Parið Brynhildur Guðjónsdóttir leikkona og Heimir Sverrisson leikmyndahönnuður hafa sett íbúð sína við Dunhaga á sölu.
Húsið er eitt af húsum arkitektsins Sigvalda Thordarsonar, sem var einn af fulltrúum módernismans í íslenskri byggingalist og þekktur fyrir að nota gulan, bláan og hvítan lit á áberandi hátt í verkum sínum.
Litapaletta hans á Dunhaga fékk að njóta sín og er loftið í stofunni gult, einnig er blár litur á hluta íbúðarinnar, sem fæst í Slippfélaginu og heitir Brynhildar-blár í höfuðið á íbúðareigandanum.
Íbúðin er fjögurra herbergja á 3. hæð og fylgja henni tvær leigueiningar og sérbílastæði. Mikil lofthæð er í íbúðinni og fallegt sjávarútsýni úr stofunni. Í henni er einnig fallegt skrautloft með innfelldri lýsingu. Hönnunarverk arkitektsins hafa verið varðveitt inni í íbúðinni og má meðal annars finna þar sófa og skáp sem hönnuð eru af Sigvalda. Fallegar tekkhurðir setja svip sinn á íbúðina og sexhyrndir gluggar setja sterkan svip á stigaganginn.
Íbúðin er björt, skemmtileg og litrík og sýnir vel að þar búa skemmtilegir og skapandi einstaklingar. Brynhildur leikur um þessar mundir í Rocky Horror í Borgarleikhúsinu og Heimir er leikmyndahönnuður, sem hefur meðal annars unnið við Adrift mynd Baltasars Kormáks.
Nánari upplýsingar um eignina má finna hér.