fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Tina Turner íhugaði að taka eigið líf á erfiðum tíma – Segir frá lífgjöf eiginmannsins í nýrri ævisögu

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 7. október 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brúðkaupsdagurinn minn hefði ekki getað verið fullkomnari eða glæsilegri, og það var öllum sama þó að brúðurin væri 73 ára. Ég var búin að skipuleggja allt sjálf, og þar á meðal að flytja inn 100 þúsund rósir til að skreyta heimili okkar í Sviss.

Svona hefst grein á Daily Mail þar sem fjallað er um brot úr ævisögu söngkonunnar Tinu Turner, A Love Story, sem kemur út 15. október. Í henni segir Tina á gamansaman hátt frá fyrstu kynnum hennar og eiginmannsins Erwin Bach, sem er 16 árum yngri en hún. Lífi þeirra saman, erfiðleikunum þegar heilsa hennar gaf sig og hún var nær dauða en lífi, og stærstu gjöfinni sem hann gaf henni, þegar hún þurfti mest á henni að halda.

Þegar vinir okkar fóru að mæta og drukku kampavín þennan fallega dag í júlí 2013 var loftið fyllt af unaðslegum ilmi.

Ég hafði haft mikið fyrir því að finna brúðkaupstónlist sem hentaði. Ef þú hlustar á lag Frank Sinatra, My Way, þá passa orðin lífi mínu fullkomlega: „The record shows I took the blows / And did it my way.“ (Tíminn sýnir að ég þoldi margt, og ég gerði það á minn hátt).

Ég varð að hafa þetta lag. Þrátt fyrir frægt ofbeldishjónaband mitt og Ike Turner, þá hafði mér tekist að finna ástina, eitthvað sem var framar mínum vonum.

Það var fyrst þegar við vorum að stilla okkur upp fyrir myndatökur, að mér fór að líða skringilega. Þetta hlýtur að vera hitinn, hugsaði ég, eða kjóllinn; Armani veisla af efni, svörtu tjulli og Swarovski kristöllum , sem varð þyngri með hverri mínútunni sem leið.

Staðreyndin var sú að þessi skringilega tilfinning var byrjunin á martröðinni sem fylgdi á eftir, martröð sem endaði á því að Erwin elskulegur eiginmaður minn gaf mér stærstu gjöfina, sjálfa lífgjöfina.

Erwin og ég hittumst fyrst 28 árum áður. Á þeim tíma var ég að ferðast um heiminn með Private Dancer tónleikaferðalagið, og ég átti lítinn tíma aflögu fyrir einkalíf.

Ekki það að ég hafi átt mikið af kærustum, ég varði yngri árum mínum með Ike, og eftir skilnaðinn þá voru stefnumót oft meira vesen en þau voru virði.

Ég var hvort eð er aldrei þessi kona sem þurfti að stunda kynlíf hvenær sem var, til að vera alveg hreinskilin, þá leið oft ár án þess að ég stundaði kynlíf.

Í þessari viku árið 1985 voru næstu tónleikar í Cologne í Þýskalandi. Þegar Roger umboðsmaður minn og ég lentum í borginni, var ég nokkkuð þreytt og niðurdregin þegar ég hugsaði til stífrar dagskrárinnar sem var framundan.

Við vorum að ganga í gegnum flugvöllinn þegar ungur maður steig fram og heilsaði okkur. Ég hélt að hann væri aðdáandi, en Roger heilsaði honum vinalega.

Erwin Bach, yfirmaður hjá EMI, útgáfufyrirtækinu mínu í Evrópu, var mættur til að færa mér óvænta gjöf frá Roger, glænýjan Mercedes Bens G Wagon jeppa. En það óvænta var ekki bíllinn, heldur maðurinn.

Hjarta mitt fór allt í einu að slá af ógnarhraða og hendurnar á mér urðu ískaldar. Svo þetta er það sem kallast ást við fyrstu sýn, hugsaði ég. Guð minn góður, ég er ekki tilbúin fyrir þetta.

Roger fór inn í limósíuna sem beið, meðan ég fór í Bens jeppann með Erwin, svo hann gæti sagt mér allt um bílinn meðan hann keyrði mig á hótelið. Ég skoðaði hann vandlega, hann var ungur, um þrítugt giskaði ég á og hann var fallegur, þó ekki á hefðbundinn hátt. Svart hár, fallegar hendur. Það er eitthvað við karlmannshendur.

