„Alltaf þegar að mér datt í hug ástæða fyrir því að borða kjöt eða nýta mér dýr fann ég meira en hundrað, jafnvel meira en þúsund ástæður gegn því. Þetta er ekki svarthvítt umræðuefni en þegar ég lagði þetta á vogarskálirnar var mér ýtt svo langt í átt að veganisma,“ segir fyrirlesarinn og grænkerinn James Ellis, oftast kallaður Jamey, í samtali við matarvef DV. Hann kemur til Íslands innan skamms og heldur fyrirlestur um það sem hann kallar heildrænan veganisma í Andrými á Bergþórugötu þann 15. nóvember klukkan 18.
Jamey ólst upp í Bandaríkjunum og hefur gefið heiminum sig að gjöf síðustu ár með ýmiss konar fyrirlestrum og þekkingarmiðlun.
„Ég er hvítur karlmaður sem er afurð verkamannauppeldis í Bandaríkjunum. Hins vegar hef ég farið aðra leið í lífinu en jafnaldrar mínir á fullorðinsárum, eða svo held ég allavega. Ég hef búið í ýmsum löndum, hjólað á milli ýmissa heimshluta og lifað undir ratsjánni. Mitt helsta frávik frá upprunanum, og hugsanlega það eina sem skiptir raunverulegu máli, var að ákveða að tileinka mér ofbeldislausa heimspeki. Það varð til þess að ég valdi líf sem þjónustuaðili. Síðan árið 2008 hef ég gefið allan minn tíma og vinnu sem gjöf. Ég hjálpa þar sem ég get, þegar ég get og geri mitt besta. Þess vegna held ég fyrirlestra um heildrænan veganisma og hugsunina á bak við hann. Það er ein af leiðinum sem ég get látið gott af mér leiða í heiminum,“ segir Jamey.
Árið 2008 urðu tímamót í lífi Jamey. Hann var búinn að fara í háskóla sem kostaði of mikið og fékk sér aukavinnu sem barnfóstra.
„Þetta varð að frama og færði mér frábær tækifæri. Loks var ég kominn til New York, þar sem hjarta mitt var alltaf, og naut þægilegs lífs. Æskudraumur minn um ferðalög dofnaði aldrei þannig að loks ákvað ég að yfirgefa New York og hjóla um heiminn samhliða því að vinna sjálfboðaliðastörf,“ segir Jamey.
„Eftir sex mánuði á ferðalagi endaði ég í Sadhana-skóginum á Indlandi. Þá vissi ég ekki að ég myndi eyða meirihluta næsta áratugar að búa og hjálpa þar. Það passaði mér fullkomlega og hjálpaði mér að þróa með mér samúð og gaf mér tíma til að hugsa. Ég lærði hluti um sjálfa mig sem ég hefði ekki gert í New York. Ég gegndi mörgum hlutverkum þessi ár á Indlandi, til dæmis sem verkefnastjóri og síðast sem umsjónarmaður griðarstaðs kúa sem var opnaður árið 2016.“
Snemma á þessu ári ákvað Jamey að söðla um og byrja næsta kafla í sínu lífi. Nú einbeitir hann að sér að skrifa um heildrænan veganism á heimasíðu sinni og halda fyrirlestra um heim allan. Þá leitar hann sér einnig að nýju heimalandi, og kemur Ísland sterklega til greina. Í dag er hann enn að gefa vinnu sína og lifir því eingöngu á framlögum.
„Það erfiðasta er að halda áfram að lifa innan gjafahagkerfisins. Þetta væri auðveldara ef ég myndi vinna með annarri manneskju eða myndi skrá vinnu mína innan góðgerðarsamtaka. En ég ætla að vera einn eins og er og ég get lifað og unnið vegna framlaga frá örlátu fólki. Ég trúi því að ég muni á endanum fá nóg til að lifa af og að einn daginn verði ég hluti af góðgerðarsamfélagi en núna er þetta tilraun. Ég trúi á gjafahagkerfið og sjálfan mig þannig að ég mun ekki breyta hugsunarhættinum mínum svo auðveldlega.“
Jamey kynntist veganisma fyrst í miðskóla en það tók hann nokkur ár að verða hundrað prósent grænkeri.
