„Líkamlegu áverkarnir eru í raun aukaatriði, þetta tekur mest á sálina,“ segir transkonan Candice Aþena Jónsdóttir. Síðastliðið þriðjudagskvöld varð Candice fyrir aðkasti og árás hóps Pólverja á Lækjartorgi. „Ég var bara á rölti þegar einn úr hópnum fór að abbast upp á mig. Kallaði mig öllum illum nöfnum og hrækti síðan á mig. Ég reyndi að tala hann til en þá stökk hann upp og sparkaði í höndina á mér. Ég hélt fyrst að ég væri brotin,“ segir Candice í samtali við DV.
Hún fór í kjölfarið upp á bráðamóttöku til þess að fá bót meina sinna. Blessunarlega var höndin ekki brotin heldur brákuð. Að sögn Candice er þetta ekki í fyrsta skipti sem hún verður fyrir áreiti og aðkasti á almannafæri.
„Þetta gerist því miður reglulega og útlendingarnir eru mun verri en Íslendingar. Yfirleitt eru þetta þó ljót orð en ekki líkamlegt ofbeldi. Ég myndi ekki segja að Íslendingar væru alveg fordómalausir en þeir eru mun umburðalyndari,“ segir Candice. Hún segist ekki hafa ákveðið hvort hún kæri árásina. „Þetta var mikið sjokk og ég var óttaslegin. Ég var fegin að þetta fór ekki verr. Ég á enn eftir að ákveða hvort það hafi eitthvað upp á sig að kæra þessa árás. Ég vil að minnsta kosti að allir séu meðvitaðir um hvað transfólk þarf að ganga í gegnum og fordæmi hegðun sem þessa,“ segir Candice.