fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Galdra Tommi er seiðgoði og spilasafnari: „Ríkisleyndarmál hvernig ætti að skipta um trúfélag“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 4. nóvember 2018 19:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas V. Albertsson ber titilinn seiðgoði hjá Ásatrúarfélaginu og er í daglegu tali kallaður Galdra Tommi. Um árabil hefur hann rannsakað fjölkynngi en einnig er hann þekktur spilasafnari og hefur sankað að sér vel flestum íslenskum borð- og mannspilum. Tómas situr nú við skriftir og stefnir á að koma upp spilasafni fyrir austan fjall. DV heimsótti þennan sérstaka og heillandi mann.

Þetta er brot úr viðtali í helgarblaði DV.

Tómas er 58 ára gamall og uppalinn í Skagafirðinum en á ættir að rekja undir Eyjafjöll. Frá þrettán ára aldri vann hann verkamannavinnu og segir hann að skrokkurinn sé farinn fyrir vikið. Fertugur settist hann á skólabekk á Háskólanum á Akureyri og lærði nútímafræði og svo þjóðfræði í Háskóla Íslands og framhaldsnám í Bretlandi. Hefur hann fengist við eitt og annað í gegnum tíðina, til að mynda ættfræðirannsóknir hjá Oddi Helgasyni.

„Það kenndi mér að leita í gögnum. Þegar ég sé fólk fullyrða einhverja vitleysu í dag þá fer ég gjarnan í frumheimildir til að kynna mér hið rétta.“

Tómas er alþýðlegur og hlýr maður með sitt síða hár og skegg. Hann er einstaklega vel máli farinn og bæði fróður og minnugur en stutt í brosið. Hann er grúskari af guðs náð sem sökkvir sér djúpt ofan í heimildirnar. Heimildir um hluti sem fáir hafa rannsakað áður.

Prestar förguðu umsóknum

Síðan Tómas man eftir sér hefur hann verið heiðinn og árið 2004 var hann vígður sem seiðgoði hjá Ásatrúarfélaginu. Lengi vel var þó lagður steinn í götu hans til að ganga í félagið.

„Ég vissi ekki hvernig ætti að ganga í félagið, það var mikið leyndarmál hérna á árum áður. Á landsbyggðinni sáu prestar um að skila gögnunum til Hagstofunnar,“ segir Tómas og hikar. „En þeir skiluðu þeim ekkert, heldur settu þau beint í eldinn. Þeir voru ekkert að sleppa fólki úr hjörðinni sinni. Þess vegna var erfitt fyrir landsbyggðarfólk að ganga í félagið. Að lokum fór ég sjálfur á Hagstofuna og þar var umsóknareyðublaðið falið bak við borð. Það var eins og það væri ríkisleyndarmál hvernig ætti að skipta um trúfélag.“

Hvað er seiðgoði?

„Ég hef verið mikið að rannsaka alls kyns galdra og kukl. Ögmundur Helgason heitinn, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafnsins, uppnefndi mig Galdra Tomma og ég nota það nafn enn í dag. Allt þetta galdratal og rannsóknir leiddu til þess að ég var titlaður seiðgoði,“ segir Tómas og hlær.

Þannig að þú mátt gifta og jarða?

„Já, ég er með öll réttindi og var til dæmis með tvær giftingar í sumar. Þetta dettur inn af og til hjá mér og verður sjálfsagt meira eftir að ég verð alfluttur til landsins. Það er ansi mikið að gera í félaginu, hvað varðar giftingar, nafngjafir, siðfestu og fleira. Við erum að nálgast 5.000 manns og hofið í góðri byggingu. Við erum þegar komin með 60 prósent af fyrsta áfanga,“ segir hann rogginn. „Án þess að taka lán!“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni