Handtaka lögreglunnar á nöktum manni sem lét ófriðlega í Kópavogi hefur vakið athygli. Handtakan þykir umdeild og skiptist fólk í tvær fylkingar. Mörgum þykir lögregla hafa unnið gott starf á meðan hinn hópurinn gagnrýnir aðfarir lögreglu harðlega.
Vísir birti myndband af handtökunni en nakinn maður hafði reynt að brjótast inn í hús í Kópavogi. Þegar lögregluþjónar mættu á á vettvang, hann hafði þá afklætt sig og var nakinn. Var maðurinn grunaður um eignaspjöll, hótanir, ofbeldi gegn opinberum starfsmanni og ýmislegt fleira.
Ísak Hinriksson ákvað á Twitter að ávarpa lögreglu og reyna að fá botn í málið. Spurði hann lögreglu hvort hún hefði ekki gengið full vasklega fram þegar maðurinn var handtekinn. Lögreglan var snögg til að svara:
„Sæll Ísak. Við erum alltaf til í nýjar hugmyndir. Hvernig hefðir þú viljað stoppa trylltan mann sem er nakinn og búinn að vera að reyna að brjótast inn hjá fólki?“
Ísak svaraði:„Það er alveg augljóst að á sekúndu 0:21 þegar maðurinn hefur fengið piparúða í augun að það hefði verið hægt að handsama hann í stað þess að berja hann stanslaust með kylfum. Finnst ykkur þetta í alvöru ekkert athugavert?“
Lögreglan svaraði:
„Það er ekkert augljóst við það, piparúði virkar seint á tryllt fólk. Okkar fólk stendur frammi fyrir gífurlega erfiðum ákvörðunum á augnabliki og það að sitja í hægindastól og gagnrýna er ekki sanngjarnt eða uppbyggilegt.“
Ísak sagði: „Þetta er viðmótið. Einmitt. Gangi ykkur vel.“
Og aftur svaraði lögregla:
„Já, það er afar erfitt að sjá fólk vera að gagnrýna okkar frábæra starfsfólk fyrir að sinna erfiðum störfum og taka ákvarðanir sem aðrir þurfa aldrei að taka. Það er ekkert grín að standa fyrir framan trylltan einstakling sem er búin að ráðast að þér og mega ekki hlaupast á brott.“
Ísak var ekki sáttur við svarið og sagði:
„Auðvitað er erfitt að fá á sig gagnrýni en maður á líka geta tekið gagnrýni. Svo er hægt að vega og meta hvort hún eigi rétt á sér. Mér finnst ekki fagmannlegt að gera lítið úr gagnrýni með því að tala um að einhver sitji í hægindastól eigi ekkert að hafa um málið að segja.“
Lögregla svaraði enn á ný:
„Rétt er það, vandinn hér er bara sá að gagnrýnin er ekki málefnaleg eða sett fram af þekkingu. Það að gagnrýna aðra krefst þess að hafa grunnþekkingu á efninu – annars er það tæpast sanngjarnt eða uppbyggilegt.“
Ísak fannst ekki mikið til svarsins koma: „Ég er sem sagt með ómálefnalega spurningu því ég hef ekki grunnþekkingu á efninu og lögreglan er yfir gagnrýni hafin frá hinum almenna borgara.“
Enn á ný svaraði lögreglan:
„Já, til að geta rætt þetta uppbyggilega er betra að þekkja efnið – þér er velkomið að koma með ábendingu – í upphafi bauð ég þér að koma með hugmynd af betra verklagi – hún var ekki fýsileg og þá benti ég þér á að okkar fólk væri í erfiðum aðstæðum.“
Og Ísak svaraði aftur:
„Geri mér grein fyrir að þetta séu virkilega erfiðar aðstæður. Ég vil ekki gera lítið úr því en það kemur mér á óvart að þau svör sem ég fæ sé ekki á þá leið að þetta sé ekkert athugavert.“
Lögregla hefur nú sent frá sér tilkynningu vegna málsins en þar segir:
„Vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að verklag við slíkar aðstæður er að beita fyrst skipunum og síðan aðvörun. Því var fylgt eftir, en þegar varnarúði hafði ekki tilætluð áhrif beittu lögreglumenn kylfum. Áður en til valdbeitingar kom hafði maðurinn, sem var mjög ógnandi allan tímann, hótað og ráðist að lögreglumönnum á vettvangi. Eftir handtökuna var hann síðan fluttur rakleiðis á slysadeild til skoðunar, en ekki þótti ástæða til að hafa viðkomandi undir læknishendi að henni lokinni. Í framhaldinu var maðurinn færður á lögreglustöð og vistaður í fangageymslu.“