Boðið verður upp á Lífstílskaffi í Borgarbókasafninu Sólheimum í dag kl. 17.30. Þar mun Ingrid Kuhlman leiða gesti í allan sannleik um hvernig hægt sé að auka vellíðan með aðferðum jákvæðrar sálfræði. Hún mun meðal annars skoða hvað rannsóknir á velferð einstaklinga hafa leitt í ljós og fjalla um hamingjuaukandi leiðir. Auk þess fer hún í mikilvægi þess að þekkja og efla styrkleika sína, en með því er hægt að auka líkurnar á að blómstra og lifa sínu besta lífi.
Jákvæð sálfræði er vísindaleg nálgun sem hefur það markmið að efla rannsóknir á jákvæðum þáttum mannlegrar hegðunar eins og styrkleikum, vellíðan, velgengni, þakklæti, seiglu, gildum (dyggðum), von, jákvæðum tilfinningum, tilgangi, bjartsýni og hamingju. Hún veltir fyrir sér hvað einkennir einstaklinga sem ná á farsælan hátt að þroskast og aðlagast ólíkum aðstæðum í lífinu og finnur leiðir til að skapa umhverfi þar sem einstaklingur nær að blómstra og lifa sínu besta lífi.
Ingrid Kuhlman er leiðbeinandi og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun. Hún er með meistaragráðu í jákvæðri sálfræði frá Bucks New University.
Heitt á könnunni og allir velkomnir.