að hún tæki því illa. Þegar ég sagði henni að séra Georg væri ekki góður við mig þá sturlaðist hún. Ég bakkaði því strax með þetta. Mér finnst það skrýtið að enginn hafi verið búinn átta sig á þessu.“

Sástu önnur börn verða fyrir ofbeldi?

„Já, það gerði ég. Til dæmis í Riftúni. Þar sá ég Georg eiga við einn dreng inni á klósetti um miðja nótt.“

 

Frjáls Losnaði undan klóm prestsins tólf ára.

Einsamall drengur, fastur í helvíti

Samband Valgarðs og Georgs varð sífellt nánara og Valgarður fór sífellt meira inn í trúna. Hann fór að trúa því að hann væri útvalinn eins og Georg hafði sagt honum. Samhliða því einangraðist hann frá öðrum börnum og hegðunin breyttist.

„Eftir öll skiptin sem Georg meiddi mig þá bað hann mig afsökunar og virtist líða illa yfir þessu. Eins og hann hefði verið á einhvers konar „fylleríi“ og fengið útrás fyrir eitthvað. Ég sagði honum þá að þetta væri allt í lagi og hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu. En síðan endurtók þetta sig. Hann sagði mér líka að ef ég segði mömmu eða einhverjum öðrum frá þessu myndi hún fara til helvítis. Hann var mjög klárt kvikindi,“ segir Valgarður og brosir hæðnislega.

Margrét Müller beitti nemendur í Landakotsskóla kynferðisofbeldi líkt og Georg. Valgarður segir að hún hefði aðeins beitt hann líkamlegu ofbeldi, slegið hann og rifið í hár.

Átta ára gamall byrjaði Valgarður að æfa ballett og tveimur árum síðar karate og íslenska glímu. Um þetta leyti var hann að átta sig á því að meðferð Georgs væri ekki í lagi og hann þyrfti að losna undan aðstæðunum.

„Ég hætti að kenna sjálfum mér um og sá að þetta var sjúkt. Ég var einsamall, fastur í helvíti og komst ekki út. Gat hvorki hætt í skólanum né sagt neinum frá þessu. Heldur ekki hringt í barnavernd, vissi ekki einu sinni að hún væri til. Þegar ég var á síðasta árinu mínu í skólanum notaði ég það sem ég hafði lært í karate og lamdi Georg. Hann fór í gólfið inni á skrifstofunni og þá urðu ákveðin vatnaskil. Þá sá Georg að hann var búinn að missa mig og hætti að boða mig á skrifstofuna. Væntanlega tekið einhvern annan í staðinn.“

Valgarður fékk refsingu fyrir uppreisn sína. Allan tólf ára bekkinn var hann látinn dúsa í skammarkróknum í enda stofunnar. Í stærðfræði, sem Georg kenndi, var Valgarður oft tekin upp að töflu og niðurlægður fyrir framan bekkinn.

„Georg horfði alltaf á mig með sorgarsvip eftir þetta, en ég upplifði frelsi. Mér var alveg sama þó að ég þyrfti að sitja í þessum skammarkrók og væri tekinn fyrir í tímum. Ég var svo feginn að vera laus.“

Séra Georg lést sumarið 2008 og skömmu síðar fleygði Margrét Müller sér út um glugga turnsins í Landakoti. Þremur árum síðar komu glæpir þeirra upp á yfirborðið og nemendur lýstu opinberlega því skelfilega ofbeldi sem þeir höfðu sætt. Það var á þessum tíma sem Valgarður komst í fréttirnar fyrir reiðikast sem hann tók þar sem hann braut 21 rúðu skólans.

 

Tólf ára fíkill

Um það leyti sem Valgarður var að klára Landakotsskóla var hann í stífum ballett- og karateæfingum, fimm sinnum í viku. En hann var mikið verkjaður, bæði í olnbogum og hnjám. Hann sagði móður sinni frá verkjunum og hún lét hann hafa lyf við þeim, sem hún átti nóg til af. Voru það verkjalyf á borð við Dolvipar, Parkódín og vægari morfínskyld lyf. Fann hann strax fyrir því að lyfin slógu á verkina og honum leið mun betur.

