fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Galdra Tommi vill koma upp spilasafni

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 6. nóvember 2018 21:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tómas V. Albertsson ber titilinn seiðgoði hjá Ásatrúarfélaginu og er í daglegu tali kallaður Galdra Tommi. Um árabil hefur hann rannsakað fjölkynngi en einnig er hann þekktur spilasafnari og hefur sankað að sér vel flestum íslenskum borð- og mannspilum. Tómas situr nú við skriftir og stefnir á að koma upp spilasafni fyrir austan fjall. DV heimsótti þennan sérstaka og heillandi mann.

Tómas er 58 ára gamall og uppalinn í Skagafirðinum en á ættir að rekja undir Eyjafjöll. Frá þrettán ára aldri vann hann verkamannavinnu og segir hann að skrokkurinn sé farinn fyrir vikið. Fertugur settist hann á skólabekk á Háskólanum á Akureyri og lærði nútímafræði og svo þjóðfræði í Háskóla Íslands og framhaldsnám í Bretlandi. Hefur hann fengist við eitt og annað í gegnum tíðina, til að mynda ættfræðirannsóknir hjá Oddi Helgasyni.

„Það kenndi mér að leita í gögnum. Þegar ég sé fólk fullyrða einhverja vitleysu í dag þá fer ég gjarnan í frumheimildir til að kynna mér hið rétta.“

Tómas er alþýðlegur og hlýr maður með sitt síða hár og skegg. Hann er einstaklega vel máli farinn og bæði fróður og minnugur en stutt í brosið. Hann er grúskari af guðs náð sem sökkvir sér djúpt ofan í heimildirnar. Heimildir um hluti sem fáir hafa rannsakað áður.

Seiðgoði Ríkisleyndarmál hvernig skipta ætti um trúfélag.

Prestar förguðu umsóknum

Síðan Tómas man eftir sér hefur hann verið heiðinn og árið 2004 var hann vígður sem seiðgoði hjá Ásatrúarfélaginu. Lengi vel var þó lagður steinn í götu hans til að ganga í félagið.

„Ég vissi ekki hvernig ætti að ganga í félagið, það var mikið leyndarmál hérna á árum áður. Á landsbyggðinni sáu prestar um að skila gögnunum til Hagstofunnar,“ segir Tómas og hikar. „En þeir skiluðu þeim ekkert, heldur settu þau beint í eldinn. Þeir voru ekkert að sleppa fólki úr hjörðinni sinni. Þess vegna var erfitt fyrir landsbyggðarfólk að ganga í félagið. Að lokum fór ég sjálfur á Hagstofuna og þar var umsóknareyðublaðið falið bak við borð. Það var eins og það væri ríkisleyndarmál hvernig ætti að skipta um trúfélag.“

Hvað er seiðgoði?

„Ég hef verið mikið að rannsaka alls kyns galdra og kukl. Ögmundur Helgason heitinn, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafnsins, uppnefndi mig Galdra Tomma og ég nota það nafn enn í dag. Allt þetta galdratal og rannsóknir leiddu til þess að ég var titlaður seiðgoði,“ segir Tómas og hlær.

Þannig að þú mátt gifta og jarða?

„Já, ég er með öll réttindi og var til dæmis með tvær giftingar í sumar. Þetta dettur inn af og til hjá mér og verður sjálfsagt meira eftir að ég verð alfluttur til landsins. Það er ansi mikið að gera í félaginu, hvað varðar giftingar, nafngjafir, siðfestu og fleira. Við erum að nálgast 5.000 manns og hofið í góðri byggingu. Við erum þegar komin með 60 prósent af fyrsta áfanga,“ segir hann rogginn. „Án þess að taka lán!“

 

Galdrar virkuðu

Tómas gerir sér ekki alveg grein fyrir hvers vegna hann hefur haft svona mikinn áhuga á göldrum.

„Mér finnst þetta bara svo gaman. Galdur er í sjálfu sér ekkert svo frábrugðinn sumu af þessu kaþólska bænaveseni. Þetta er aðeins önnur leið að sömu markmiðum. Fólk hefur alltaf verið að leita að leiðum til lækninga og betrunar. Mikið af þessum íslensku göldrum er varnargaldrar fyrir reiði, öfund og fégirnd annarra á þeirra eigið fé til dæmis.“

Virka galdrar að einhverju leyti?

