Landsmenn hafa margir hverjir notað áramótaheitin og janúarmánuð til þess að prófa eitthvað nýtt og taka sig á í mataræðinu eftir jólin. Viðar Freyr Guðmundsson rafeindavirki valdi heldur óvenjulega leið og ákvað að fasta. Viðar borðaði ekkert nema salt og drakk einungis vatn, kaffi og sykurlausa gosdrykki. „Það að fasta er bara fyrir lengra komna, það á enginn að leggja í þetta nema með smá undirbúningi,“ segir Viðar í samtali við DV.
„Áhugi minn á næringu kom til eftir að ég fór til læknis í nóvember 2016, ég var orðinn allt of feitur með allt of háan blóðþrýsting og mér var hreinlega sagt að ég myndi fara í hjartastopp fyrir fimmtugt. Þá fór ég að lesa um það hvernig það virkar að brenna fitu í líkamanum og þá datt ég inn á keto-mataræði.“ Keto gengur út á að taka allt kolvetni úr mataræðinu, rúmlega 500 manns á Íslandi eru í þar til gerðum hóp á Facebook þar sem skipst er á uppskriftum og ráðum. „Ég borðaði nánast ekkert kolvetni í heilt ár, en með nokkrum hléum, og tókst að léttast um rúmlega 30 kíló. Ég borðaði gjarnan spægipylsu með osti á morgnana og mjög kolvetnalítinn kvöldmat.“
Skotinn Angus Barbieri er núverandi heimsmethafi Guinness þegar kemur að föstu. Hann var 27 ára í júlí 1966 þegar hann fékk sér að borða, þá í fyrsta sinn í heila 382 daga. Barberi var 214 kíló þegar hann ákvað að gera þetta gegn læknisráði, en hann leyfði læknum að fylgjast með sér á tímabilinu og fjallað var um málið í skosku vísindatímariti árið 1973. Þegar föstunni lauk var hann búinn léttast um 133 kíló.
Í fyrrahaust byrjaði Viðar að gera tilraunir með að fasta hluta úr degi og borðaði jafnvel aðeins kvöldmat. Í byrjun janúar ákvað Viðar svo að reyna að fasta fyrir alvöru. „Ég var kominn með hálfan fótinn ofan í þá laug og ákvað því að prófa. Mér skilst að menn hætti að verða svangir eftir nokkra daga, en ég komst ekki á það stig og því bakkaði ég út úr þessu.“ Viðar stefndi á að ná tíu dögum en gafst upp eftir sex daga. „Svengdin er ekki það sem erfitt við þetta. Ég var farinn að vera blóðlítill og farinn að finna til svima. Konan mín sagði að ég væri orðinn húmorslaus. Það var frekar þetta andlega en líkamlega.“
Viðar segir að fastan hafi verið auðveldari en hann hafði búist við. „Þegar maður er vanur að vera svangur þá er auðveldara að komast yfir þetta. Svo fær maður sér góðan vatnssopa og hættir að hugsa um þetta. Svo mæli ég með salti, það er alveg nauðsynlegt.“
Var þetta bara vatn og salt í sex daga?
„Líka kaffi og te, svo drakk ég líka sykurlaust gos. Það voru mistök, þegar ég prófa þetta næst þá ætla ég að sleppa því,“ segir Viðar og hlær.
Hvernig var svo að borða í fyrsta sinn í sex daga?
„Ég fór beint aftur í keto-mataræði, fékk mér smá kjúkling með rjóma. Það var fínt.“