„Þá fór ég á fullt í að misnota þessi lyf. Ég tók inn lyf og um leið og áhrifin dvínuðu útvegaði ég mér meira. Ég stal frá mömmu. Stal á öllum stöðum sem ég kom, ömmu, afa, frændfólki. Ég var í gagnfræðaskóla en orðinn algjörlega háður þessum lyfjum. Ef þú ert háður morfínlyfjum verður þú veikur ef þú tekur þau ekki. Þessi lyf voru til á velflestum heimilum og ég vissi hvert ég átti að fara, í eldhúsin, svefnherbergin og baðherbergin. Fjórtán og fimmtán ára var ég farinn að brjótast inn. Ég fann opnar svaladyr og fór inn en passaði mig á að taka ekki of mikið og aðeins lyfin, því þá gat ég komið aftur seinna.  Ef ég fann ekkert, gat ég keypt hjá tveimur fíkniefnasölum sem ég kynntist.“

Ungur morfínfíkill Faldi og fjármagnaði neysluna með lygum og þjófnaði.

Kunni að halda kjafti

Í gegnum þessa fíkniefnasala kynntist Valgarður fíkniefnaheiminum. Hann segir að þessi heimur hafi verið allt annar en í dag. Flestir notuðu hass og amfetamín en fáir morfínlyf. Morfínfíklar voru yfirleitt fólk sem hafði prófað allt og var komið á vissa endastöð í neyslunni. Það má því segja að Valgarður hafi byrjað á öfugum enda í sinni neyslu.

Varstu að drekka líka?

„Nei, ekki fyrr en ég var orðinn sautján ára. Þá var ég á löggustöðinni nánast í hverri viku, alltaf í slagsmálum og látum. Þegar maður drekkur ofan í þessi lyf verður maður alveg snarruglaður. Fer í „blackout“ og gerir alls kyns vitleysu. Ræðst á annað fólk, brýst inn á heimili og gerir óskunda. Maður verður alveg stjórnlaus.“

Gastu haldið þér gangandi, í námi og slíku, þótt þú værir alltaf í vímu?

„Já, einhvern veginn. Ég fór í MR og út á við var líf mitt ósköp venjulegt. Ég náði að halda þessu leyndu, lærði að ljúga, stela, spila með fólk og fá mínu framgengt. Fjölskylda mín vissi ekkert af þessu þegar ég var svona ungur. Ég hafði lært hvernig ætti að halda kjafti hjá séra Georg, eitt af því fyrsta sem hann kenndi mér var að geyma leyndarmál. Með tímanum átti ég minni og minni samleið með öðrum unglingum og einangraðist. Ef ég var í hópi sem var til dæmis að spila tölvuleiki, á Commodore eða Sinclair, gat ég ekki samsamað mig. Þeir voru í annarri vídd en ég. Ég var farinn að finnast ég vera tveir menn. Oft velti ég því fyrir mér hvor ég væri, góði mömmustrákurinn og menntaskólagæinn eða lyginn, þjófóttur fíkill.“

Valgarður var ungur og fékk væga meðhöndlun hjá lögreglunni. Aldrei sat hann meira en yfir eina nótt í fangelsi. Hann fékk engar ákærur og enga dóma. En hann fékk heldur aldrei nein boð um hjálp við sínum vanda, heldur var beðið eftir að hann kæmi aftur. Hann kláraði stúdentsprófið „mökkruglaður“ eins og hann lýsir því sjálfur, en síðan kom að tímamótum. Þegar hann var 21 árs gamall og búinn að vera í næstum áratug í neyslu fór hann í meðferð.

„Ég hafði þá stolið hellingi af lyfjum frá móður minni og 30 þúsund kalli í peningum. Hún gómaði mig og spurði mig út í þetta. Ég sagði henni eitthvað en ekki allan sannleikann. Svo fór ég beinustu leið á Vog og Staðarfell í meðferð hjá SÁÁ. Ég væri dauður ef SÁÁ væru ekki til því að þá fór ég að geta verið edrú í nokkurn tíma og fór að vinna í mínum málum. Þetta er búinn að vera langur og krefjandi vegur,“ segir Valgarður.

 

Sjálfsvíg mömmu

Um tíma fór Valgarður í bókmenntafræðinám í Háskóla Íslands en hann fann sig ekki þar. Á þeim tíma var hann einnig farinn að feta sömu slóð og móðir hans í skáldskap. Hann orti ljóð og gaf út bækur. Hjá SÁÁ fékk Valgarður leiðsögn um skaðsemi morfín- og áfengisneyslu sem hann meðtók. Hann sá fram á að ef hann héldi áfram á sömu braut myndi hann enda annaðhvort í fangelsi eða gröfinni. Það sem vantaði hins vegar var skýr stefna, einhvern annan valkost.

Eftir meðferðina flutti hann til Kaupmannahafnar og fór í nám í Alexanderstækni. Það er aðferð í líkamsbeitingu sem tónlistarfólk og aðrir hópar hafa tileinkað sér. Um tíma starfaði hann einnig í bókabúð. Á þeim tíma ánetjaðist hann kannabisefnum.

