fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Jóhanna sakar Önnu systur sína og DV um að vega að „látnum heiðursmanni“ – „Óhróðri var dreift um foreldra mína“

Hjálmar Friðriksson, Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 3. nóvember 2018 18:43

Anna Ragna er til vinstri og Jóhanna systir hennar hægra megin

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér er vandaverk á höndum að bera sannleikanum vitni eftir að óhróðri var dreift um foreldra mína, löngu látin heiðurshjón, á samfélagsmiðlum síðastliðinn vetur og rataði þaðan í fjölmiðla, vandaða og óvandaða.“

Þannig hefst grein í Morgunblaðinu í dag. Þar ritar Jóhanna M. Thorlacius um frásögn systur hennar Önnu Rögnu Magnúsdóttur. Í viðtali við DV sakaði Anna Ragna föður sinn um að hafa misnotað hana kynferðislega. Anna hafði einnig tjáð sig á samfélagsmiðlum sem og við aðra miðla. Anna Ragna sem er næringarfræðingur, doktor í heilbrigðisvísindum og rithöfundur  sagði í samtali við DV þegar hún lýsti meintum brotum föður síns:

„Faðir minn var pervert, nauðgari og barnaníðingur. Hann var líka hæstaréttarlögmaður og frímúrari. Ég hef verið um sjö ára aldurinn þegar hann reyndi að troða typpinu undir nærbuxurnar mínar þar sem ég lá á milli foreldra minna. Mamma öskraði upp og reif mig frá honum.“

Faðir hennar lést árið 1978 en hún segist hafa þagað yfir brotum hans opinberlega í áratugi, meðal annars að ráði sálfræðinga sem töldu henni trú um að best væri að ræða brotin við trúnaðarmenn en annars halda þeim fyrir sjálfa sig. Í viðtali DV sem birt var fyrir tæpu ári sagði Anna Ragna:

„Í hvert skipti sem ég les frásagnir annarra undir ofangreindum myllumerkjum, í hvert skipti sem ég les viðtöl við þolendur kynferðisofbeldis eða bækur þeirra, fyllist ég miklu óþoli. Ég hef þráð að öskra: „Ég líka“. En alltaf hef ég hætt við, ákveðið að þegja frekar. Í hvert skipti sem ég heyri fólk tala af virðingu og upphafningu um föður minn verður mér óglatt. Mig hefur langað að kasta upp en alltaf hef ég kyngt og þagað.“

Anna sakar föður sinn, Magnús um alvarlegt kynferðisofbeldi.

Umfjöllun DV vakti talsverða athygli á þessum tíma. Anna Ragna opnaði sig eftir að metoo-byltingin hófst. Jóhanna og bróðir hennar kærðu umfjöllun DV til Siðanefndar Blaðamannafélags Íslands. Siðanefnd úrskurðaði að DV hefði ekki brotið siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Jóhanna sér sig knúna til að fjalla um systur sína í Morgunblaðinu í dag. Grein Jóhönnu hefst á eftirfarandi hátt:

„Hversu þörf sem metoo-bylgjan er, þá fljóta með frásagnir sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Samviskunnar vegna verð ég að lýsa aðstæðum fjölskyldunnar til að vega á móti staðhæfingum yngri systur minnar. Hún er fædd af yndislegu fólki, rosknum foreldrum sem hefðu getað verið amma hennar og langafi. Magnús Thorlacius var hæstaréttarlögmaður, Hanna Fossberg heimavinnandi. Hann var frímúrari, hún kenndi jóga um skeið. Móðirin var kvíðagjörn og vínhneigð. Því fylgdi vanræksla en faðirinn elskaði konuna sína takmarkalaust og dáði þá góðu manneskju sem hún hafði að geyma. Hann var nítjándu aldar maður sem elskaði guðsgjafirnar, börnin sín þrjú, en kunni ekki að styðja þau.“

Vill Jóhanna meina að systir hennar hafi verið viðkvæm og vegna áfengisvanda móður og heilsubrests foreldra hafi hún verið afskipt barn og tengslamyndun farið úr skorðum. Grein Jóhönnu miðast öll að því að draga úr trúverðugleika Önnu Rögnu og færa rök fyrir andlegum veikindum sem hafi sprottið fram vegna uppeldis. Í grein sinni segir Jóhanna:

„Á þessum árum frétti ég af stakri frásögn sem hún hafði birt í kvennablaði. Tvennt sló mig: Sagan er mögulega sönn en verknaður er enginn. Léttstígt barn tiplar upp í hjónarúm í myrkri og leggur hönd á eitthvað sem það þekkir ekki, auðvitað ekki. Í fáti bregðast foreldrarnir við eins og öll önnur hjón: Móðirin vefur barnið örmum, faðirinn baksar snöggt við að koma sér frá. Af þessu grandalausa fræi tel ég að spretti allir aðrir órar systur minnar.“

Jóhanna heldur fram að umfjöllun DV sé ýkt og um sé að ræða dylgjur og sora á hendur föður hennar. Jóhanna lýkur grein sinni í Morgunblaðinu á þessum orðum:

„þarf hvorki sönnun né afsönnun. Samtíminn hirðir um hvorugt. Ég tel að sektarkennd og vanmetakennd orsaki tilhæfulausar ásakanir systur minnar. Við hana vil ég aðeins segja eitt: Aldrei varstu sek. Hvorki þá né nú. Né heldur nokkur annar. Hér lýkur andsvari mínu.“

