Inflúensa gengur yfir á hverju ári og sjaldnast þarf að hafa teljandi áhyggjur af henni. Einstaka sinnum kemur fram nýr stofn sem almenningur hefur ekkert uppbyggt ónæmi fyrir. Skæðasta inflúensa sem vitað er um reið yfir árið 1918 og kostaði um 100 milljónir mannslífa, þar af um 500 á Íslandi.
Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir í samtali við DV að um tíu sinnum fleiri hafi smitast af spænsku veikinni en árstíðabundinni inflúensu og dánartíðnin hafi verið miklu hærri. „Það sorglega í þessu er að þetta var ungt fólk, milli tvítugs og fertugs.“ Að miklu leyti er það ráðgáta hvers vegna eldra fólk slapp betur. En kenningar eru uppi um að svipaður inflúensustofn hafi gengið yfir á 19. öld.
Spænska veikin kom fram vorið 1918 og þótti þá frekar væg. Síðsumars varð hún skæðari og að svokölluðum heimsfaraldri. Samkvæmt sögunni kom hún hingað til lands með tveimur skipum, Botníu og Willemoes, þann 19. október, sama dag og fullveldið var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Haraldur bendir þó á að væga flensan hafi verið komin hingað í júlí og mögulega hafi hún breyst hér eins og annars staðar. „Þeir sem fengu júlíflensuna, fengu ekki spænsku veikina.“
Í lok október skall spænska veikin á Íslendingum með fullum þunga en gekk að mestu leyti yfir á þremur til fjórum vikum. Neyðarástand skapaðist og öll sjúkrarúm Franska spítalans og Landakotsspítala fylltust. Miðbæjarskólanum var breytt í sjúkraskýli til að bregðast við. Götur Reykjavíkur tæmdust af fólki en dánartilkynningar blaðanna fylltust.
Dauðdaginn var skelfilegur. Haraldur segir: „Þegar veikin var sem svæsnust dó fólk vegna blæðinga í lungum og í meltingarvegi. Hún lagðist á öll líffæri. Menn hóstuðu upp blóði, blóð gekk niður af mönnum og var í þvagi. Sumir lifðu fyrstu dagana af en fengu síðan lungnabólgu í kjölfarið og dóu. Einnig bar á miðtaugakerfiseinkennum, heilabólgu og þess háttar. Fólk blánaði, varð ruglað og lést jafnvel af þeim sökum.“ Þá segir hann að margir sem lifðu af hafi hlotið varanlegt tjón í lungum eða öðrum líffærum og að kenningar séu uppi um að veikin hafi valdið síðkomnum taugavandamálum.
Guðmundur Björnsson landlæknir var gagnrýndur fyrir að bregðast seint við en þegar veikin var skollinn á var gripið inn í til að vernda landsbyggðina. Ferðir yfir Jökulsá á Sólheimasandi voru bannaðar og einnig yfir Holtavörðuheiði þar sem verðir gættu vegarins. Veikin breiddist hins vegar út á Vesturlandi og Vestfjörðum með skipum. Á Norður- og Austurlandi var sett á hafnbann og skip fengu ekki að koma að nema eftir tilskilinn tíma til að tryggja að veiran væri ekki um borð. Haraldur segir: „Þetta er með fáum dæmum í veraldarsögunni þar sem tókst að hefta útbreiðslu heimsfaraldurs með því að hindra mannaferðir.“
Haraldur segir erfitt að bera þessa veiki saman við nokkuð annað en svarta dauða sem reið yfir á miðöldum. Um þrjú til fimm prósent jarðarbúa létust af hans völdum. „En inflúensan árið 2009, hin svokallaða svínaflensa, var að mörgu leyti skyld faraldrinum 1918 og nokkuð þung. Gjörgæsludeildirnar á Landspítalanum voru þá alltaf fullar af fólki með inflúensu. Sumir af þessum einstaklingum voru í öndunarvélum og þeir hefðu allir dáið ef við hefðum ekki haft þau tæki.“
Nýr stofn inflúensu getur komið upp hvenær sem er og verið mjög skæður. En að sögn Haraldar eiga Íslendingar miklar birgðir af lyfjum sem geta haldið einkennunum niðri og stytt veikindatímann.