Jarðvegsgerlar í neysluvatni Reykvíkinga er enn eitt dæmið um að innviðir borgarinnar hafi verið látnir drabbast niður á kostnað gæluverkefna meirihlutans í borginni. Þetta segir leiðarahöfundur Morgunblaðsins sem er að öllum líkindum Davíð Oddsson ritstjóri og fyrrverandi borgarstjóri.
Greint var frá því í gær að mælst hafi fjölgun jarðvegsgerla í kalda vatninu í sumum hverfum Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi, en ekki í Grafarvogi, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Voru íbúar beðnir um að sjóða vatn áður en það sé drukkið. Talið er að ástæðan fyrir gerlamagninu sé mikil hlákutíð í kjölfar frostakafla, við það geti yfirborðsvatn komist í grunnvatn og flutt með sér gerla.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í samtali við mbl í gærkvöldi að um hafi verið að ræða varúðarráðstöfun og engin hætta sé á ferðum, Heilbrigðiseftirlit borgarinnar mun funda með sóttvarnarlækni og Matvælastofnun um málið í dag. „Við förum betur yfir þetta á morgun. En lærdómur umræðunnar í sumar var nú sá að upplýsa heldur meira heldur en minna. Mér sýnist að það hafi verið gert í þessu tilviki,“ sagði Dagur og vísaði til skólpmengunarmálsins frá því í fyrra.
Davíð rifjar upp það mál: „Saurgerlamengunin fór langt yfir viðmiðunarmörk og upplýsti starfsmaður borgarinnar að hann mundi ekki fara með börn sín í fjöruferð við slíkar aðstæður. Engu að síður sýndi borgin og borgarstjóri málinu engan áhuga og dróst úr hömlu að leysa vandann.“
Þakkar Davíð fyrir að vinstrimeirihlutinn í borginni skyldi „ekki reyna að þegja málið í hel að þessu sinni“. Hann segir skýringarnar sem voru gefnar vera ótrúverðugar: „Skýringarnar sem gefnar eru verða að teljast ótrúverðugar og allt bendir til að þetta sé enn eitt dæmið um að innviðir borgarnnar hafa verið látnir drabbast niður á undanförnum árum á kostnað gæluverkefna meirihlutans. Þetta hlýtur að vera dropinn sem fyllir mælinn.“