Tvær sýningar verða opnaðar í Hafnarborg laugardaginn 27. október kl. 15. Það eru sýningarnar SNIP SNAP SNUBBUR, ný verk eftir Guðmund Thoroddsen í aðalsal safnsins, og sýningin Til móts við náttúruna, verk úr safneign Eirík Smith í Sverrissal.
Á undanförnum árum hefur Guðmundur, í verkum sínum, skoðað stöðu karlmennskunnar og feðraveldisins. Í húmorískum og sjálfrýnum verkum gagnrýnir hann og hæðist að því á sama tíma og hann upphefur það. Myndefni fyrri verka hafa gjarnan verið skeggjaðir karlar sem uppteknir eru við ýmsa iðju á borð við körfuknattleik, bjórbruggun og skotveiðar en á síðustu misserum hafa myndirnar orðið æ óhlutbundnari.
Á sýningunni SNIP SNAP SNUBBUR sýnir Guðmundur ný verk; olíumálverk ásamt leirskúlptúrum og teikningum. Áherslubreytingar eru greinilegar. Málverkið er orðið malerískara, með pensilförum og óhlutbundnum skírskotunum. Guðmundur vinnur með óhlutbundið myndmál í ríkari mæli þó enn megi greina karlana í verkunum. Þeir eru þó orðnir óljósari, hrjúfari, krumpaðri og týndari í óræðara rými.
Guðmundur Thoroddsen er fæddur 1980 og lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2003 og útskrifaðist með með MFA gráðu í myndlist frá School of Visual Arts í New York árið 2011. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi sem og erlendis. Ber helst að nefna einkasýningarnar Father’s Fathers árið 2012, Hobby and Work árið 2013 og Dismantled Spirits árið 2016 í Asya Geisberg Gallery í New York.
Fjallað hefur verið um sýningar hans í ýmsum fjölmiðlum, svo sem Artforum, The New York Times, Time Out New York og Dazed Digital. Hann hefur hlotið styrki úr styrktarsjóðum Guðmundu Andrésdóttur, Myndstefs, KÍM og Evrópu unga fólksins, auk Listamannalauna. Guðmundur er á mála hjá Asya Geisberg Gallery í New York og Hverfisgalleríi í Reykjavík.
Ferill listmálarans Eiríks Smith var í senn langur og margbreytilegur. Á sýningunni Til móts við náttúruna getur að líta verk eftir listamanninn úr safneign Hafnarborgar en listamaðurinn færði safninu veglegar listaverkagjafir í gegnum tíðina. Verkin eru frá 6. og 7. áratugnum og er stillt saman vatnslitamyndum, skissum og málverkum. Á þessu tímabili færði Eiríkur sig frá strangflatarmálverki yfir í náttúrutengda abstraktsjón. Sá kraftur sem gjarnan einkennir verk hans allt frá því á 7. áratugnum er á þessum tíma að brjótast út úr formföstu regluverki strangflatarmálverksins.