Ragga Nagli er klínískur heilsusálfræðingur og einkaþjálfari. Á Facebook heldur hún úti vinsælli síðu þar sem hún birtir reglulega pistla um hreyfingu, mataræði og fleira. Í þessum fjallar hún um hvernig gott er að hafa rútínu.
Þú vaknar í stuði með Guði.
Nuddar stírurnar úr glyrnunum.
Hyllir heilsumelinn í þér. Drattar botninum á æfingu.
Skellir í þig grænum spírúlínadrykk á eftir.Djö… ætla ég að massa þennan dag!!
Hnúarnir hvítir af viljastyrk.En eftir því sem líður á daginn fer að kárna gamanið og losnar um krepptan hnefann.
Deddlæn í vinnunni. Borga reikninga.
Hundleiðinlegur fundur með Júlla í bókhaldinu.Sækir krakkann á leikskólann. Í búðina að versla inn. Ætlaðir að fylla körfuna af möndlumjöli, spíruðum höfrum og brokkolí.
Rankar við þér á kassanum með kerruna barmafulla af vakúmpökkuðum örbylgjuréttum kenndum við sjálfstæðisárið.
Snjakahvít brauð og niðurbarnir hakkaklattar í pakkatilboði. Kokteilsósa með.
Slátraðir Snikkers ráfandi um hillurnar á meðan frumburðurinn flutti grískan harmleik í kerrunni.„Á þetta skilið eftir ömurlegan dag.“
„Fokk itt… börger í kvöld, og massa heilsuna á morgun.“
Hvers vegna missum við kúlið eftir klukkan tvö á daginn?
Viljastyrkur er þverrandi auðlind sem tappast af yfir daginn í öllum þeim ákvörðunum sem þarf að taka.
Hvað borða ég í morgunmat? Í hvaða fötum á ég að vera í vinnunni?. Ná í fötin í hreinsun í hádeginu eða eftir vinnu?. Hvað á að elda í kvöldmat.
Þeir sem skokka á heilsubrautinni alla ævi hafa sömu venjur alla daga til að spara hugarorku og viljastyrk.
Borða sama morgunmat alla daga.
Einni ákvörðun færra.
Eins að plana allar litlu ákvarðanirnar kvöldið áður. Eins og í hvaða fötum á að klæðast á morgun.Veistu af hverju Obama var alltaf í eins jakkafötum?
Einni ákvörðun færra yfir daginn. Nóg var víst af öðrum hjá honum.Færri sögum fer af Trump og rauða bindinu.
Lykillinn að góðri rútínu er að fækka ákvarðanatökum til að ganga meðvitundarlaust í verkefnin sem skipta þig máli.
Þegar þú vaknar á morgnana þarftu ekki að rökræða við sjálfan þig um hvort þú sért um borð í TF-Stuð. Flugstjórinn Páll Óskar sem talar.
Ef þú massar eina heilsuvenju í einu þarftu ekki að sarga niður kjálkavöðvana í viljastyrk því þær fara á sjálfstýringu í miðtaugakerfinu.
Rétt eins og að hjóla… eða róla
Eða slátra sjálfinu fyrir að hafa ekki jafn mikinn viljastyrk og prótínslafrandi ræktarmelir á Instagram.
Gerðu bara nokkrar breytingar á rútínunni svo þú getir beint hugarorkunni að ná árangri í því sem skiptir þig máli.