„Já, á sálfræðilegan hátt. Ef þú trúir einhverju, þá virkar það. Það er hægt að sjá það í sögum og sögnum að galdrar auka staðfestu manna. Kröftugustu særingarnar reyndust oft aðeins vera Faðirvorið á latínu aftur á bak,“ segir Tómas og skellir upp úr.

Fólk trúði á þetta áður fyrr?

„Já, mjög. Ég hef einnig séð þess merki að sumir hafi framleitt galdrabækur til þess að selja útlendingum sem hingað komu. Var það þá nokkurs konar ferðamannabransi.“

Hafa galdrar fylgt þjóðinni frá landnámi?

„Galdrar og ekki galdrar,“ segir Tómas hugsi. „Ég held að margir kaþólskir prestar í fyrri tíð hefðu fremur skilgreint þetta sem heiðinskap heldur en galdur. Elstu heimildirnar eru um konur sem fóru í hella með mat, sem var ákveðin fórnarathöfn en ekki galdur. Þegar lútherisminn kom versnaði svo margt og þá var margt stimplað sem galdur þó að það hafi ekki verið það.“

Safnari „Sum eru líklega alfarið glötuð, en maður veit aldrei“

Söfnunaráráttan

Tómas hefur safnað íslenskum borðspilum í fimmtán ár, bæði alíslenskum og þýddum og staðfærðum. Einnig safnar hann íslenskum mannspilum, sem oft hafa verið gefin út af fyrirtækjum og stofnunum. Eru borðspilin orðin um 400 talsins, sem Tómas gerir ráð fyrir að sé um 95 prósent af heildinni og mannspilastokkarnir eru orðnir í kringum 2.000.

„Það er vænlegast að telja þetta í brettum og ég er kominn með tvær Euro-pallettur hérna inni,“ en spilin fær hann nú að geyma í kjallaranum í Spilavinum. Tómas er nú að vinna að flutningum til Íslands en hann hefur búið í Bretlandi undanfarin ár. „Ég er með eina pallettu í viðbót með Waddingtons-leikjum sem ég ætla að koma með líka, og bækur.“

Tómas er ekki einungis að þessu fyrir sjálfan sig því að hann situr við skriftir að bók um íslensk spil, frá landnámi til dagsins í dag, og stefnir á að gefa hana út um áramótin.

Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á þessu?

„Að hluta er þetta söfnunarárátta,“ segir Tómas og brosir. „Svo finnst mér þetta áhugavert því það er lítið vitað og þetta hefur eiginlega allt verið frumrannsókn hjá mér. Það hefur ekkert verið tekið saman um hvað hefur verið gefið út. Því hefur verið haldið fram að lítið hafi verið spilað hérna á Íslandi á árum áður en það er vitleysa. Til að mynda var starfræktur klúbbur í Reykjavík frá 1805 til 1843 en mjög lítið hefur verið skrifað um hann.“

Þótti þetta ómerkilegt?

„Já. Þeir sem voru að skrifa einblíndu á hvað væri alíslenskt og spil voru talin útlenskt áhugamál. Það var fyrst og fremst kotran sem fjallað var um af því að hún er íslensk, og skák.“

Kotra er séríslenskt tilbrigði við Backgammon, spilað á sams konar borði.

„Þessi hugsun manna um reglur er 20. aldar hugmynd. Reglur voru ekki svo nákvæmar, fóru frá munni til munns og hliðruðust til eftir stöðum og tíma. Þær voru ekki festar á blað fyrr en á 19. öld þegar bækur fóru að verða algengar.“

Hvað vantar þig mikið?

