Einhver hefur hengt veggspjald sem á stendur „It‘s OK to be white“, eða „Það er í lagi að vera hvítur“ í ruslafötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Hekla E. Aðalsteinsdóttir vekur athygli á þessu á Twitter og spyr: „Getur einhver útskýrt þennan gjörning fyrir mér?“
Getur einhver útskýrt þennan gjörning fyrir mér? pic.twitter.com/JKWmZE5tqq
— Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir (@a_hekla) October 31, 2018
Veggspjaldið, sem virðist vera prentað A4 blað, á rætur sínar að rekja til herferðar nýnasista á spjallsíðunni 4chan, átti tilgangurinn að vera að hengja upp einföld skilaboð til að ögra „rétttrúnaðarfólki“ og ýta þannig þeim sem finnst skilaboðin sakleysisleg í átt að nýnasisma. Veggspjöld af þessu tagi hafa verið hengd á götum úti í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu og víðar, þar á meðal nálægt háskólum. Þess má geta að veggspjaldið hér á landi er steinsnar frá Háskóla Íslands. Slagorðið „Það er í lagi að vera hvítur“ hefur verið notað af rasistasamtökum á borð við Ku Klux Klan.
Slagorðið varð ekki að miklu fári líkt og vonast var til en vitað er til að kallað var til lögreglu í einu tilviki.
Fjölmiðlar greindu frá því fyrir tveimur árum að nýnasistar væru að hasla sér völl hér á landi. Um er að ræða hreyfingu sem á rætur að rekja til Norðurlandanna og nefnist Nordfront, eða Norðurvígi á íslensku. Norðurvígi dreifði bréfum í hús í Vesturbæ Reykjavíkur og hengdi upp plaköt.
Norðurvígi, eða Norræna mótstöðuhreyfingin, hefur það sem markmið að leggja niður íslenska ríkið í núverandi mynd og skapa í staðinn sjálfbært norrænt ríki með sameiginlegum her, gjaldmiðli og miðstýrðum banka, koma í veg fyrir að útlendingar flytjist til Norðurlanda og banna fjölmiðla sem vinna gegn norrænu fólki. Norðurvígi skaut aftur upp kollinum í sumar, greindi Stundin frá því að Norðurvígi hefði dreift veggspjöldum og límmiðum í Hlíðunum í Reykjavík.
DV sendi fyrirspurn á Norðurvígi varðandi veggspjaldið og slagorðið „It‘s OK to be white“ en svar hefur ekki borist.