fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Já iðnaðarmenn gjaldþrota öðru sinni

Björn Þorfinnsson, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson
Sunnudaginn 4. nóvember 2018 09:00

Jóhann Ingólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum var tilkynnt um gjaldþrot fyrirtækisins Verktakar Já Art2b ehf. sem var rekstrarfélag Já iðnaðarmanna um skeið. Stutt er síðan fyrra rekstrarfélag Já iðnaðarmanna var úrskurðað gjaldþrota en það var í byrjun desember 2017. Alls var 126 milljónum króna lýst í félagið en engar eignir fundust.

DV greindi frá því í desember að þrátt fyrir gjaldþrotið héldi eigandi félagsins, Jóhann Jónas Ingólfsson, ótrauður áfram á nýrri kennitölu. Það fyrirtæki heitir Já iðnaðarmenn verkstæði ehf. og er skráð á móður Jóhanns. Í stuttu samtali við DV vill Jóhann meina að gjaldþrot síðara fyrirtækisins sé fréttaflutningi blaðsins að kenna.

Eins og áður segir hefur Jóhann rekið tvö félög í þrot á innan við ári. Skiptum í fyrra félaginu lauk 11. desember 2017 án þess að kröfuhafar fengju nokkuð upp í lýstar kröfur. Félagið hét Já iðnaðarmenn ehf. þar til í 27. mars 2017. Þegar ljóst var að gjaldþrot blasti við, var nafni fyrirtækisins breytt í Verktakar og endurbætur ehf. Félagið var síðan úrskurðað gjaldþrota nokkrum vikum síðar eða þann 12. apríl. Lauk þar með tæplega tveggja ára rekstrarsögu félagsins.

Þá var rekstur félagsins fluttur yfir í félagið Já iðnaðarmenn Art2b verkstæði ehf. Félagið hélt áður utan um rekstur listagallerís í anddyri Bónusverslunarinnar í Kauptúni en tilgangi félagsins var síðar breytt í fyrirtækjaskrá á þann veg að fyrirtækið væri einnig í verktakastarfsemi. Í júní 2018 var nafni fyrirtækisins breytt í Vertakar Já Art2b ehf. og rúmum þremur mánuðum síðar var félagið lýst gjaldþrota.

Í dag er reksturinn kominn yfir í félagið Já iðnaðarmenn verkstæði ehf. Það félag hét áður Diddi annar ehf. en heitinu var breytt yfir í núverandi nafn fyrirtækisins í lok desember 2017, skömmu eftir að fyrsta fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota.

DV hafði samband við Jóhann vegna gjaldþrotsins og tók hann fyrirspurn blaðamanns óstinnt upp. Vildi hann meina að blaðið hefði kippt fótunum undan rekstrinum með því að fjalla um fyrra gjaldþrot og rifja upp langan og skuggalegan afbrotaferil hans.

Þá fjallaði DV einnig um uppákomu við Þverholt 18 þar sem egypskur hælisleitandi dró upp hníf eftir að hafa árangurslaust reynt að innheimta laun sín frá Já iðnaðarmönnum. DV hefur heimildir fyrir því að margir séu sárir eftir viðskipti sín við Jóhann og fyrirtæki hans, bæði starfsmenn sem og viðskiptavinir.

Þverholt 18. Í þessu húsnæði hefur skrifstofa Já iðnaðarmanna verið starfrækt auk þess sem erlendir starfsmenn hafa haldið þar heimili meðan á dvöl þeirra stendur.

Dæmdur fyrir nauðgun á tíunda áratugnum

Jóhann var fyrst handtekinn fyrir þjófnað árið 1974 en ákæru var frestað skilorðsbundið. Þremur árum síðan fékk hann tvo skilorðsbundna dóma fyrir þjófnað. Í frétt Pressunnar í september 1992 kemur fram að Jóhann, sem þá var 35 ára gamall, hafi komist yfir tuttugu sinnum í kast við lögin á átján árum.

Í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar sat Jóhann í fangelsi vegna dóms sem hann hlaut fyrir nauðgun. Nauðgunin átti sér stað í heimahúsi að morgni nýársdags árið 1990. Klæddi Jóhann sofandi konu úr fötunum og hafði við hana samræði gegn hennar vilja. Hlaut Jóhann sex mánaða óskilorðsbundinn dóm fyrir ódæðið. Hann sat inni í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í þrjá mánuði.

Í afplánuninni kynntist hann afbrotamanninum Steini Ármanni Stefánssyni og tókst með þeim vinskapur. Steinn Ármann trúði Jóhanni fyrir því að hann ætti von á stórri kókaínsendingu til landsins. Þær upplýsingar ákvað Jóhann að nýta sér til hins ýtrasta.

Lykilvitni í Stóra kókaínmálinu

Hann var í erfiðri stöðu því í febrúar 1991 hafði hann verið handtekinn með þrjú kíló af hassi. Ákæra í málinu hafði verið gefin út og átti Jóhann því þungan dóm yfir höfði sér. Um leið og hann lauk afplánun nauðgunardómsins gaf hann sig fram við lögreglu, sagði allt af létta og tók að sér að þykjast ætla að kaupa efnið með það að markmiði að grípa Stein Ármann með það undir höndum. Áætlunin gekk upp og var málið, sem fékk mikla fjölmiðlaumfjöllun, þekkt sem Stóra kókaínmálið. Fram kom að Jóhann hafi freistað þess að fá mildari dóm í hassmáli sínu í staðinn fyrir uppljóstrunina.

Ekki verður hér lagt mat á hvort það ætlunarverk Jóhanns hafi tekist en árið 1993 var hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir innflutning á fíkniefnum og kynferðisbrot. Í kjölfarið ákvað Jóhann að yfirgefa landið.

Interpol ekki að standa sig

Þann 26. mars 1999 greindi DV síðan frá því að Jóhann væri aftur kominn til Íslands eftir að dómurinn gegn honum hafði fyrnst. Starfaði hann þá fyrir breskt heildsölufyrirtæki sem lét til sín taka hérlendis. Í frétt blaðsins kom fram að íslensks yfirvöld hefðu leitað til Interpol til þess að hafa uppi á Jóhanni en án árangurs. Blaðamaður hafði þá samband við Jóhann og bar undir hann hvort hann hefði vísvitandi flúið land til þess að komast hjá fangelsisvist. Því svaraði Jóhann: „Nei, ég var ekki að því. Það er ekki við mig að sakast ef Interpol nær ekki að sinna sínu starfi.“ Hélt hann því fram að honum hefði aldrei verið birt boðun um afplánun refsingar og íslensk yfirvöld hefðu auðveldlega getað haft uppi á honum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fréttir
Í gær

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót

Sveitarstjórn í Gran Canaria ríður á vaðið og setur á ferðamannaskatt – Tekur gildi eftir áramót
Fréttir
Í gær

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi

Ingólfur Kjartansson dæmdur í átta ára fangelsi
Fréttir
Í gær

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“