„Ég samþykkti strax þann sannleika að það væri sama kúin sem ég borðaði, drykki, klæddist, þvoði hárið mitt með og nýtti í fullt af öðrum hlutum. Þessi staðreynd fullvissaði mig um að ég myndi aldrei verða gærnmetisæta en hugsanlega yrði ég vegan einn daginn. Ég sá skort á heilleika innra með mér ef ég myndi bara velja grænmeti en á þessum tíma gat ég ekki breytt lífinu þannig að ég breytti engu. Spólum áfram nokkur ár og þá las ég bókina Diet For a New America eftir John Robbins. Þá varð ég vegan yfir nóttu – eða svo gott sem. Fyrsta árið svindlaði ég aðeins en þrá mín í heilleika á bak við ákvarðanir mínar bundu enda á það – eða svo gott sem. Það sem ég er að gefa í skyn er að loks sættist ég við þá staðreynd að maður er aldrei búinn að vera meðvitaður neytandi og að sú vegferð endist mér ævina. Ég er það sem fólk kallar vegan og hef verið það í sextán ár. Ég er sífellt að útvíkka meiningu þess fyrir sjálfan mig og þar kemur heildrænn veganismi inn í spilið,” segir Jamey.
En hvað er heildrænn veganismi sem Jamey predikar, ef svo má segja?
„Heildrænn veganismi er orðasamsetning sem ég nota til að lýsa því breiða umfangi sem veganismi er. Ég hef rannsakað þetta efni talsvert og komst að því að engin lýsing á veganisma nær utan um hugsunarháttinn, eða hvernig hann getur þróast,” segir Jamey og heldur áfram.
„Í mínum skilningi er heildrænn veganismi gatnamót allra félagslegra og umhverfislegra áhyggja okkar, sambands okkar við hvort annað og sjálfbær hugmyndafræði sem kallast ofbeldislaus, eða ahimsa. Í því felst sjálfsást, barnauppeldi, ábyrgt neyslusamfélag, endurskoðun á núverandi hagkerfi, samskipti og svo margt fleira. Þegar ég tala eða skrifa er aðalmarkmiðið að fólk gangi í burtu með það í huga að auka heilleika í trú sinni og að það sjái að ofbeldislaus nálgun gagnast því. Veganismi, heildrænn veganismi eða hvað sem þú kallar það verður líklegast tól í leit að þessum persónulega heilleika. Maturinn okkar hefur mest áhrif á plánetuna okkar, á huga okkar og líkama. Matur og framleiðsla hans nota mest mannafl, landsvæði, vatn, olíu og peninga. Hann hefur stærstu áhrif á manneskjur, dýr og heilsu plánetunnar. Þetta er eina aðgerðarstefnan sem fólk getur tekið þátt í frá vöggu til grafar, meðvitað eða ómeðvitað. Þannig að þetta er rökræn lausn, eða andleg lausn fyrir þá sem eru þannig þenkjandi, þegar fólk hefur fengið allar upplýsingar.“
Eins og áður segir sækir Jamey Ísland heim í nóvember og dvelur hér í sautján daga. Hann leitar nú að samastað þessa sautján daga, en í fyrsta sinn á ferðalögum sínum um heiminn ætlar hann eingöngu að dvelja hjá grænkerum.
„Það liggja fjölmargar ástæður að baki heimsókn minnar til Íslands. Þetta er eitt af löndunum sem mig langar að heimsækja áður en ég dey. Sama má segja um norðurljósin. Ég er að leita að nýju heimalandi og fannst tilvalið að heimsækja Ísland í nóvember til að upplifa veturinn. Ég hef aldrei áður leitað eftir því að gista eingöngu hjá vegan fólki. Að þessu sinni langaði mig að sjá hvort það myndi hafa áhrif á upplifun mína og hvort ég myndi kynnast samfélaginu hraðar,“ segir Jamey.
Telur þessi víðförli grænkeri að veganismi sé framtíðin í mataræði jarðarbúa?
„Ég held að framtíðin bjóði upp á tvo möguleika. Að við höldum áfram að útdeila auð og aðgengi að mat, lyfjum og menntun á fáar hendur sem er skaðlegt fyrir allt líf á plánetunni eða að við höldum áfram að þróast félagslega. Fyrir mér þýðir félagsleg þróun eitthvað í dúr við heildrænan veganisma en örugglega eitthvað betra. Þetta er mjög stærðfræðilegt umræðuefni og þrátt fyrir breyturnar eru fáir hlutar jöfnunnar svo mikilvægir að við eigum ekki val. Til dæmis eigum við eina plánetuna. Það er ekki annað tækifæri gefið ef það fyrra mistekst. Okkur er nú þegar að mistakast þannig að það er búið að kveikja eldinn, bæði bókstaflega og myndlíkingarlega séð. Við erum búin að ljúka nánast öllum rannóknum til að slökkva eldinn og sú vinna byrjar með því að mæta grunnþörfum mannsins, eitthvað sem við getum gert ef gróðasjónarmið eru lögð til hliðar, þannig að maðurinn vilji ekki og þurfi ekki að skaða aðrar lífverur eða plánetuna. Veganismi er mannúðlegur málstaður. Ef grunnskilgreiningin er að útrýma óþarfa þjáningu dýra þá er mannfólkið að sjálfsögðu meðtalið. Ég lít á veganisma sem samheiti yfir góðmennsku og ég lít á góðmennsku sem samheiti yfir sjálfbærni.“
Þeir sem hafa fylgst með umræðu um veganisma á Íslandi hafa tekið eftir hve hatrammar deilur geta sprottið upp á milli grænkera og kjötæta. Jamey er á því að þessar deilur spretti upp vegna ótta og segir nokkra hluti geta hjálpað báðum hópum að lifa í sátt og samlyndi.
„Það fyrsta er meiri auðmýkt og hæfileiki til að setja sig í spor annarra, hvort sem þau eru betri eða verri en manns eigin. Það er kennd mikil vitleysa í skólum og okkur er ekki kennt að vera víðsýn og hugsa gagnrýnið. Þannig að það er ekki furða að við ölumst upp við að hugsa í sömu, beinu línunum og við vorum neydd til að gera í skóla og vinnu. Maður þarf að leggja á sig til að hugsa og hegða sér á annan máta en maður er vanur, og það á meira að segja við eftir að fólk verður vegan. Þarna gæti heildrænn veganismi hjálpað,“ segir Jamey og bætir við að þeir sem aðhyllist heildrænan veganisma geti séð heiminn í betra ljósi. Það er einmitt það sem hann predikarar hvað helst – að finna tengingu á milli veganisma og annarra anga heimsins.
„Ég mæli oft með að fólk sem er nýgræðingar í veganisma finni sér grunn sem hvetur það áfram og styður. Ég spyr það hvort það sé ástríðufullt eða áhugasamt að tala um kynþáttahatur, femínisma, kapítalisma, heilsu, dýravelferð, umhverfismál eða eitthvað annað, áður en það verður vegan. Algengt dæmi er að manneskja kemur til mín sem lítur á sig sem femínista en sér ekki tenginguna við veganisma. Þannig að ég segi henni að fara heim og fletta upp femínisma og veganisma eða kynþáttahatri og veganisma og svo framvegis,“ segir Jamey og bætir við að það séu áberandi tveir hópar sem breyti hugarfari sínu eftir fyrirlestur hjá honum.
„Þeir tveir hópar sem fá oftast hugljómun á meðan eða eftir fyrirlestur eru bændur og femínistar,“ segir hann og brosir. „Ég minni þau líka á að þau eru að gera sitt besta og að meira geti þau ekki gert. Það er líkamleg staðreynd og það er í lagi. Og í hvert sinn sem heilinn þinn eða hjarta er ósammála ákvörðunum þínum þá ert það þú að læra eitthvað nýtt. Það tekur tíma að læra. Við förum ekki beint frá því að skríða í að hlaupa. Veganismi er almennt sé ekki öðruvísi en önnur stig í lífi þínu. Þú munt komast þangað.“
Hann segir að það sé ekki rétt aðferð þegar verið sé að tala við kjötætur að varpa á þær samviskubiti yfir að vera ekki vegan.
„Opnaðu þig fyrir þeim og talaðu án þess að dæma. Ekki tala um þau. Það þyrmir yfir fólk þegar of mikil ábyrgð er sett á það ásamt skömm og sekt. Já, við erum öll ábyrg sem einstaklingar en samfélagið er það líka. Leyfið manneskjum að sjá vandamálið og stýrið þeim í átt að þeirra eigin hugljómun þannig að þau geti tekið þessa samfélagslegu ábyrgð. Og, já, ekki tala um þetta yfir máltíð, jafnvel ekki vegan máltíð. Spyrjið manneskjuna hvort hún vilji tala við þig og ef hún vill það, talið þá þegar maturinn er búinn. Hér eru engar undantekningar í boði. Með þessari leið sýnir þú manneskjunni virðingu og hún sýnir þér að hún hefur raunverulegan áhuga á að tala við þig.“
Þeir sem hafa áhuga á að hlýða á fyrirlestur Jamey á Íslandi geta skoðað Facebook-viðburðinn hér.