„Mér fannst hrikalega hallærislegt að sjá þarna hóp af fullorðnu fólki láta einsog smákrakkar. Viðhorf fólks gagnvart fötluðum einstaklingum er yfirleitt það að þeir ættu bara að vera heima hjá sér,“ segir Arna Sif Eyberg Viðarsdóttir í samtali við DV en hún fór á tónleika í Hörpu á dögunum ásamt fjölfötluðum vini sínum sem bundin er hjólastól. Segist hún hafa orðið vitni að mikilli vanvirðingu og algjöru tillitsleysi annara tónleikagesta í garð vinar síns, sem hafi upplifað mikla niðurlægingu.
Arna Sif hefur undanfarin þrjú ár unnið á sambýli og hefur þannig fengið innsýn inn í þann raunveruleika sem fatlaðir einstaklingar búa við hér á landi. Í samtali við blaðamann segir hún Ísland vera talsvert eftir á þegar kemur að málefnum fatlaðra.
Þann 21.október síðastliðinn fór Arna og vinur hennar á tónleika Sálarinnar sem haldnir voru í Hörpu. Eftirvæntingin var mikil að sögn Örnu en kvöldið fór þó öðruvísi en ætlað var.
„Í kvöld upplifði ég viðbjóð, ég varð vitni að versta tilfelli sjálfhverfingar og ómannúðleika sem ég hef séð. Og í kvöld grét ég af reiði,“ ritar Arna í færslu á facebook sem vakið hefur talsverða athygli.
„Þannig er að vinur minn er fjölfatlaður og þar af leiðandi fastur við hjólastól, sem virðist vera það eina sem fólk tekur eftir þegar það sér hann. Samt sem áður tekur enginn tillit til hans.
Tónleikarnir eru uppá annari hæð Hörpunnar, þannig ég og vinur minn, sem er fastur í hjólastól, þurfum að taka lyftuna. Ég fer að lyftunni og þar er röð, sem er allt í góðu, ekkert stress, við getum alveg beðið þangað til að röðin kemur að okkur. Þegar ég sé svo að fullkomlega heilbrigðir einstaklingar, með tvær virkar lappir, fara að ryðja sér framfyrir mig og vin minn sem er fastur í hjólastól, þá get ég ekki annað en hlegið, til að byrja með,“
segir Arna og bætir við að minnsta kosti sex einstaklingar hafi ruðst fram fyrir þau til að komast á undan þeim í lyftuna.
„Ég á erfitt með að ímynda mér aðstæður þar sem ég myndi finnast að ég, með tvær virkar lappir, hefði meiri rétt á lyftunni en einstaklingur í hjólastól, og gæti þar með réttlæt það að ryðjast fyrir framan hann.“
Arna lýsir því sem gerðist næst.
„Við komumst loksins inn í lyftuna, eftir að margir fóru framfyrir okkur og enginn gerði tilraun til að hleypa okkur inn með sér. Við fórum við uppá aðra hæð þar sem salurinn okkar var. Á annarri hæð var mikið af fólki, flestir miðaldra íslendingar undir áhrifum áfengis. Gott mál, lokatónleikar Sálarinnar, allt í lagi að fá sér aðeins, eða rúmlega aðeins?
Við göngum inn í þvöguna og ég sé mjög fljótlega að við erum ósýnileg þarna, þannig við förum út í eitt hornið og virðum þetta aðeins fyrir okkur.
Ég tek til baka orðið ósýnileg. Það er mér heil ráðgáta hvernig miðaldra fólk leyfir sér að stara á einstaklinga sem falla ekki inn í normið! Í alvörunni, gefðu mér allavega bros með þessu, ekki bara stara einsog einhver hálfviti.“
Arna segist hafa verið orðin virkilega reið á þessum tímapunkti og ákváðu þau að taka smá göngutúr og finna út hvar væri best fyrir þau að fara inn í salinn.
„Fyrir utan fíflaganginn í miðaldra liðinu sem leiddi til þess að einn labbaði á vin minn og næstum skvetti yfir hann drykknum sínum (engin afsökunarbeiðni var innifalinn) þá vorum við þarna eins og tuskan undir skónum á fína miðaldra drykkjuliðinu. Engum datt í hug að víkja frá svo við kæmumst greitt í gegnum þvöguna frá A til B. Þess í stað stöndum við í miðri þvögunni á meðan það myndast gönguleið í sviga kringum stólinn og svo beint fram fyrir hann.
Ég stend þarna með stór augu og vinur minn fyrir framan mig í hjólastólnum sínum og enginn,nema ein ung stelpa tók eftir þessu og datt í hug að spyrja. Á þessum tímapunkti var ég orðin svo reið, svo pirruð, svo gáttuð og svo sár, að ég var gráti næst. Á endanum komumst við frá A til B, að vísu tók það mun lengri tíma en það hefði átt að taka okkur, en það tókst.“
Inngangurinn fyrir fatlaða reyndist hins vegar vera hinumegin á ganginum og þurftu Arna og vinur hennar því að fara til baka, í gegnum alla þvöguna.
„Ég passaði mig að leyfa þessu liði ekki að hafa áhrif á mig. Ég ætlaði ekki að fara láta mér líða einsog við værum fyrir einhverjum.“
Arna bætir við að á þessum tímapunkti hafi fólk verið farið að týnast inn í salinn og leiðin var því aðeins greiðari. Samt sem áður hafi þau upplifað sama viðmót, fólk hafi hunsað þau og labbað í veg fyrir þau, líkt og þau væru ekki á staðnum. Hún ber þó starfsfólki Hörpu vel söguna og segir að tónleikarinnar sjálfir hafi sömuleiðis verið frábærir. Hún fordæmir engu að síður það að fatlaður einstaklingur þurfi að mæta slíku tillitsleysi af hálfu samborgara sinna.
„Við getum þakkað fyrir að ég sem aðstoðarmaður og vinur gat komið í veg fyrir það að fatlaði vinur minn þyrfti að finna fyrir þessum viðbjóði. Ég gat aðstoðað hann í gegnum aðstæðurnar og borið fyrir hann reiðina og viðbjóðinn sem þeim fylgdu. Hann fékk að njóta tónleikanna með gleði í hjarta.“