fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Styrmir: Íslenskt samfélag að sundrast – Stjórnmálamenn gerðu sig seka um „alvarleg mistök“

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 5. nóvember 2018 13:18

Styrmir Gunnarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við búum í samfélagi sem er að sundrast. Fjölmennir hópar í samfélaginu upplifa djúpstæða óánægju og reiði sem veldur því að fleiri og fleiri í hópi þeirra sem taka þátt í opinberum umræðum tala um að það séu að verða til tvær þjóðir í landinu; önnur þeirra er innan dyra og nýtir sér aðstöðu sína á kostnað þeirra sem eru utan dyra og telja sig skilda eftir.“

Svona hefst grein Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem birt var í blaðinu um helgina. Yfirskrift greinar Styrmis er Breiðfylking hinna óánægðu og reiðu og skrifar Styrmir þar meðal annars um komandi kjarasamninga og það sundurlyndi sem virðist einkenna íslenskt þjóðfélag um þessar mundir.

„Íslenzkt samfélag hefur áður einkennzt af sundurlyndi eins og saga þjóðarinnar í bráðum 1200 ár sýnir. En það hefur verið af öðrum ástæðum en nú. Í kalda stríðinu var þjóðin klofin í herðar niður í tvær fylkingar. Það var ekki einhugur um leiðir í sjálfstæðisbaráttunni. En nú eru ástæðurnar aðrar. Nú er samfélagið að sundrast vegna þess að fámennir hópar, sem eru í aðstöðu til, hafa nýtt sér þá aðstöðu til að taka til sín stærri hlut af þjóðarkökunni en hinum sem utan við standa finnst sanngjarnt og réttlátt.“

Breiðfylking hinna óánægðu og reiðu

Styrmir segir að þessi upplifun of margra þjóðfélagsþegna hafi leitt til þess að nú sé að birtast við sjóndeildarhringinn annars konar og meiri breiðfylking hinna „óánægðu og reiðu“ en við höfum áður séð.

„Við höfum áður upplifað harkalegar deilur á vinnumarkaði, þótt þær kynslóðir sem nú stjórna landinu hafi ekki kynnzt þeim af eigin raun, sem hlýtur að vera skýringin á því, að þær skilja ekki og skynja ekki hvað er framundan að óbreyttu. Þessi breiðfylking hefur myndast með verkalýðshreyfingunni undir nýrri forystu, stórum hópi aldraðra sem telja sig hlunnfarna, öryrkjum sem telja sig standa utan garðs og tveimur nýrri hópum, Samtökum leigjenda, sem ganga nú fram af meiri samstöðu og hörku en áður hefur sést, og Hagsmunasamtökum heimilanna, sem urðu til eftir hrun og kalla nú eftir að samfélagið horfist í augu við það tjón sem hrunið olli nálægt tíu þúsund fjölskyldum sem hafa misst heimili sín á síðustu árum, af ástæðum sem þetta fólk hafði ekkert með að gera.“

„You have never had it so good“

Styrmir segir að þeir sem fara með völdin hverju sinni hafi tilhneigingu til að yppta öxlum og segja sem svo að það verði aldrei allir sáttir í lýðræðissamfélögum. Hann segir að í umræðum sem nú eru hafnar um kjarasamninga megi greina að sumir ráðherrar eigi erfitt með að skilja þessa óánægju. Þeir vitni í tölur um kaupmáttaraukningu sem hafi aldrei verið meiri og síðustu ár.

„Þeir eru í raun að taka sér í munn orð Harolds MacMillans, forsætisráðherra Breta, fyrir u.þ.b. sextíu árum, sem vann glæsilegan kosningasigur undir kjörorðinu „You have never had it so good“ eða Þið hafið aldrei haft það svona gott eins og nú. Þeir sem þannig tala virðast ekki skilja, að málið snýst ekki um þetta. Undirrót þeirra erfiðu kjarasamninga sem eru framundan eru alvarleg mistök þeirra sjálfra,“ segir Styrmir sem útskýrir nánar hvað hann á við með þessu.

Hann segir:

 „Þeir áttu auðvitað að afnema með lögum ákvarðanir Kjararáðs fyrir tveimur árum um launakjör æðstu embættismanna, þingmanna og ráðherra, sem tvö fordæmi voru fyrir síðustu tæp 30 ár, en gerðu ekki. Á meðan stjórnmálastéttin leiðir hjá sér að ræða og skýra þessi mistök hennar sjálfrar verður lítið hlustað á tal hennar um kaupmáttaraukningu.“

Ábyrgðin er þeirra

Styrmir segir að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar beri margvíslega ábyrgð. Það sé til að mynda þeirra hlutverk að stuðla að einingu og samstöðu í samfélaginu. Hann vitnar í orð Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði, á fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna í Valhöll á miðvikudag, en þar talaði hún mikilvægi þess að stuðla að einingu og samstöðu í litlu samfélagi eins og Hveragerði. Segir Styrmir það augljóst að hún líti á það sem sitt hlutverk að stuðla að því meðal íbúa Hveragerðis.

„Hún hefði eins getað verið að tala um Ísland allt. Sömu lögmál gilda í samfélaginu öllu eins og í litlum hluta þess, sem heitir Hveragerði. Þeir sem þessa stundina sitja í ríkisstjórn Íslands og á Alþingi bera sömu ábyrgð að þessu leyti og bæjarstjórinn í Hveragerði. Þeim ber að stuðla að einingu og samstöðu meðal þjóðarinnar. Nú er komið að því að þeir geta ekki lengur ýtt því á undan sér að tala við þjóðina um þessi mál. Ráðamenn í öllum flokkum verða að útskýra fyrir fólkinu í landinu hvers vegna þeir hafi tekið til sín hlut sem margir telja að þeir hafi engin rök fyrir. Þeir verða að hætta að forðast eins og heitan eldinn að tala um þessi mál. Vegna þess að þar liggur skýringin á þeirri stöðu, sem komin er upp á vinnumarkaði. Hvernig má það vera að kjörnir fulltrúar á Alþingi telji sig geta borið ábyrgð á því að efnahagslífið fari á hvolf vegna þess að þeir stóðust ekki freistinguna? Þeirra er ábyrgðin ef svo fer.“

Styrmir endar svo grein sína á þeim orðum að úti við sjóndeildarhringinn megi sjá breiðfylkinguna sem nálgast smátt og smátt.

„Hið endanlega vald í málefnum lands og þjóðar er í hennar höndum og annarra þjóðfélagsþegna. Það reynir fyrst á það vald í prófkjörum flokka og síðar að lokum í kosningum til Alþingis. Við höfum áður upplifað harkalegar vinnudeilur og við höfum líka upplifað pólitískar afleiðingar þeirra. Þeir sjálfstæðismenn sem muna svo langt aftur í tímann (og þeim fer fækkandi!) ættu að rifja upp kosningarnar vorið 1978 til borgarstjórnar Reykjavíkur og til Alþingis. Þurfum við virkilega að ganga í gegnum þetta allt aftur?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Stjórnarskrárbrot Alþingis: Lögmaður sýnir svart á hvítu hversu miklu var breytt í frumvarpinu – „6 orð sem standa eftir“

Stjórnarskrárbrot Alþingis: Lögmaður sýnir svart á hvítu hversu miklu var breytt í frumvarpinu – „6 orð sem standa eftir“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Samfylkingin slaufaði Þórði – hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn við Jón Gunnarsson?

Orðið á götunni: Samfylkingin slaufaði Þórði – hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn við Jón Gunnarsson?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“