„Ekki hvarflar að mér að dæma konur heilt yfir fyrir þetta og satt best að segja dæmi ég ekki heldur þessar konur sem í ölæði eða annarskonar annarlegu ástandi hafa orðið sér til minnkunar. Enda skil ég það þannig að #metoo byltingin snúist ekki um hegðun fólks á galeiðunni eða annarstaðar,“ segir Fjölnir Geir Bragason húðflúrmeistari og fjöllistamaður, betur þekktur sem Fjölnir tattú, en það er hans álit að #metoo byltingin snúist um misbeitingu valds í hinum ýmsu myndum og komi kynjagreiningu ekki við.
Sjálfur hefur Fjölnir orðið fyrir kynferðislegu áreiti og ofbeldi af hálfu kvenna og segir hann #metoo byltinginuna vera „byltinguna okkar allra.“
Ísland hefur ekki farið varhluta af #metoo vakningunni sem hófst í nóvember síðastliðnum og hefur leitt til þess að þúsundir íslenskra kvenna hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum um reynslu sína af kynbundu ofbeldi og áreiti. Sárafáir karlmenn hafa tjáð sig um reynslu sína enda hefur kastljósinu einkum verið beint að reynsluheim kvenna. Fjölnir tjáir sig undir myllumerkinu #metoo í færslu á facebooksíðu sinni.
„Konur hafa margoft gripið í punginn á mér og klipið mig í rassinn.
Konur hafa læðst aftan að mér og byrjað sleikja á mér eyrun og hálsinn og ýmsar afkáralegar viðreynsluaðferðir verið viðhafðar. Þegar ég hef ekki verið tilkippilegur hef ég verið kallaður hommi, getulaus, aumingi og þaðanaf verra. Ég hef verið sleginn, það hefur verið sparkað í mig og komið hefur fyrir að konur hafa hrækt á mig.“
„Valdbeitingu sem ekki bara var nauðgun, sama í hvaða mynd hún birtist, heldur einnig hvernig kerfisbundið var bundinn endi á starfsframa og lífsviðurværi hæfakeikafólks með stóra drauma ,mikið inntak, útgeislun og erindi.“
Þá segir Fjölnir að átakið hafi ekki aðeins varpað ljósi á samskiptabrengl sem teygir anga sína í öll mannleg samskipti, heldur hafi „þetta átak orðið svið átaka.“
„Svið þar sem að allt sem lítur að valdbeitingu sem á rætur sínar að rekja til kynjahalla, er tekið til rækilegrar skoðunnar. Loksins hafa allar þær konur sem misboðið hefur verið og brotið hefur verið á með einum eða öðrum hætti sameiginlega rödd. Rödd sem verður að velta við hverjum einasta steini til að hrekja út alla skuggana. En um leið varpar hún ljósi á þá staðreynd; að allt það sem lítur að daglegum samskiptum almennings verður aldrei kynjagreint til hlýtar.
Þó það blasi augljóslega við hvort kynið þarf frekar að girða upp um sig brækurnar.Á því er enginn vafi.
Þá tekur Fjölnir fram að hans sýn og hans upplifun á ákveðnum þáttum þessara samskipta rýri ekki á nokkurn hátt aðdáun hans á því að fá sem karlmaður að upplifa þessa tíma. „Og hafa um leið tækifæri til að lýsa eindregnum stuðningi við þennan löngu tímabæra og gríðarlega þarfa málstað.“
Fjölnir nefnir dæmi um móður sína á áttunda áratug seinustu aldar.
„Ég var trúnaðarvinur, stoð og stytta móður minnar “in the seventies”. Ég man eftir kvennadeginum 1974 og varð á þessu árum æsku minnar vitni af hlutskipti sterkustu konu sem ég hef kynnst.Og það var sko ekki alltaf auðvelt.
Því fagna ég um leið tækifærinu til að biðjast afsökunar á því sem ég get til mín tekið.En get á sama tíma hafnað sem karlmaður, öllu því sem sumir bræður mínir hafa gerst sekir um.Og takandi upp hanskann fyrir hverri einustu móður, konu og meyju sem misrétti hefur verið beitt,Þá tek ég um leið upp hanskann fyrir meginþorra karlmanna sem eru á svipaðri eða jafnvel sömu blasíðu og ég. Að ekki sé talað um alla þá drengi sem í brjósti sínu geyma betri mann en ég gat nokkurntíman orðið.
Af minni skynjan og ályktunum, dregunum af samtali mínu við meðbræður mína, er gríðarlegur stuðningur við nýju byltinguna.
Byltinguna okkar allra.
Röddina okkar allra.“