fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Hörður ræddi við Jóhönnu um nýja stjórnarskrá: „Stoppað með valdaráni“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 13. október 2018 12:00

Erfiðir tímar „Árin eftir mótmælin fékk ég alvarlegar hótanir.“

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir að bankarnir hrundu haustið 2008 og hrikti í stoðum samfélagsins, steig einn maður fram og skipulagði mótmæli fyrir utan þinghúsið á Austurvelli. Sá maður var Hörður Torfason, söngvaskáld og þekktur baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra. Í fimm mánuði stýrði hann fundum þar til stjórnin féll og boðað var til kosninga. Hörður hefur nú gefið út minningar sínar frá þessum tíma með það markmið að miðla af reynslu sinni til komandi kynslóða. Hörður ræddi við DV um þessa átakatíma.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Greip inn í þegar upp úr sauð

Eftir að mótmælin á Austurvelli höfðu skilað því að ríkisstjórn Geirs H. Haarde féll og boðað var til kosninga tók við annar kafli í lífi Harðar. Hann ferðaðist um heiminn og talaði um aðgerðirnar á samkomum þar sem hans var óskað. Yfirleitt voru það borgarasamtök sem buðu honum. Í fimm ár starfaði hann við þetta en ákvað svo að draga úr ræðuhöldunum. Hann segist þó ekki vera alveg hættur.

„Það er einstakt að svona verkefni heppnist með þessum árangri og það er mikill áhugi erlendis fyrir að rannsaka mótmælin.“

Hvað vildir þú að kæmi út úr mótmælunum?

„Það sem gerðist. Að ríkisstjórnin, stjórnir Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins segðu af sér og boðað yrði til nýrra kosninga. Undir niðri var krafan um nýja stjórnarskrá en eðli málsins samkvæmt var ekki hægt að setja það sem lokapunkt. Hún hefur verið verkefni Íslendinga síðan 1904 og ekki enn orðið raunin. Þegar síðasta opinbera krafan, að Davíð viki úr Seðlabankanum, var að verða að veruleika átti ég fund með Jóhönnu Sigurðardóttur um að tryggja að það yrði unnið að nýrri stjórnarskrá. Jóhanna gerði það eins og ég segi frá í bókinni. Þjóðin tók sig svo saman og samdi nýja stjórnarskrá en þá var það stoppað með valdaráni. Þá ætluðu stjórnmálamennirnir að fara að vilja skrifa hana. Sorrí, þetta virkar ekki þannig. Fólkið í landinu á að skrifa hana og þeir að fara eftir henni.“

Hverjir fannst þér bera mesta ábyrgð á hruninu?

„Ég vinn ekki þannig heldur kalla ég kerfið sjálft til ábyrgðar. Stjórnmála- og fjármálamenn. Ég var ekki að beina spjótum mínum að ákveðnum einstaklingum og er ekki fylgjandi þeirri stefnu að taka fólk af lífi fyrir það að hafa gert mistök. Við erum samfélag og hverjum og einum á að vera kleift að hafa sitt að segja um hvernig því er stýrt. Upp úr 1990 hófst hér á landi atburðarás sem endaði í þessum tryllingslega dansi og við fórum fram af brúninni.“

Þú ert að meina þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra?

„Já, já. Á þeim tímapunkti kom ný stefna inn í stjórnmálin, það er alveg á hreinu. Ruðningsáhrif hans höfðu áhrif á íslenskan samtíma. Við þurfum að takast á við þetta sem þjóð því annars verður aldrei sátt.“

Fannst þér þingheimur hlusta á ykkur í mótmælunum?

„Nei,“ segir Hörður ákveðinn. „Geir Haarde kallaði okkur skríl. Ég man sérstaklega eftir því þegar upp úr sauð í lok janúar.“ Það var vikan þar sem lögreglan beitti táragasi og kylfum gegn mótmælendum. „Sjónvarpið var yfirfullt af fréttum um grátandi eiginkonur lögreglumanna. Það var reynt að mála ákaflega ljóta mynd af mótmælendum en það var ekki komið til okkar og spurt af hverju við værum þarna. Ég talaði við Geir og varaði hann við þessu en hann áttaði sig of seint. Valdhafarnir á Alþingi voru inni í einhvers konar sápukúlu og vildu ekki hlusta.“

Fór ástandið úr böndunum?

„Það jaðraði við það í janúar en fór aldrei alveg úr böndunum því að við mótmælendur gripum inn í. Stjórnmálamennirnir bentu á okkur og sögðu okkur ábyrg en þeir geta ekki neitað fyrir sína ábyrgð. Ástandið hafði skapast vegna gjörða þeirra. Þeir voru bara ekki vanir að fá svona kröftug viðbrögð. Þeir vissu að þetta gæti farið svona og þeir leyfðu þessu að gerast af því að þeir hlustuðu ekki á okkur,“ segir Hörður með áherslu.

Innan um mótmælendur var fólk sem ekki tilheyrði hópnum, fólk sem átti jafn vel eitthvað sökótt við lögregluna. Framganga þeirra var nokkuð til tals meðan á hamaganginum stóð.

„Það eru líka manneskjur,“ segir Hörður. „Allir tilheyrðu hópnum en voru með mismunandi áherslur og aðferðir. Ég talaði sérstaklega við ungt fólk sem setti upp grímur. Ég sagði að innan þeirra raða myndi koma upp hópur sem gerði ekkert annað en að eyðileggja fyrir þeim. Með því að fela andlitin væru þau að veikja málstaðinn. Erlendis, til dæmis í Grikklandi á þessum tíma, var það vel þekkt að lögreglumenn og hagsmunaaðilar settu upp sams konar grímur og fremdu skemmdarverk til að sverta mótmælin.“

Hvernig fannst þér lögreglan taka á mótmælunum?

„Lögreglan gat eiginlega ekki tekið öðruvísi á þessu en hún gerði því hún var svo fáliðuð. Ég átti fund með Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra og sá að þeir tóku stefnu um að vera ekki að berja mótmælin niður með ofbeldi. Sem var hárrétt því að mótmælin voru yfirlýst friðsamleg.“

Þeir þurftu nú stundum að bregða sér í óeirðagallana?

„Já, já,“ segir Hörður og brosir. „Það verða alltaf einhverjir sprelligosar inni á milli og hópurinn var stór og ólíkur. Það voru alltaf einhverjir sem áttu kannski auka egg til að kasta eða fernu af mjólk. Mannlífið er fjölbreytt og það vissum við, bæði ég og lögreglan. Það alvarlegasta sem gerðist, held ég, var að einn maður handleggsbrotnaði. Það var auðvitað slæmt en heilt yfir þá gekk þetta ótrúlega vel. Bæði ég og lögreglan náðum að halda góðri stjórn á þessu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?