Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að koma þurfi ákafafólki sem sífellt vill troða fleiri skyldufögum í námskrá grunnskóla í skilning um að það séu bara 24 klukkustundir í sólarhringnum. Þetta kemur fram í stuttum pistli hans á Facebook þar sem Brynjar tjáir sig alla jafna um þjóðfélagsmál. Brynjar vill að megináherslan í grunnskólanum sé á grunnfög á borð við lestur, skrift, stærðfræði og tungumál en að börn læri kynjafræði og skák annars staðar:
Alltaf koma reglulega upp kröfur einhverra einstaklinga eða hópa um að gera hitt og þetta að skyldugrein í grunnskóla og jafnvel á efri skólastigum. Síðast um að skák yrði skyldugrein í grunnskóla og einhvers staðar sá ég þingsályktun eða frumvarp um að kynjafræði verði skyldugrein á öllum skólastigum. Gott ef ekki út lífið. Ástæða er til að benda þessu ákafafólki á að takmarkaðar klukkustundir eru í hverjum sólarhring. Svo er ágætt að kenna börnum fyrst að lesa, reikna og tungumál. Það er forsenda frekari náms. Foreldrar geta farið með börnin annað að læra skák og pólitíska kynjafræði.