Þegar Bertha María Mæhle Vilhjálmsdóttir var gengin tuttugu vikur á leið með son sinn mætti hún grunlaus í tuttugu vikna sónarinn, spennt fyrir því að fá að vita kynið. En þegar í sónarinn var komið var kyn barnsins ekki einu fréttirnar sem þau fengu að vita.
Ljósmóðirin tók eftir óeðlilega mikilli víkkun á nýrnaskjóðu í öðru nýranu á drengnum okkar, hún átti erfitt með að útskýra fyrir okkur hvað það þýddi og vildi ráðfæra sig við sérfræðing á Barnaspítalanum,
segir Bertha í einlægri færslu sinni á Narnia.
Á þessum tímapunkti vissi ég ekkert hvað ég ætti að hugsa en allt í einu átti ég kannski að fara niður á barnaspítala í nánari skoðun, ég fór alveg á taugum!
Í ljós kom að Bertha þurfti ekki að fara í nánari skoðun í þetta skiptið en hún þurfti þó að fara í fjóra auka sónara til þess að fylgja víkkuninni eftir.
Þar sem barnið var enn í móðurkviði var eina úrræðið að bíða þar til hann myndi fæðast og fylgja þessu þá eftir.
Eftir fæðingu Þórðar Reynis fara Bertha og kærasti hennar í fimm daga skoðun þar sem hann fær topp einkunn.
Síðan minnumst við á víkkunina og er þá tekin blóðprufa úr höfðinu á honum og hann sendur í ómskoðun. Á þessum tímapunkti vissum við ekki neitt hvað væri í gangi og enginn sagði okkur neitt hvað þetta gæti þýtt. Þegar Þórður fer í ómunina man ég hvað lækninum brá þegar hann sá hversu mikil víkkunin væri. Seinna sama dag hringir sérfræðilæknir í nýrum ungbarna í okkur og útskýrir fyrir okkur hvað þetta þýði og að í öðru nýranu sé töluverð víkkun.
Tveimur dögum síðar mæta Bertha og kærasti hennar með Þórð í skuggarannsókn sem kom ágætlega út en vildi læknirinn þó senda Þórð einnig í Ísótópa rannsókn.
Við mætum svo með Þórð í Ísótópa rannsókn í september þegar hann er alveg að verða þriggja mánaða. Í þeirri rannsókn þarf að vera alveg grafkyrr og helst sofandi svo Þórði var gefið róandi lyf. Í Ísótópa rannsókn er notað geislavirkt efni sem er sprautað í gegnum æðalegg. Í Þórðar tilfelli var æðaleggurinn í höfðinu á honum. Þegar geislavirka efnið er komið inn í líkamann þá safnast það fyrir á þeim stað sem verið er að rannsaka og segir til um ástandið. Ef allt hefði verið í lagi hjá Þórði hefði efnið átt að safnast saman í báðum nýrunum, en það gerði það ekki, efnið safnaðist bara saman í öðru nýranu. Geislafræðingurinn sem sá um rannsóknina spurði okkur hvort hann hefði bara fæðst með eitt nýra svo okkur grunaði að annað nýrað væri ekki virkt.
Um tveimur vikum síðar fara Bertha og kærasti hennar í viðtal hjá lækninum og fá þar fréttirnar að Þórður sé í rauninni bara með eitt virkt nýra, hitt nýrað sé til staðar en það sé einungis nokkrir millimetrar á stærð og gegni engum tilgangi.
Í staðinn er hitt nýrað sem er virkt, örlítið stærra og vinnur alla vinnuna. Líkaminn mun vonandi sjá um að vefja óvirka nýranu inn í vef svo það hafi ekki áhrif á virka nýrað og geti ekki skemmt út frá sér. Í versta falli mun Þórður þurfa að fara í aðgerð til að fjarlægja óvirka nýrað. Hann mun þurfa að vera í áframhaldandi eftirliti þar sem fylgst verður með honum. Þetta var pínu áfall fyrir okkur en læknirinn útskýrði samt fyrir okkur að Þórður er mjög heilbrigður og flottur strákur, og að það væri fullt af fólki sem lifir frábæru og heilbrigðu lífi með aðeins eitt nýra.
Hægt er að fylgjast með Berthu á eftirfarandi miðlum:
Snapchat: berthamaria
Instagram: bertha.maria