Jón Grétar Ólafsson arkitekt hlaut fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppni um tillögu að hönnuðu verki, eða listaverki, í nágrenni við jarðvarmastöð Landsvirkjunar að Þeistareykjum.
Tillaga hans ber heitið Römmuð sýn. Niðurstöður voru kynntar á þriðjudag í Hönnunarsafni Íslands.
Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Römmuð sýn er kröftug og djörf tillaga sem vekur athygli á Þeistareykjum sem áningarstað.
Í verkinu er landslagið hafið upp og rammað inn á skemmtilegan hátt. Verkið býr yfir aðdráttarafli og vekur forvitni þeirra sem leið eiga um svæðið. Upplýsingar um nærumhverfið auka á upplifun verksins. Verkið er ekki tæknilega flókið og vel framkvæmanlegt.“