„Margir segja að þetta sé miklu skárra en harðari efnin, en þetta er engu að síður mjög hættulegt. Maður verður mjög tæpur á geði, þunglyndur og með ofsóknarbrjálæði. Minnið fer líka.“

Árið 1997 flutti hann aftur heim til Íslands og fór að vinna hjá Smekkleysu við að hengja upp tónlistarplaggöt. Hann starfaði við það í tíu ár og margir muna eftir honum seint um nóttu í miðbæ Reykjavíkur með límfötuna í annarri hendi. Þá var hann einnig farinn að fást við myndlist, var kominn í sambúð og átti sína eigin fjölskyldu. Vorið 2000 var hann búinn að vera edrú í fimm ár og lífið var gott. Þá kom áfallið. Valgarður segir:

„Ég sat á kaffihúsi og var að kjafta við vin minn. Skyndilega fannst mér eins og eitthvað flygi í gegnum hausinn á mér, eitthvað kalt. Það fyrsta sem ég hugsaði var: Mamma! Ég stóð upp og hljóp út og rakleiðis heim til hennar. Þá fann ég hana dána. Henni hafði tekist því miður að fyrirfara sér eftir langt stríð við þunglyndi og fíknisjúkdóm sinn. Hún hafði skipulagt þetta vel og stillt upp merktum hlutum í íbúðinni fyrir þann sem kæmi að. Hún skrifaði nokkur sjálfsvígsbréf, stíluð á mig og aðra í fjölskyldunni.“

Valgarður hringdi á lögreglu og sjúkrabíl sem komu um hæl og sóttu hana. Eftir að það var búið ákvað Valgarður að hreinsa íbúðina af öllu tengdu lyfjum. Hann vildi ekki að aðrir sæju það.

„Allt í einu stóð ég með fullan haldapoka af lyfjum. Verkjalyfjum og lyfseðilsskyldu amfetamíni. Ég fargaði þessum poka en innan við sólarhring síðar var ég fallinn. Þá fór ég í greni til morfínsala sem ég þekkti, var hjá honum í nokkra daga og byrjaði að sprauta mig.“

 

Harður heimur Missti félaga og var hætt kominn sjálfur.

Dauðinn alltaf nálægur

Heimur sprautufíkla er fjarlægur og illskiljanlegur flestum öðrum en þeim sem hafa lifað í honum. Valgarður hefur séð neyðina og hörkuna með eigin augum.

„Ungar konur, innan við tvítugt, geta alltaf farið til sölumannsins þótt þær eigi engan pening. Þá hringir hann í einhvern gæja sem kemur, sefur hjá henni og borgar sölumanninum fyrir skammtinn hennar. Þetta sá ég oft í greninu og er með því ógeðfelldasta sem kemur fyrir þessar ungu konur. Þeir sem keyptu voru oft í efri lögum þjóðfélagsins, til dæmis lögfræðingar eða þekktir embættismenn. Ungir karlar í þessari neyslu geta sjaldnast selt sig þannig að þeir brjótast inn og ræna.“

Er dauðinn ekki alltaf nálægur í þessum heimi?

„Jú, það hafa mjög margir sem voru í kringum mig farið. Ég ætti að vera einn af þeim og ég skil ekki alveg af hverju ég er hérna enn. Síðan ég fór í meðferð 21 árs gamall hef ég verið samanlagt átta ár í neyslu af 26 árum. Nú hef ég verið edrú í þrjú ár samfleytt. Ég hef nokkrum sinnum verið tæpur og tvisvar endað á bráðamóttökunni. Stundum hef ég orðið veikur en harkað af mér. Almennt var ég samt talinn kunna á efnin og var ráðinn í partí til að „kokka“ fyrir gesti.“

Valgarður segir að eitt af því sem einkennir heim morfínfíkla sé hnignun gilda. Hann segir:

„Maður hefur prinsipp í þessu rugli. Til dæmis að sprauta sig ekki. Svo ferð það. Þá kemur maður upp prinsippi um að sprauta ekki aðra. Svo fer það. Þá kemur maður kannski upp því prinsippi að ræna ekki sölumanninn. Á endanum fellur þetta allt saman.“

 

Kokkað fyrir Grænlendinga

Valgarður minnist sérstaklega atviks sem átti sér stað á ónefndu hóteli í Reykjavík þegar hann var ráðinn til að kokka og sprauta átta skipverja af grænlenskum togara.

