Í síðustu viku fór fram tvöföld aðalmeðferð í héraðsdómsmálinu: Kristinn Styrkársson Proppé gegn Líf Veru Brands- og Sölkudóttur og fleirum.
Kristinn (betur þekktur sem Stinni stuð) krafðist þess að tiltekin ummæli í Verzlunarskólablaðinu yrðu dæmd dauð og ómerk og sér dæmdar miskabætur.
Ekki er þó um að ræða dómsmál í réttarsal Héraðsdóm Reykjavíkur, heldur nemendur Björns Jóns Bragasonar, sagnfræðings og lögfræðings, sem kennir lögfræði við skólann.
Nemendur sömdu stefnu, greinargerð, málflutningsræður og aðiljaskýrslur, en dóms er að vænta í næstu viku. „Þeim fórst verkið vel úr hendi og sumar málflutningsræðurnar hefðu verið fullburðugar fyrir raunverulegum héraðsdómi,“ segir Björn Jón. „Svo margir góðir leikarar og ræðumenn í Verzlunarskólanum, verða að fá tækifæri til að njóta sín.“