„Undanfarin ár höfum við alltaf verið átta í heimili en elsta dóttir mín flutti út á þessu ári og hinar tvær eru í námi, önnur í Reykjavík og hin í Kína,“ segir María Pétursdóttir, hárgreiðslumeistari í Vestmannaeyjum.
Hún býr í stórglæsilegu húsi við Heiðarveg en þangað flutti hún ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Bergi, og börnum, þeim Henný Dröfn, Evu Dögg, Söru Dís og Tómasi Runa, á því herrans ári 2007.
Íbúar: María Pétursdóttir, 49 ára, Gunnar Bergur Runólfsson, 37 ára, Tómas Runi 10 ára og Pétur Dan, 8 ára.
Staðsetning: Heiðarvegur í Vestmannaeyjum
Stærð: 450 fermetra einbýlishús með bílskúr og íbúð í kjallara
Byggingarár: 1942
„Húsið var í algerri niðurníðslu og við Gunnar þurftum að taka allt í gegn bæði að innan og utan, fengum afhent í febrúar og fluttum svo inn 20. júlí. Þá vorum við búin með það mesta að innan, eða tvær efstu hæðirnar; innréttingar, hita, rafmagn og svona þetta helsta,“ útskýrir María en húsið er á þremur hæðum.
Á jarðhæð er íbúð í útleigu ásamt tveimur svefnherbergjum og þvottahúsi, á annari hæð er eldhús, stofa og sjónvarpsherbergi en á þriðju hæðinni eru fjögur stór svefnherbergi, eitt lítið og glæsilegt baðherbergi með nuddbaðkari.
María segist laðast mest að gömlu og klassísku útliti sem hefur voldugt yfirbragð og heimili fjölskyldunnar ber þess augljós merki. Sjálf á hún heiðurinn að breytingum og teiknaði jafnframt allar innréttingarnar enda með eindæmum skapandi fagurkeri.
„Mér finnst fátt skemmtilegra en að dunda mér við þetta að loknum vinnudegi og um helgar þótt það styttist í að ég sé að verða búin að klára öll herbergin,“ segir hún glöð í bragði en á myndunum, sem voru teknar af Guðbjörgu Guðmannsdóttur, má sjá að Maríu er augljóslega margt til lista lagt.
Eldhús „Eldhúsinnréttingin er frá KVIK og hana settum við upp fyrir tíu árum en nýlega bætti ég við gleri á sökklana, borðplötuna og setti kvars á eldhúsbekkinn. Loftljósið keyptum í Pfaff í fyrra en stóla í Willa Mia á Garðatorgi.“
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Glæsileg glamúrstofa „Sófann létum við sérsmíða í GÁ húsgögnum 2008 en þetta er stærsti sófi sem hefur verið smíðaður fyrir heimili á Íslandi. Sófaborðið hannaði ég sjálf og þeir smíðuðu það fyrir mig og ljósið fæst í Lumex. Gluggatjöldin keypti ég hjá netverslun sem hét Úr sveit í bæ en hún er því miður hætt.“
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Skámálaði vegginn með kalkmálningu „Eftir að dóttir mín, Eva Dögg, flutti til Kína tók ég herbergið hennar í gegn. Skámálaði það með kalkmálningu sem gefur svolítið sérstaka og öðruvísi áferð og setti meðal annars inn þetta skrifborð og nýtt ljós. Mér finnst gaman að blanda saman léttum og rómantískum áhrifum við þessi grófu og sterkari. Ef ekki væri fyrir ljósu litina og blúndurnar þá væri þetta herbergi mikið piparsveinslegra.“
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Hjónaherbergið Rúmgaflinn og náttborðin keypti María notuð af netinu fyrir rúmu ári en gaf þeim nýtt líf með kalkmálningu sem hún keypti hjá Sérefni í Ármúla. „Eiginlega öll herbergin í húsinu eru máluð með kalkmálingu og ég er ofsalega ánægð með útkomuna enda hef ég málað bæði veggi, húsgögn og smáhluti með henni.“
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Veggfóður og parket María fór nýstárlega leið við hönnun baðherbergisins með því að velja veggfóður í staðinn fyrir flísar. Þetta veggfóður keypti hún í Litaveri fyrir tíu árum og segist ætla að kaupa það aftur ef til þess komi að það þurfi að skipta.
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Strákaherbergið Þegar strákarnir komu í heiminn bjuggu dætur Maríu enn á heimilinu en þær eru fæddar árin 1992, 1994 og 1995. Það var því öllu þrengra um fjölskylduna svo að bræðurnir deildu með sér herbergi en þetta hefur þeim líkað svo vel að þeim þykir ekki tilefni til að skipta. Nöfnin á veggnum útbjó Henný Dröfn, stóra systir, þeirra í hönnunarsmiðju í skólanum en þau eru límd upp á vegginn.
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Krúttlegur bekkur Rúmið málaði María með kalkmálningu og keypti himnasængina í versluninni Dimm. Litla bekkinn keypti hún fyrir mörgum árum fyrir drengina sína en í skúffunum geymir hún auka rúmföt fyrir barnarúmið.
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Hefðarfrúin á Heiðarvegi Stiginn er parketlagður með niðurlímdu parketi en handriðið er það eina sem fékk að halda sér upprunalegt í húsinu. Viðarplatan ofan á skenknum er afgangur af parketinu en vasinn með rósunum kemur úr versluninni Módern og er mikið uppáhald hjá Maríu sem stendur hér tignarleg í stiganum eins og sannkölluð hefðarfrú.
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Svarthvítur draumur Glerhurðin í ganginum felllur inn í vegginn og er hluti af upprunalegri innréttingu hússins. Veggfóðrið er svarta útgáfan af því hvíta sem er á baðherberginu en ljósið í loftinu kemur úr Lumex. Á veggnum má sjá fallega mynd af þessari stóru fjölskyldu en undir stendur kertaarinn sem María útbjó sjálf og málaði með áðurnefndri kalkmálningu.
Motta á borðstofuborðinu Borðið hannaði María sjálf en mottuna fékk hún í versluninni Geisla í Vestmannaeyjum.
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Dansandi dömur uppi um alla veggi! Skóhillan er keypt í versluninni Ilvu en veggfóðrið líflega fékk María hjá Lauru Ashley í Faxafeni.
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Klárt fyrir barnabörnin „Ég var að eignast barnabarn og fyrst ég átti þetta aukaherbergi og húsgögnin líka þá ákvað ég að koma þessu bara í stand enda veit ég að ég á eftir að eignast fullt af barnabörnum,“ segir María glöð í bragði.
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir
Fágað yfirbragð á einföldum gangi Til að útbúa vegginn með þessum hætti keypti María lista eftir máli og fékk svo smið til að festa upp á vegginn. „Gangurinn gerbreyttist alveg og ég er mjög ánægð með útkomuna enda hefur mig langað til að gera þetta í svona tuttugu ár.“
Mynd: Guðbjörg Guðmannsdóttir