Sorg og gleði – Trúa á ástina – Perrar – Barneignir – Ást á ónýtu kerfi – Verður amma – Óvirðing við hinn látna – Erfitt að ná ekki að kveðja vinkonu
Það gekk á ýmsu í samfélaginu árið 2017. #Metoo byltingin hafði gríðarleg áhrif, þá féll ríkisstjórn og önnur reis í staðinn. Hér ætlum við ekki að fjalla um samfélagsmál nema að hluta.
Í áramótablaði DV tjáðu þekktir Íslendingar sig um sínar verstu stundir á árinu og þær bestu. Sumir tjáðu sig um erfiðan missi, kynferðislega áreitni og árásir á netmiðlum. Þá opnuðu hinir þekktu Íslendingar sig um ný líf, börn, barnabörn og getur einn fyrrverandi þingmaður ekki beðið eftir að verða amma. Myrkur og ljós í lífi þekktra Íslendinga á árinu 2017.
Marta María ritstjóri SmartlandsÓvirðing við hinn látna náði hámarki
2017 var magnað ár á margan hátt. Auðvitað var það alveg snúið á köflum en gleðistundirnar voru líka margar. Á árinu fann ég óþægilega fyrir því hvað skiptir mig mestu máli í lífinu. Bestu stundirnar átti ég með manninum mínum og börnum og svo átti ég líka mjög gott sumar með foreldrum mínum og systkinum. Það besta er líklega ferðalag sem við maðurinn minn fórum í þegar við laumuðum okkur á síðustu stundu í ferð sem skipulögð var fyrir útskriftarnema úr MS til Búlgaríu. Við vorum reyndar á öðru hóteli en þetta land er ævintýri líkast. Búlgaría er afbragð.
Það versta var líklega að keyra fram á dauðaslys í Marokkó síðasta vor. Þegar við keyrðum framhjá lá látinn unglingur í blóði sínu eftir vélhjólaslys. Það sem var óhugnanlegt, fyrir utan að sjá líkið liggja á götunni, var að í kringum líkið hópuðust unglingar með snjallsíma og voru að taka upp myndskeið. Óvirðing við hinn látna náði þarna hámarki.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Veikindi móður mikil áskorun
Það besta á árinu er án efa að ná kjöri sem formaður VR og sá mikli meðbyr sem ég hef fengið í þann stutta tíma sem ég hef verið í starfi. Stuðningur frá félagsmönnum, fjölskyldu og vinum skiptir þar mestu um en starfsfólk félagsins hefur einnig reynst mér afar vel og staðið með niðurstöðu kosninganna. Svo ber að fagna því að vinur minn Hjörvar Hjörleifsson útskrifaðist sem húsasmíðameistari.
Alvarleg veikindi móður minnar hafa reynst fjölskyldunni mikil áskorun þótt hún takist á við þau af miklu æðruleysi. Það er einhvern vegin ekki hægt að finna eitthvað neikvætt við lífið í samanburði við það nema kannski húmorinn hans Hjörvars. Þó þótti mér miður að standa ekki við þær skuldbindingar sem ég hafði gert gagnvart vinnuveitenda mínum þegar ég náði óvænt kjöri og ljóst var að ég þyrfti að skipta um starfsvettvang en sem betur fer var mikill skilningur fyrir því.