fbpx
Föstudagur 29.nóvember 2024
Fókus

Vinur Þorbjarnar dó þegar hann var keyrður niður – Óttast að Þorbjörn sé næstur – „Það lifa ekki allir kaldan veturinn af“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 10. október 2018 13:50

Mynd frá síðasta fundi mæðginanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Hauksdóttir Schmidt sem er búsett í Danmörku vekur athygli á aðstæðum útigangsmanna í nýlegri færslu sinni á Facebook. Málefnið er Guðrúnu kært, enda er sonur hennar Þorbjörn Haukur, einn þessara manna.

„Þorbjörn hefur verið í mörg ár á götunni með hléum þó,“ segir Guðrún í samtali við DV. Þorbjörn bjó ásamt fjölskyldu sinni í nokkur ár í Danmörku og flutti síðan fyrir átta árum aftur til Íslands og þá til Fáskrúðsfjarðar.

Árið 1992 þegar Þorbjörn var tvítugur lenti hann í alvarlegu slysi á leið til vinnu. „Hann starfaði á Kópavogshæli og var á leið í vinnuna, þegar hann lendir í mótorhjólaslysi við Vogatungu í Kópavogi. Honum var ekki hugað líf í fjóra daga. Hann fékk mörg líkamsbrot og skaddaðist á framheila. Hann var í eitt ár á sjúkrahúsi og var síðan í alls konar eftirmeðferðum á Grensás og Reykjalundi, þetta var hræðilegur tími.“

Þorbjörn var ungur maður með allt lífið framundan og segir Guðrún slysið hafa markað allt hans líf. „En hann kom glaður út úr þessu öllu saman, enda mjög sterkur á líkama og sál þó margt sé farið að gefa sig í dag hjá elsku syni mínum.“

Alkóhól er morgunmatur margra heimilislausra

Guðrún kom nýlega í heimsókn til Íslands og hitti son sinn og vini hans sem einnig búa á götunni á Ingólfstorgi. „Klukkan var rúmlega 10 og biðu þeir eftir að ríkið myndi opna til að kaupa alkóhól til að byrja daginn. Enginn þeirra var búinn að borða morgunmat, listin í mat ekki mikil að morgni enda líkaminn byrjaður að skjálfa eftir alkóhóli.“

Guðrún gekk síðan með syni sínum og vinum hans eftir Austurstræti þegar ríkið opnaði kl. 11. Þar var annar hópur í sömu erindagjörðum sem beið.

„Ég ætlaði einmitt að bjóða Þorbirni út að borða þegar við hittumst, en hann var ekki svangur. Það tóku allir undir með honum sem við stóðum hjá á Ingólfstorgi, segjast ekki svangir á morgnanna enda þörfin mest fyrir sopann. Ef hann nær plássi í skýlinu þá fær hann að borða þar. Svo er gott fólk út í samfélaginu sem gefur heimilislausum að borða. Að öðrum kosti er lítið val um mat,“ segir Guðrún. „Þorbjörn sagði að stundum fengi hann að borða frítt á pylsuvögnunum. Svo er Samhjálp líka, þar er dásamleg þjónusta og gott fólk segir Þorbjörn.“

Hjálpræðisherinn sá um útför manns sem átti engan að

Einn vinur Þorbjarnar og útigangsmannana vina hans er nýlátinn og var þeim umhugað um að segja Guðrúnu frá, enda sorgin vegna andláts vinar þeirra mikil.

„Sá sem lést var keyrður niður. Hann átti engan að og því sá Hjálpræðisherinn um kostnað útfararinnar,“ segir Guðrún, sem hefur núna áhyggjur af syni sínum og vinum hans þegar veturinn nálgast.

„Ég verð svo sorgmædd að hugsa til þeirra sem hafa ekkert húsaskjól. Það eru ekki allir sem lifa kaldan veturinn af. Mér líður ekki vel með að hugsa til þess að sonur minn og allir hinir búi bara á bekkjum í vetur.“

Í gistiskýlinu á Lindargötu eru 25 pláss í boði og duga þau ekki til, því að sögn Guðrúnar og Þorbjarnar eru um 100 manns heimilislausir í miðborg Reykjavíkur. Á ákveðnum tíma þurfa þeir sem vilja fá inni í Gistiskýlinu að mæta þar fyrir utan, 25 þeirra ná gistingu þá nótt, hinir þurfa frá að hverfa. Þeir sem ná gistingu fá bæði kvöldverð og morgunmat. „Þorbjörn dásamar Gistiskýlið, segir þar hlýtt og elskulegt fólk.“

Guðrún fór í bílferð með Þorbirni um Kópavog, Hafnarfjörð og Reykjavík. „Hann sýndi mér þá staði sem hann sefur á ef hann nær ekki plássi í gistiskýlinu. Það eru bílaskýli, sumir velja kirkjugarða, aðrir kjallara sem eru opnir. Hann sýndi mér alla bekkina sem hann hefur sofið á í miðbæ Reykjavíkur.“

Að sögn Guðrúnar hefur Þorbjörn farið í margar meðferðir, en hún er á því að sama meðferð dugi ekki fyrir alla. „Skjólstæðingarnir eru á misjöfnu róli hvað varðar geðheilsu og annað.“

Er ekki kominn tími til að þessu blessaða fólki sé sinnt?

Guðrún þakkar fyrir góða þjónustu í Gistiskýlinu, en segir vanta fleiri pláss, fleiri gistirými. „Hvað er að ráðamönnum þessa lands. Það er ekki eins og Reykjavík sé margra milljóna borg? Borgin er lítil og einfalt að hjálpa öllum, ef viljinn er fyrir hendi. Peningarnir eru greinilega til, en pólitíkusar loka augunum fyrir vandanum.

Er ekki kominn tími til að þessu blessaða fólki sé sinnt, núna strax. Björgum þessum manneskjum frá götunni.“

 

 
 
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

In Flames til Íslands í sumar

In Flames til Íslands í sumar
Fókus
Í gær

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí

Háklassa vændiskona útskýrir af hverju hún myndi aldrei fara í vinnuferð til Dúbaí
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara

Fór að leita að norðurljósum á Íslandi en fann nokkuð enn sjaldséðara
Fókus
Fyrir 3 dögum

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman

Opinbera kyn fyrsta barnabarns auðkýfingsins Róberts Wessman