„Þeir reykja stanslaust hass á meðan þeir eru úti á sjó og þegar þeir koma í land, eftir kannski þrjá mánuði þá vilja þeir fá sterkari efni. Á þessum tíma var ég á mínum lægsta punkti og tók verkið að mér. Ég var hins vegar sjálfur orðinn svo ruglaður af neyslu að ég klúðraði þessu og gaf þeim of mikið. Þá urðu þeir mjög veikir. Þá fór ég úr öllu nema nærbrókinni og gekk niður í anddyri þar sem var stór bar og pantaði mér mojito, allur útstunginn og hræðilegur. Fína fólkið fraus og allt í einu sá ég að lögreglan var að koma. Ég komst inn á herbergi og byrjaði að sturta dópinu niður klósettið þegar lögreglan braust inn og handtók okkur alla. Við biðum í haldi fyrir utan hótelið þangað til maður frá útgerðinni kom. Eftir að hann var búinn að tala við lögreglumennina kom hann til okkar og sagði okkur að koma okkur í burtu. Eftir þetta atvik rankaði ég við mér og fór til Svíþjóðar í meðferð. Ég þurfti að flýja land því að ég var orðinn eftirlýstur í undirheimunum út af þessu klúðri.“

Hvað hefur yfirleitt valdið því að þú fellur?

„Aðallega að ég hef misst sjónar á boltanum. Ég þarf alltaf að vera meðvitaður um að halda mér hreinum. Þetta er mjög einfalt mál í rauninni og aðeins tvær leiðir í boði. Fólk í kringum mig er líka meðvitað um þetta og spyr mig ef ég er farinn að verða eitthvað skrýtinn.“

Myndlistarmaður
Hefur teiknað frá barnæsku.

Þakklæti og auðmýkt

Valgarður hefur nýlokið við tveggja vikna myndlistarsýningu í Gallerý Porti ásamt Sigtryggi Berg Sigmarssyni. Gekk hún ljómandi vel og helmingur verkanna seldist. Valgarður hefur alla tíð teiknað og málað en ekki lært það í skóla.

Notar þú þína reynslu í sköpuninni?

„Já, hún hefur mótað mig og hefur áhrif á sköpunina. Ég er samt ekkert einsdæmi. Allt sem manneskjan gerir og hún lendir í, kemur aftur til hennar, þetta er hringrás. Á endanum eru það samt við sjálf sem ákveðum hvað við verðum, hvað við gerum og hver útkoman verður. Listin er útrás og flótti. Mjög ungur sá ég dökku hliðina á listaheiminum. Það var ekkert heillandi við það sem barn að vera fastur í fjögurra daga fylleríi í Flatey þar sem allir voru bæði fullir og í hassvímu,“ segir Valgarður og hlær. „Þegar ég fór í meðferðina ákvað ég að hætta allri sköpun. Hætti að skrifa, hætti að mála. Ég ætlaði ekki að fara inn í þetta volæði sem fylgdi listinni. Í listaheiminum sá ég líka ósvífna samkeppni, öfund og bakstungur. Ég sá fólk sem var að búa til list fyrir eigið egó. Síðar lærði ég það að láta egóið ekki stjórna þessu. Maður verður að vera auðmjúkur og þakklátur fyrir að fá að iðka þetta og að fólk vilji njóta verkanna.“

Valgarður er á góðum stað í dag og tekur hverjum degi auðmjúkur. Hann hefur hins vegar áhyggjur af stöðunni varðandi fíkniefnaneyslu ungs fólks, hinn svokallaða læknadópsfaraldur. Í dag þykir það venjulegt að unglingar byrji á neyslu morfínlyfja líkt og hann gerði fyrir rúmum þrjátíu árum. Hann segir:

„Það skiptir engu máli hvernig persóna maður er. Það eru bara efnin sem stjórna manni. Ég hef gert hluti sem ég mun alla ævina þurfa að skammast mín fyrir og vinna í að gera gott úr. Það besta sem ég get gert er að vera ekki í neyslu og láta gott af mér leiða með því að hjálpa öðrum. Ég segi bara frá hlutunum eins og þeir eru í þeirri von að fólk geti séð og gert sér grein fyrir alvarleika málsins. Í dag eru mjög margir fíklar að verða til og það er að mínu mati grafalvarlegt mál. Hreinlega upp á líf og dauða. Þegar ég var að byrja í neyslu höfðu flestir fíkniefnasalar þau prinsipp að selja ekki unglingum. Núna er það prinsipp löngu farið. Fólk leitar oft til mín. Þá ýmist fíklar, foreldrar eða fórnarlömb ofbeldis. Ég reyni að gera mitt besta til að hjálpa hverjum þeim sem leitar til mín. Það er mín leið til að borga til baka þann skaða sem ég olli sjálfum mér og umhverfinu. Þakklæti fyrir allt gott og slæmt.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024