Á föstudag kl. 18 opnar málverkasýningin H E I M F E R Ð í kaffihúsinu og listagalleríinu Brúnum í Eyjafjarðarsveit eftir myndlistarkonuna D. Brynju Harðardóttur Tveiten. Sýningin stendur til 26. nóvember og er opin á opnunartíma listagallerísins.
Málverkasýningin H E I M F E R Ð er ferðalag sem hefur staðið yfir í tvö ár. Þetta tímabil hefur einkennst af margbreytilegum tilfinningum, þakklæti, von, ótta, sorg og sátt tengdum veikindum og missi í fjölskyldu listakonunnar. „Það hefur verið ómetanlegt að fara á vinnustofuna á slíkum stundum. Finna ró og kraft í myndsköpun sem vísar í draumkenndar minningar um útsýnið sem blasti við frá herbergisglugga bernskuheimilis míns á Árskógssandi,“ segir Brynja. Himinn, fjöll og haf renna saman við sjóndeildarhringinn en Brynju líður hvergi betur en með hafið fyrir augum.
Öll verkin eru unnin með olíu. Myndbygging er einföld og flæðir milli birtu, myrkurs, kyrrðar og óróleika.
Dagbjört Brynja Harðardóttir Tveiten (1971) lærði myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri og Örebro konstskola í Svíþjóð. Þetta er fjórða málverkasýning hennar en að auki hefur hún haldið þrjár ljósmyndasýningar. Brynja hefur sinnt ýmsum störfum meðfram listsköpun sinni, meðal annars innan heilbrigðis-, fjármála-, menntunar- og menningargeirans og starfar núna á Sjúkrahúsinu á Akureyri.