Myndlistarsýningin Tíu leiðbeiningar (fyrir hinsegin listafólk) stendur nú yfir í Gallerí 78, Suðurgötu 3 og stendur hún til 8. desember.
Sýningin er kynning á verkum eftir ellefu breskar hinsegin listamanneskjur sem ætlað er að örva samræður og samstarf milli vaxandi hinsegin myndlistarsenu á Íslandi og hinsegin listafólks á Bretlandi. Þetta er fyrsta samstarfs verkefni Gallerís 78 og bresks listafólks og byggir á hugmyndinni um leiðbeiningarlist.
Leiðbeiningalist á rætur að rekja til þess að árið 1919 sendi Marcel Duchamp systur sinni Suzanne í brúðkaupsgjöf leiðbeiningar um það hvernig hún gæti hengt kennslubók í flatarmálsfræði fyrir utan gluggann hjá sér. Frá þeirri stundu hefur orðið til mikið magn leiðbeiningaverka meðal annars eftir Fluxus listafólk, sérstaklega Yoko Ono. Einnig hefur sýning Hans Ulrich Obrist’s Do It ferðast víða um heim síðan 1994.
Þetta er fyrsta samsýning erlends hinsegin listafólks sem haldin er hér á landi og því er um tímamóta viðburð að ræða.
Gallerí 78 hefur skipað sér í röð framsæknustu gallería hér á landi með því að einbeita sér að því að sýna verk íslensks hinsegin listafólks síðan 2015.
Sýningarstjórar eru Ásdís Óladóttir, Jez Dolan og Dr. Ynda Gestsson