Frásögn Önnu Rögnu

Í frásögn Önnu Rögnu komu eins og áður segir fram ásakanir á hendur föður hennar um alvarlegt kynferðisofbeldi sem hún segir að hafi átt sér stað alla hennar barnæsku. Ástæðu þess að hún ákvað að opna sig var að hún vildi ekki lengur láta sannleikann hvíla í þögninni sem hafði haft djúpstæð áhrif á hana. Benti hún á að margir kynferðisbrotamenn í efri stéttum samfélagsins hefðu sloppið frá réttvísinni stöðu sinnar vegna. Anna Ragna sagði:

„Það var sagt um föður minn: „Hann var ljúfur maður en harður lögfræðingur“. Hann var í þessari fínu stöðu þannig að fólk bar virðingu fyrir honum, en heima sýndi hann allt aðra hlið á sér.“

Þá sagði Anna Ragna jafnframt: „Ég er búin að vinna í sjálfri mér mjög lengi og langt síðan ég fór að tala um sifjaspellin við fagaðila.“ Ein ástæða þess að hún tjáði sig ekki um málið fyrr en öllum þessum árum seinna, var sú að fagaðilinn taldi að það myndi ekki hjálpa og tók hún þeim skilaboðum alvarlega:

„Ég hlýddi þessum ráðum í 25 ár,“ sagði Anna Ragna. Þá bætti hún við að erfitt væri að sjá föður sinn mærðan. Kvaðst hún hafa fundið fyrir miklum létti að opna sig um málið. „Það er ekki nóg til að vinna úr áfallinu. Það sem er svo erfitt við þetta er að þótt maður ræði þetta við trúnaðarvini og eigi þessa fagaðila að, þá getur fjölskyldan áfram litið á þetta sem leyndarmál þótt hún viti af þessu og trúi því alveg að ofbeldið hafi átt sér stað. Fjölskyldan lætur samt eins og þetta hafi ekki gerst. Þögnin verður áfram þrúgandi. Þannig hefur mér liðið í tuttugu, þrjátíu ár.“

Vildi hún jafnframt meina að fólk hefði vitað af meintri misnotkun föður hennar árum saman.

„Það hefur verið erfitt að heyra föður minn mærðan á sama tíma og það ríkti þögn um þá glæpi sem hann framdi. Sumir höfðu ekki hugmynd um þetta fyrr en ég steig fram fyrir þremur vikum, en aðrir tóku þátt í að mæra hann þrátt fyrir að vita hvað hann hafði gert. Þannig var breitt yfir ofbeldið og það þaggað niður.“

Eins og kemur fram hér að ofan var DV kært til Siðanefndar fyrir viðtalið og braut ekki reglur. Í úrskurði sagði meðal annars:

Í öðru lagi vaknar sú spurning hvort DV hefur í frásögn sinni virt þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð sem ítrekuð er í 4. gr. siðareglna BI. Hér verður aftur að hafa í huga að frásögnin viðmælanda er að mestu leyti látin tala fyrir sig án athugasemda blaðamanns. Þannig kveður DV almennt ekki upp úr um sekt föður viðmælanda.

Þá segir ennfremur:

„Í umræddri frásögn setur nafngreindur einstaklingur fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur föður sínum. Það segir sig sjálft að slíkar ásakanir, t.d. um sifjaspell, verða ekki settar fram án þess að meintur gerandi sé í reynd nafngreindur. Þá stendur eftir sú spurning hvort það hafi verið rétt að birta umrædda andlitsmynd. Ekki verður séð að gömul, lítil andlitsmynd af viðkomandi bæti miklu við nafnbirtinguna, sérstaklega í ljósi þess að liðin eru fjörutíu ár frá því að viðkomandi einstaklingur lést. Þegar settar eru fram alvarlegar ásakanir á hendur nafngreindum einstaklingi í fjölmiðlum er sjálfsögð krafa að viðkomandi fái tækifreri til að svara fyrir sig. Í þessu tilviki var það ekki hægt af augljósum ástæðum. Eftir stendur þá hvort DV hefði átt að bjóða t.d. kærendum, systkinum viðmælanda, að tjá sig um umræddar ásakanir. Siðanefnd fær ekki séð að lesa megi úr viðtalinu ásakanir á hendur systkinum viðmælanda. Ekki er minnst á systkinin í greininni og aðeins á einum stað vikið að fjölskyldu viðmælanda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“

Líkfundurinn var aðeins byrjunin á ótrúlegri fléttu – „Ruglað fólk gerir ruglaða hluti“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hvers konar bíómyndir er best að horfa á í flugi – Ekki Cast Away og ekki Airplane!

Hvers konar bíómyndir er best að horfa á í flugi – Ekki Cast Away og ekki Airplane!
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur

Enn ruglast tælenskir fjölmiðlar á löndum – Íri í haldi lögreglu vegna andláts konu en er sagður íslenskur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Katrín í Lumex svarar lektornum – „Ef hún er með einhverja hefnd og grimmd þá má hún eiga hana. Ég á enga óvini“

Katrín í Lumex svarar lektornum – „Ef hún er með einhverja hefnd og grimmd þá má hún eiga hana. Ég á enga óvini“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segja að herforingjar neiti að framfylgja fyrirmælum Pútíns

Segja að herforingjar neiti að framfylgja fyrirmælum Pútíns