Arnór Bjarki Blomsterberg er nýr prestur í Ástjarnarkirkju. Í viðtali við Fjarðarpóstinn segir Nói á einlægan hátt frá því hvernig óvænt dauðsfall skólafélaga sem Nói lagði í einelti í grunnskóla gjörbreytti lífsviðhorum hans og leiddi hann í starf þar sem hann fær meðal annars tækifæri til að hjálpa ungu fólki að byggja upp heilbrigða sjálfsmynd.
„Ég braust út um 11 ára aldurinn, fór í mótþróa og varð erfiður unglingur og alls ekki til fyrirmyndar,“ segir Nói sem fékk óhefðbundið, en trúarlegt uppeldi. „Ég og vinir mínir lögðum skólafélaga okkar í einelti og slíkt hefur ekki bara afleiðingar fyrir þolendur, heldur lifa gerendur oft lengi með skömmina á herðunum og takast ekki á við hana. Hjá mér var þetta eitthvað óöryggi og þörf fyrir að upphefja sjálfan mig.“
Brást kjarkur til að biðjast fyrirgefningar
Nói segir unglingum í starfi sínu söguna af því þegar lífs hans gjörbreyttist í kjölfar símtals. „Ég var aðeins 19 ára þegar ég átti von á syni og íhugaði mikið hvernig líf ég vildi að hann fengi og hvað ég gæti forðað honum frá. Þá skaut eineltið æ oftar upp kollinum. Ég fann fyrir mikilli sektarkennd vegna framkomu minnar og mannaði mig loksins upp í að hafa samband við skólafélagann. Ég vildi jafnvel koma á vinatengslum og hjálpa honum ef vilji væri fyrir hendi. Ég hringdi í hann og hann svaraði. Mér brást kjarkur og lagði á. Tveimur dögum síðar lést þessi strákur í hörmulegu slysi þegar hann féll í sprungu á Langjökli 2001. Tækifærið rann mér úr greipum.“
Í kjölfarið hellti Nói sér í sjálfsvinnu með aðstoð trúarinnar. „Ég fann hvað trúin gat gert gott en hef þó ekki troðið henni upp á aðra.“
Fann innri köllun að verða prestur
Nói ætlaði í upphafi ekki að verða prestur, hann lærði kjötiðn og starfaði við hana þegar hrunið varð. „Ég fann mig endurtekið í samtali við fólk þar sem ég stappaði í það stálinu og hvatti það, þegar við átti, að nýta bænina. Ég fann að ég fékk helling út úr því að tala við fólk.“
Nói fann innri köllun um að hann ætti að verða prestur, sagði upp vinnunni og skráði sig í háskólann þar sem hann fann sig strax í náminu.
„Þótt við förum út af brautinni eða drullum upp á bak, þá getum við snúið til baka og það er alltaf einhver sem snýr ekki við okkur baki. Ég vil eiga þessa samfylgd með fólki og nýti það til að vaxa sem manneskja,“ segir Nói, sem segir kærleiksboðskap alltaf eiga við.
Nói vill að kirkjan sé opið samfélag og þar eru allir velkomnir. „Fólkið á að móta kirkjuna sína með okkur. Kirkjan er fólkið.“
Þakklátur fyrir áföllin
Í sjálfsvinnunni segist Nói hafa tileinkað sér auðmýkt í samskiptum við aðra og það hafi auðveld ákvörðun, þótt ætíð sé eilífðarverkefni að tileinka sér það. „Það er miklu meira sem gengur upp hjá mér í dag og auðmýkt er mikilvæg fyrir alla, sama hvar við erum. Ef maður reynir að vera eitthvað meira en maður sjálfur, þá ganga hlutirnir ekki eins vel. Öll áföll hafa áhrif á sjálfsmyndina. Í dag er ég þakklátur fyrir mín áföll því ég leyfði tilfinningunum bara að koma og þannig hreinsast út jafn óðum. Við eigum alltaf að halda í þá hugsun að það gerist eitthvað gott,“ segir Nói sannfærður.
Viðtalið má lesa í heild sinni hér.