fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Verktakar ósáttir við að Prime Tours fái áfram að aka fötluðum

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 14. október 2018 23:00

Strætó

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framkvæmdastjóri Strætó veit ekki hvort fyrirtækið Prime Tours geti haldið áfram akstri en félagið er með samning um að sinna akstursþjónustu fyrir fatlaða. Erfið staða félagsins hefur verið kunn lengi og nauðasamningar gerðir á síðasta ári. Strætó hefur í tvígang fengið á sig úrskurð frá kærunefnd útboðsmála vegna samstarfsins við Prime Tours og aðrir verktakar eru uggandi.

Staðan í lausu lofti

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segist ekki vita hvernig málið stendur. „Ég veit ekkert meira en stendur í fréttum. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar aðrar en að þeir séu í þessari meðferð. En við erum með varaáætlun ef allt fer á versta veg.“

Þannig að þið vitið ekki hvort Prime Tours muni halda áfram akstri eða ekki?

„Nei, við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um það, aðeins vangaveltur frá hinum og þessum.“

Óttist þið að akstur fatlaðra sé í uppnámi?

„Nei, þetta eru 20 verktakar. Þótt þessi sé stór í hjólastólabílum þá teljum við að við getum bjargað okkur með því að hinir keyri meira ef allt fer á versta veg. Við höfum áhyggjur af þessu en teljum að þetta muni að minnsta kosti ekki bitna mikið á þjónustustiginu.“

Gjaldþrotabeiðni var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag vegna skulda opinberra gjalda eins og RÚV greindi frá. Hjörleifur Hafliðason, forráðamaður félagsins, segir við DV að beðið sé eftir skiptastjóra. „Við héldum að allir myndu ganga hérna út þegar við tilkynntum þetta, en svo fór ekki. Við vitum í raun ekkert hvað gerist og þetta er allt í lausu lofti.“ Enn þá er félagið að sinna akstursþjónustu fatlaðra.

Samningur félagsins við Strætó gildir til loka árs 2019 en auk þess starfar Prime Tours í ferðamannageiranum. Samningurinn hefur valdið reiði meðal annarra verktaka sem segja Prime Tours fá afslætti af kröfum varðandi skoðanir á bílum. Þessu hafnar Jóhannes alfarið og segir að bílar Prime Tours gangi undir gæðaskoðanir hjá VSO líkt og aðrir.

Þá eru verktakarnir mjög ósáttir við að Prime Tours sé úthlutað verkefnum á meðan svona er ástatt hjá fyrirtækinu. „Við erum aðgerðarlausir í dag til dæmis af því að gjaldþrota fyrirtæki er að keyra. Eigum við að vera í samkeppni við þrotabú?“ segir einn þeirra.

 

Ekki með leyfi við framsal

Alls eru um 80 bílar sem sinna akstursþjónustu fyrir fatlaða. Stærstir eru Hópbílar með um helminginn en þar á eftir kemur Prime Tours með 25 bíla. Aðrir eru einyrkjar með 1–3 bíla hver. Akstursþjónusta fatlaðra var boðin út árið 2014 af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og nokkrir aðilar, misstórir, buðu í. Einn af þessum aðilum var Kynnisferðir en hætti við og framseldi réttinn til Prime Tours, sem þá hét Ný-Tækni ehf.

Samkeppnisaðilarnir voru ósáttir við þetta og bentu meðal annars á að félagið hafi ekki haft leyfi til fólksflutninga þegar Strætó samþykkti framsalið. Það leyfi fékkst rúmum mánuði síðar þegar tilgangi félagsins var breytt. Var þetta kært til kærunefndar útboðsmála sem úrskurðaði þann 13. ágúst árið 2015 að Strætó hefði brotið gegn jafnræðisreglu. Samningurinn var ekki úrskurðaður ólögmætur en nefndin taldi að Strætó væri skaðabótaskylt gagnvart öðrum þátttakendum útboðsins og var Strætó gert að greiða þeim 800 þúsund krónur í málskostnað.

Ári síðar var aftur úrskurðað kærendum í vil hjá kærunefndinni en þá snerist málið um forgangsröðun rammasamningshafa. Í úrskurðinum frá 21. júní árið 2016 segir:

„Óumdeilt er að varnaraðili hefur í fleiri skipti beint viðskiptum til fyrirtækja sem eru ekki aðilar umrædds rammasamnings. Samkvæmt þeim gögnum sem varnaraðili hefur lagt fyrir nefndina eru slík viðskipti jafnan á bilinu 5–10% af heildarviðskiptum á hverjum degi.“

Aftur var álit nefndarinnar að Strætó hefði bakað sér skaðabótaskyldu og aftur var Strætó gert að greiða kærendum 800 þúsund krónur í málskostnað.

 

Jóhannes Svavar Rúnarsson
„Ef þeir sinna þjónustunni og hafa ekki brotið neitt af sér þá eru hendur okkar bundnar.“

Segir hendur Strætó bundnar

„Þeir verða að sýna fram á að þeir hafi orðið fyrir einhverjum skaða og hingað til hafa þeir ekki sent okkur neinar kröfur. Þannig að væntanlega hafa þeir ekki orðið fyrir skaða nema að þeir séu enn þá að skoða málið,“ segir Jóhannes.

Hann segir að málin tengist atvikum sem komu upp á fyrstu mánuðum samningsins. Hvað varðar forgangsröðunina þá sé búið að kippa þeim málum í liðinn. „Þetta var lagað strax og úrskurðurinn kom, þegar menn áttuðu sig á þessum mistökum.“

Nú hefur erfið staða félagsins verið kunn í langan tíma. Af hverju hafið þið ekki gripið inn í?

„Við höfum ekki heimildir samkvæmt lögum um opinber innkaup til að gera neitt í þeim efnum, þó að það hafi verið gert árangurslaust fjárnám. Ef þeir sinna þjónustunni og hafa ekki brotið neitt af sér þá eru hendur okkar bundnar. Við höfum auðvitað skoðað alla fleti.“

Hafið þið reynt að rifta samningnum?

„Kannski ekki reynt að rifta, en verið undir það búnir að þetta sé atriði sem geti þýtt að við getum krafist riftunar. Það hefur ekki komið upp hingað til og þeir hafa alltaf sinnt þjónustunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“