Eins og kunnugt er fer Hera Hilmarsdóttir með aðalhlutverkið í ævintýramyndinni Mortal Engines. Þessi stórmynd úr smiðju kvikmyndagerðarmannsins Peter Jackson er væntanleg um miðjan desember og hefur hver stiklan á eftir annarri gefið upp gríðarlegt umfang sögunnar þar sem tæknibrellur og heimur eimpönksins er í brennidepli.
Hera leikur söguhetjuna Hester Shaw, sem leitar hefnda á þeim aðila sem drap móður hennar og gaf henni ör sem hún telur hafa afmyndað sig. Sagan gerist í framtíðarheimi en þar hefur jörðin eins og við þekkjum hana verið lögð í rúst í styrjöld. Þær fáu borgir sem eftir standa berjast innbyrðis um auðlindir sem í boði eru. Nýjustu stikluna má sjá að neðan.
Handrit myndarinnar er í höndum þeirra Peter Jackson, Fran Walsh og Philippa Boyens, sem öll komu að handritasmíði Hringadróttinsseríunnar, og er efniviðurinn byggður á skáldsögu Philip Reeve. Jackson og hans teymi framleiða, Christian Rivers leikstýrir og er þetta hans fyrsta kvikmynd í fullri lengd. Fyrirhugað er að gera fleiri myndir um þennan sagnaheim ef vel gengur.
Frá því að fyrsta kitla myndarinnar birtist á veraldarvefnum hafa aðdáendur skáldsagnanna verið duglegir að láta í sér heyra í athugasemdarkerfum. Útlit íslensku leikkonunnar hefur verið til mikillar umræðu, þar sem Hera er fyrst og fremst sögð vera alltof falleg.
Í bókunum er andliti kjarnakonunnar Hester Shaw lýst sem ljótu og afmynduðu og þykir útkoma örsins í kvikmyndinni, af stiklunum að dæma, fara aðeins of fínt í hlutina.
i gave hester the correct amount of eyes #MortalEngines pic.twitter.com/WhEgqu2jeW
— Laya ? (@layahimalaya) December 21, 2017
Kona að nafni Anna Blaushild stofnaði undirskriftalista sem beinist að kvikmyndaverinu Universal með yfirskriftinni „Munið afmyndun Hesters Shaw.“
„Afmyndaðar persónur eru sjaldgæfar í Hollywood. Afmyndaðar konur í Hollywood eru enn sjaldgæfari,“ segir meðal annars í lýsingunni.
„Hester Shaw er ljót. Hún er afmynduð, með andlitslömun sem veldur varanlegu hæðnisglotti og sést lítið eftir af nefi hennar. Sumar breytingar eru í lagi. Ég get sætt mig við augun tvö en að fjarlægja örið hennar og með því, hennar fötlun, er áhyggjuefni.“
Undirskriftalistann má finna hér. Að svo stöddu hafa þrjú hundruð manns skrifað undir en er von um að ná fimm hundruð manns, að lágmarki.
Förðunarmeistarinn Anna Langham birti neðangreinda mynd í fyrra á Instagram-síðu sinni þar sem hún kom með sína eigin túlkun á Hester, eins og henni er lýst í bókunum.
Bæði Peter Jackson framleiðandi og Christian Rivers, leikstjóri myndarinnar, hafa svarað þessari gagnrýni aðdáenda og segja kvikmyndir vera sjónrænan miðil þar sem ör af þessu tagi eru ekki alltaf boðleg áhorfendum. Rivers vonast til þess að áhorfendur geti séð myndina fyrst til þess að skilja hvaðan ákvörðunin kom að tóna niður örið.
„Í bókinni er í góðu lagi að lýsa Hester sem ljótri og neflausri, vegna þess að þá getur þú ímyndað þér þetta allt í þínum huga, segir Rivers í viðtali við fréttamiðilinn Entertainment Weekly. „Þegar þú útfærir þetta í kvikmynd er aðeins öðruvísi að fara eftir hverjum bókstaf. Örið hennar þarf að vera nógu áberandi til þess að Hester telji sig ljóta, en það má ekki vera einhver skráma, og mér finnst við hafa fundið gott jafnvægi á milli hvors tveggja.“
Jackson tekur undir orð leikstjórans og bendir á að Mortal Engines eigi að vera ástarsaga og vill hann síður að fólk sé stöðugt með afmyndað andlit í augsýn og það trufli áhorfendur. Segir Jackson einnig að áhorfendur væru ólíklegri til þess að sýna aðalpersónunni samkennd og samúð ef örið blasir alltaf við.
Einnig hefur Philip Reeve, höfundur bókanna, tjáð sig um málið og virðist ekki vera fyllilega sammála þessari nálgun aðstandenda á kvenhetju sinni. Hann telur sig vera þreyttan á hefð skemmtanabransans að fegra upp allar persónur og sagði að Hester hafi verið upphaflega hönnuð til þess að vera ófríð frá öllum sjónarhornum. „Væri ég að sjá um þessa kvikmynd hefði ég fært örið þvert yfir ennið hennar og mögulega gefið henni lepp. En þetta er sjálfsagt ástæðan fyrir því að ég verð aldrei látinn sjá um kvikmynd, segir Reeve. „Snoppufríð andlit eru dýrmætasta auðlind Hollywood-heimsins og framleiðendur eru ekkert hrifnir af því að breyta þessu.“