Í dag kl. 12 kemur mezzosópransöngkonan Elsa Waage fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Á tónleikunum sem bera nafnið Skömm og örlög flytja þær aríur eftir G. Bizet, G. Puccini og R. Wagner sem skrifaðar eru fyrir djúpar kvennmannsraddir. Einnig verða flutt tvö íslensk lög sem oftast eru flutt af karlmönnum.
Elsa Waage lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Elísabetar Erlingsdóttur og fór síðar í framhaldsnám í Washington D.C. þaðan sem hún lauk B.M. –prófi í tónlist við Catholic University of America. Elsa hefur sungið ýmis óperuhlutverk bæði hér á landi og erlendis og á undanförnum árum hefur hún lagt áherslu á tónleikahald og komið fram með sinfóníuhljómsveitum og undirleikurum á Íslandi, Evrópu og í Bandaríkjunum. Elsa söng hlutverk Azucenu í Il Trovatore eftir Verdi haustið 2012 og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og Grímunnar fyrir þann flutning. Hún flutti hlutverk Helgu Magnúsdóttur í óperunni Ragnheiður eftir Gunnar Þórðarson og Friðrik Erlingsson árið 2014 hjá Íslensku óperunni. Elsa hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir flutning sinn á verkum Gustavs Mahler, Das Lied von der Erde, med Carinthiu-sinfóníuhljómsveitinni í Austurríki. Elsa hefur komið fram í sjónvarpi og útvarpi bæði á Íslandi, Ítalíu, Mexókó og Færeyjum.
Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.
Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis.