Robert Pickton var djöfull í mannsmynd – Játaði að hafa framið 49 morð
Hann lét Texas Chainsaw Massacre líta út eins og afþreyingartæki í Disneyworld. Þessi orð hafa verið höfð um Kanadamanninn Robert Pickton sem verður væntanlega minnst sem eins versta fjöldamorðingja í sögu Kanada. Pickton þessi fæddist í Port Coquitlam í Bresku Kólumbíu, skammt austur af Vancouver, árið 1949. Ekki fer mörgum sögum af uppvaxtarárum Picktons en þó var hann náinn bróður sínum, David, enda ráku þeir saman svínabú í heimabæ sínum.
Robert var lýst sem rólegum náunga sem átti það til að hegða sér einkennilega. Svo virðist vera sem þeir hafi ekki beint verið mjög hæfir svínabændur, enda vanræktu þeir starfsskyldur sínar; svínabúið var bæði skítugt og dýrin illa hirt. Þeir áttu það til að halda mikil og stór partí á svínabúinu þar sem vændiskonum og meðlimum Vítisengla var meðal annars boðið. Þessi partí drógu til sín mikinn fjölda fólks og voru dæmi um það að allt að tvö þúsund manns hafi mætt þegar mest var.
Víkur nú sögunni til ársins 1997. Í mars það ár var Robert handtekinn vegna gruns um tilraun til manndráps. Vændiskonan Wendy Lynn Eistetter sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum við Robert eftir að hún heimsótti hann á svínabúið. Sagði hún hann hafa bundið sig og stungið. Í janúar 1998 var málið látið niður falla.
Um þetta leyti starfaði maður að nafni Bill Hiscox á svínabúinu. Bill þessi var ýmsu vanur en veitti því þó athygli að konur sem heimsóttu Robert á svínabúið áttu það til að birtast í fjölmiðlum skömmu síðar þar sem þeirra var saknað. Bill velti þessu ekkert meira fyrir sér, ekki fyrr en löngu síðar að minnsta kosti.
Þann 6. febrúar árið 2002 framkvæmdi lögregla húsleit á svínabúinu vegna gruns um að bræðurnir væru með ólögleg vopn á búinu. Óhætt er að segja að þá hafi hjólin farið að snúast; á svínabúinu fundust munir sem tengdust hinum týndu konum en þar sem lögregla hafði ekkert haldbært í höndunum var Robert sleppt. Óeinkennisklæddir lögreglumenn fylgdust þó með hverju skrefi Roberts og þann 22. febrúar var hann handtekinn vegna gruns um tvö morð. Það reyndist aðeins toppurinn á ísjakanum. Eftir því sem rannsókn lögreglu vatt fram komu fleiri fórnarlömb upp úr krafsinu. Áður en yfir lauk hafði Robert verið ákærður fyrir morð á 27 konum. Hann játaði þó að hafa drepið 49 konur.
Ekki er talið útilokað að Robert hafi framið sitt fyrsta morð árið 1983, sem þýðir að í tæp tuttugu ár gat hann gengið um óáreittur og myrt konur, oftar en ekki vændiskonur eða konur úr kynlífsiðnaðinum.
Aðferðirnar sem Robert beitti voru svívirðilegar. Hann er talinn hafa ráðið konunum bana áður en hann gaf svínunum á svínabúnu líkamsleifarnar. Hann er meira að segja sagður hafa gengið svo langt að hafa hakkað líkin niður, blandað þeim við svínahakk áður en hann seldi kjötið, ýmist til fyrirtækja, lögreglumanna eða vina og vandamanna.
Robert neitaði alfarið að ræða málið við lögreglu og var því brugðið á það ráð að koma honum fyrir í fangaklefa sem hann deildi með öðrum fanga. Robert vissi ekki að fanginn var í raun lögreglumaður og fékk sá upp úr honum að fórnarlömbin hefðu verið 49.
Haft var eftir Pickton að hann hefði viljað ná að fremja eitt morð í viðbót til að ná 50 fórnarlömbum en, að eigin sögn, kostaði kæruleysi hans það markmið.
Ítarleg DNA-rannsókn var gerð á svínabúinu sem leiddi í ljós að margar þeirra kvenna sem höfðu horfið höfðu í það minnsta verið á svínabúinu. Robert var ákærður fyrir morð á 26 konum en dæmdur fyrir sex morð. Þann 9. desember 2007 var Robert dæmdur í lífstíðarfangelsi og getur hann sótt um reynslulausn í fyrsta lagi árið 2032.