Bjórböðin á Árskógssandi voru opnuð 2017, en þau höfðu þá lengi verið draumur Agnesar Önnu Sigurðardóttur eftir að hún heimsótti slíkt bað í Tékklandi 2008 ásamt eiginmanni sínum, Ólafi Þresti Ólafssyni.
„Þarna var bruggsmiðja þeirra Kaldi orðin tveggja ára og þau heimsóttu Tékkland ásamt bruggmeistara sínum. Bjórbaðið var síðan ofarlega í huga Agnesar, en aldrei gafst tími til eða færi á að opna slíkt hér heima,“ segir Ragnheiður Ýr Guðjónsdóttir, tengdadóttir Agnesar og Ólafs, sem á fyrirtækið með þeim ásamt eiginmanni sínum og syni þeirra, Sigurði Braga Ólafssyni.
„Árið 2014 kom umræðan upp aftur og þá sögðumst við vera til í þetta með þeim og við fórum á fullt í þessa vinnu. Bjórböðin voru síðan opnuð 2017.“
En hverjir eru kostir bjórbaðs fyrir líkamann? „Gerið er stútfullt af B-vítamínum og steinefnum, sem er einstaklega gott fyrir húð, hár og neglur. Bjórböðin eru heilsulind, húðin verður eins og silki.“
Innifalið í baðgjaldinu er sloppur og handklæði. Mælt er með að koma tímanlega og fara í útipottana áður en farið er í bjórbaðið. Sjö ker eru á staðnum og er hvert þeirra einkaherbergi, þannig að gestir eru alveg í næði. Hvert ker er tveggja manna. Hitastigið er 39–40 gráður, ef fólk vill hafa kaldara eða heitara, þá er hægt að óska eftir því.
„Síðan slakar þú á í 25 mínútur. Svo er gestum fylgt upp á aðra hæð í slökunarherbergi og þar er viðkomandi í 25 mínútur. Slökunarherbergið er teppalagt og allt mjög notalegt. Við mælum með að sleppa sturtu í 3–4 klukkustundir eftir bað, þannig að bjórinn geri það sem hann á að gera. Þú verður ekki klístraður eða angandi af bjór á eftir, fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því, maður er sléttur og mjúkur á eftir.“
Bjórböðin hafa verið vel sótt bæði af heimamönnum og ferðamönnum, Íslendingar mæta frekar seinni partinn og um helgar, meðan ferðamenn mæta frekar að degi til. „Við erum með nokkra fastagesti, sem dæmi má nefna hjón sem hafa komið nokkrum sinnum til okkar, en eiginmaðurinn er með psoriasis og honum finnst böðin hjálpa sér. Við fáum gríðarlega mikið af hópum til okkar og eru starfsmannahópar sérstaklega vinsælir.“
Baðið er fyrir alla, þungaðar konur og börn hafa komið í böðin. Hins vegar er 20 ára aldurstakmark, eins og lög gera ráð fyrir, í að neyta bjórsins. Bjórinn í bjórböðunum er 3–5 daga gamall og því ekki orðinn áfengur og því öllum óhætt að fara ofan í.
Bjórböðin eru einstök heilsulind, en eftir því sem Ragnheiður veit best eru böðin þau einu á Norðurlöndum. „Það koma margir Danir, Norðmenn og Þjóðverjar, og þeir síðasttöldu hafa flestir aldrei heyrt um þetta, þrátt fyrir að böðin séu vinsælust í Tékklandi.“
Gjafabréf, sápur og fleira í jólapakkann
„Við erum með bjórsápur. Við notum bjórsalt og bjórólíur ofan í böðin, sem gefa einnig góða lykt. Við eigum líka sjampó, hárnæringu, og fleira. Fyrir jólin munum við bjóða upp á gjafapakka. Einnig eru gjafabréf í boði, sem sníða má eftir vali hvers og eins, hvort sem er ákveðin upphæð eða meðferð.“
Tilvalin fyrirtækjagjöf.
Gisting er ekki í boði á staðnum, en í nágrenninu er fjöldi gistimöguleika og leiðbeina eigendur Bjórbaðanna gestum um það. Flestir bjóða þeir upp á akstur fram og til baka.
Allar upplýsingar má fá í síma 414-2828, netfanginu bjorbodin@bjorbodin.is og á heimasíðunni: bjorbodin.is.