„Mig vantar helst spil gefin út á árunum 1933 til 1960. Þau sem ég hef mest verið að leita að eru fasteignaspilið Bungaló, Grettissund, Sóknin, Skíðahlaup, Kappflugið í kringum Ísland, Flugtaflið, Stafaleikir með afa og ömmu, Jólasveinn á jeppa og Syrpuútgáfur. Knattspyrnuspilið á ég tætlur af. Ég náði 10 litlum negrastrákum fyrir tveimur eða þremur árum. Kappflugið til Heklu kom núna fyrir skemmstu. Þetta tínist til.“

 

Sturlungar spiluðu

Tómas er duglegur að auglýsa að hann sé að safna og hefur fólk komið og fært honum það sem finnst, til að mynda á háaloftum, í bílskúrum og sumarbústöðum. Hann gerir sér þó grein fyrir að sum spilin gætu verið glötuð. Nefnir hann til dæmis Handboltaspilið frá 1961 sem seldist illa og líklega var lagernum fargað. „Sum eru líklega alfarið glötuð, en maður veit aldrei.“

Fyrstu spilin sem voru gefin út á Íslandi voru Lúdó og Í kringum Ísland. Síðan varð mikil bylting þegar Matador, íslensk útgáfa af Monopoly, kom út árið 1939. Á sama ári kom út Milljóner, sams konar og Matador, en varð undir í harðri samkeppni.

Íslendingar hafa þó vafalaust spilað alla tíð frá landnámi eins og Tómas bendir á. Í Sturlungu, sem skrifuð var á þrettándu öld, er minnst á kotru og hnefatafl var iðkað á víkingatíma. Á Backgammon-borði spiluðu Íslendingar einnig tilbrigði sem heitir Að elta stelpur. Spil hafa ekki aðeins fylgt Íslendingum heldur mannkyninu öllu og er það elsta Senet, sem fannst í grafhýsi faraós í Egyptalandi.

„Spil höfðu gjarnan trúarlegan tilgang, til dæmis Senet þar sem leikendur voru að spila sig inn til dauða. Slönguspilið, sem í dag er barnaspil, er upprunnið frá Indlandi og var lengi spilað í klaustrum. Það kenndi fólki dyggðir og syndir.“

 

Rannsóknir Tómas hefur aðstöðu í Spilavinum.

Skrattinn í spilunum

Af hverju var bannað að spila á jólunum hér áður fyrr?

„Það á fyrst og fremst við mannspil, aðallega púkk og lomber, en ekki borðspil. Það var sagt að kæmi fram aukakóngur í lomber, sem væri skrattinn sjálfur. Þetta var vinsælt jólaspil en menn gátu orðið æstir og farið offari,“ segir Tómas og brosir út í annað. Lomber var eitt vinsælasta fjárhættuspilið í Reykjavík um miðja síðustu öld. „Þá komu sögurnar um að skrattinn væri kominn í þá. Í sumum fjölskyldum er enn þá bannað að spila á jólunum, í öðrum eru jólin einmitt tíminn til að spila.“

Tómas hefur rannsakað frumheimildir, dómabækur, uppboðsgögn og fleira.

„Hér á Íslandi var spilað um peninga og sumir veðjuðu andskoti miklu. Á uppboðunum sé ég það að spil voru mun algengari en áður hefur verið talið og það voru embættismennirnir sem keyptu þessa muni. Árið 1734 var til dæmis brotist inn hjá kaupmanninum á Hofsósi og fjórum spilastokkum stolið. Það eru einnig til heimildir um spilapeninga á Íslandi rétt fyrir aldamótin 1800, í uppboðsgögnum frá skólastjóra Bessastaðaskóla.“

Tómas segir að spilamennska hafi verið algengari hjá efnuðu fólki, embættismönnum, prestum, kaupmönnum og stórbændum. En þó séu til heimildir um að spilað hafi verið í verbúðum, til dæmis.

„Íslendingar hafa tvímælalaust spilað meira en nágrannaþjóðirnar, til dæmis Bretar, og þess vegna vorum við svo framarlega í skák. Í stærri löndum var önnur afþreying til boða, skemmtistaðir, veðreiðar og fleira og svo hefur veðráttan tvímælalaust haft sitt að segja.“

Auk þess að gefa út bókina þá er Tómas að leita að hentugu húsnæði austan við fjall, þaðan sem hann er ættaður. Þar vill hann koma upp Spilasafni Íslands og í fyllingu tímans rannsóknarsetri um afþreyingu Íslendinga í víðu samhengi. Spilakassana, íþróttafélögin, skátafélögin og alla dægradvöl landans.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni