Það má eiginlega slá því föstu að heimilisfólkið á eftir að elska þennan kjúkling, en hægt er að bera hann fram með ljúffengri sósu að eigin vali, salati, kartöflum eða frönskum til dæmis. Þetta er hollari útgáfa af djúpsteiktum kjúklingi, en fyrst og fremst algjört lostæti.
Hráefni:
3 kjúklingabringur, skornar í litla bita
2 bollar súrmjólk
2 egg
2 msk. maíssterkja
3 hvítlauksgeirar, maukaðir með hvítlaukspressu
1 tsk. oreganó
¼ tsk. cayenne pipar (má sleppa)
salt og pipar
3 bollar kornflögur (Cornflakes), muldar
60 g smjör, brætt
Aðferð:
Hitið ofninn í 200°C. Takið til ofnplötu og smyrjið hana með smjöri eða spreyið með bökunarspreyi. Blandið súrmjólk, eggjum, maíssterkju, hvítlauk, oreganó, cayenne pipar, salti og pipar saman í skál. Marinerið kjúklinginn í hálftíma ef þið hafið tíma, annars er allt í lagi að sleppa því. Rúllið síðan kjúklingabitunum upp úr kornflögunum og raðið á ofnplötuna. Drissið brædda smjörinu yfir alla bitana. Setjið inn í ofn og bakið í 20 til 25 mínútur, en passið að snúa bitunum við eftir 10 til 12 mínútur.