Sveinn Hjörtur Guðfinnsson nýtir fríið á Spáni vel, en hann nýtir nú göngutúra sína með markvissum hætti og fer út að ganga með hunda. Hundarnir eru úr hundaathvarfi þar sem hátt í 200 hundar eru og gengur Sveinn Hjörtur með hóp af fólki sem elskar hunda, hefur átt eða á hunda, en sjálfur elskar Sveinn Hjörtur hunda, en segir engan koma í stað Bósa, síðasta hundsins sem hann átti.
Að eignast hund er ábyrgð sem fylgir oft í mörg ár. Hundar eru miklir vinir, traustir, bestu félagar í lífsins amstri. Ég hef áður sagt það hér að ég vil ekki eignast hund aftur. Bósi minn var síðasti hundurinn sem ég átti.
En þótt ég eigi ekki hund er ekki þar með að ég geti ekki umgengist hunda. Ég á marga hundavini og ber þar að nefna hann Brúnó minn. Góður vinur úr Skerjafirði í Reykjavík.
Ég ákvað að nýta göngúturana hér með markvissum hætti. Og hvernig er það gert? Ég fer út að ganga með hunda!
Hér er sérstakt hundaathvarf þar sem hátt í 200 hundar eru. Sumir verða ættleiddir og aðrir komast aldrei út. Vissulega sorgmædd staða, en það er alltaf ljós og von – jafnvel hjá hundum.
Ég geng hér með fólki sem elskar hunda, hefur átt, eða á hunda. Við komum saman og sækjum nokkra saman úr sama búrinu því enginn er skilin eftir. Í dag náðum við að viðra hátt í 20 hunda.
Eg hlakka til næst, því það er ólýsanlegt hve glaðir þeir verða og vinveittir manni strax og þeir vita líka að ég kem aftur. Þannig kveð ég hundana sem horfa á mig með einlægni, svoldið daprir og rétt eins og þeir séu að fara að gráta. Ég kveð þá með því að klappa þeim og lofa þeim að koma aftur. Þeir horfa á eftir mér og treysta mér. Um það snýst þetta verkefni hér…það snýst um traust!