Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá er Hrekkjavakan haldin hátíðleg á morgun. Í mörgum hverfum er það þannig að krakkar klæða sig upp í búninga og sníkja gott hjá nágrönnum sínum. Ef ekkert gott er til eru líkur á að krakkarnir hrekki viðkomandi nágranna. Til að forða sér frá því er tilvalið að vera með eitthvað góðgæti tilbúið fyrir krakkana – til dæmis þetta einfalda karamellupopp.
Hráefni:
6 bollar poppað popp
115 g smjör
1 bolli ljós púðursykur
¼ bolli ljóst síróp
¼ tsk. matarsódi
1 tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
sjávarsalt
Aðferð:
Hitið ofninn í 120°C og klæðið ofnplötu með álpappír. Hellið poppinu í stóra skál og setjið til hliðar. Bræðið smjör í stórum potti yfir meðalhita. Bætið púðursykri og sírópi saman við og náið upp suðu á meðan þið hrærið stanslaust í blöndunni svo hún brenni ekki við. Lækkið hitann og látið malla í 5 mínútur. Blandið matarsóda, salti og vanilludropum saman við. Takið af hellunni og hellið karamellusósunni yfir poppið. Hrærið saman þar til allt er vel blandað saman. Dreifið úr blöndunni á ofnplötunni og stráið sjávarsalti yfir. Bakið í 1 klukkustund og hrærið í poppinu á korters fresti. Takið plötuna úr ofninum og leyfið poppinu að kólna áður en það er brotið í litla bita.