Skyndilega varð ég mjög meðvituð um sjálfa mig og eigið útlit. Ég var í Issey Miyake peysu og leðurbuxum, rokk og róll stíll, og hárið á mér var MIKIÐ, MIKIÐ, MIKIÐ, á þessum tíma. En ef þú hefðir spurt mig, þá fannst mér ég ekki líta vel út og efaðist um að Erwin fyndist ég heillandi.

Og ef að hárið fældi hann ekki frá: ég var 46 ára, skilin, móðir tveggja drengja og tveggja stjúpdrengja, sem voru í raun karlmenn sjálfir.

Hvað var Erwin að hugsa? Seinna, miklu seinna, fékk ég að vita að hann fann sömu rafmögnuðu tilfinninguna og ég.

Þegar hann leit á mig þá sá hann ekki stjörnuna, ekki húðlit minn eða annað slíkt. Hann sá mig sem konu, konu sem hann langaði í.

Í bílferðinni voru samræður okkar nokkuð þvingaðar. Við náðum að tala smávegis saman um mælaborðið og önnur slík atriði þar til við komum á hótelið.

Eftir að hann var farinn fleygði ég mér á rúmið og hugsaði: „Hann er æðislegur. Alveg æðislegur. Hvað geri ég núna?“

Ég hitti Erwin aftur á nokkrum kvöldverðum sem skipulagðir voru af EMI. Í eitt skipti vorum við sætisfélagar og ég hugsaði: „Mér er alveg sama, ég ætla bara að spyrja hann,“ þannig að ég hallaði mér að honum og hvíslaði: „Erwin þegar þú kemur til Bandaríkjanna, þá vil ég að þú njótir ásta með mér.“

Hann horfði bara á mig eins og hann tryði ekki því sem hann hafði heyrt, ég trúði varla sjálf að ég hefði sagt þetta. Seinna sagði hann mér að kona hefði aldrei átt fyrsta skrefið við hann áður og hann hefði hugsað: „Vá þessar konur frá Kaliforníu eru frakkar!:“

En ég var það ekki, alls ekki. Ég hafði aldrei gert neitt svona áður. Ég skildi þetta ekki. En að lokum kom Erwin til Los Angeles í viðskiptaferð og ég hitti hann yfir kvöldverði. Ég bauð síðan öllum heim eftir á og þarna byrjaði ástarsamband okkar.

Tónlist var spiluð, hinir gestirnir voru farnir, við byrjuðum að kyssast og enduðum í svefnherberginu. Erwin var hjá mér um nóttina.

Í hjarta er hann eldri en ég

Næsta morgun átti hann að fara til Hawaii í viðskiptaferð. Ég hugsaði um hann stanslaust í tvo daga og síðan hringdi hann og sagði að ferðin hefði fallið niður. Hann var búinn að vera rétt hjá í Malibu, hjá vinum sínum og hafði ekki haft fyrir að segja mér það.

Ég reyndi að vera svöl á því, en ég var brjáluð. „Tina þú ert nú meira fíflið. Af hverju velur þú alltaf svona slæma karlmenn? Verða alltaf að vera vonbrigði?“ Ég gat ekki hugsað mér að vera særð aftur. Ég ákvað að það væri best að vera ein.

Nokkrir mánuðir liðu. Ég hitti Erwin aftur þegar ég var að kynna Private Dancer (plötuna) í Basel í Sviss og tilfinningarnar helltust yfir mig aftur.

Ég var með hús á leigu í Gstaad yfir jól og áramót, þannig að ég bauð honum og fleirum frá EMI í heimsókn. Eitt kvöldið kom hann einn og í lok kvöldsins var ég búin að ákveða að flytja inn til hans. Þar sem hann væri þar væri heimili mitt.

Svona hófst ástarsaga mín með manni sem er 16 árum yngri en ég. En það er ekkert sem skiptir mig máli, hvorki þá né núna.

Það má vel vera að heimurinn sjái Erwin sem „yngri mann Tinu,“ en sannleikurinn er sá að í hjarta er hann 60 ára og ég 16 ára. Hann hefur alltaf verið gömul sál. Og hann er mun þroskaðari en ég er, hann skipuleggur fram í tímann og er varkár, annað en ég sem er hvatvís.

Þegar ég var 46 ára, þá leit ég ekki út fyrir að vera eldri en hann 30 ára. Og í dag lít ég ekki út fyrir að vera eldri en hann.

Ég hugsa aldrei um aldursmuninn. Mér finnst ég ekki einu sinni þurfa að hafa fyrir því að vera falleg í rúminu, ég er komin yfir það. Hvað hefur ást með það að gera? Allt!

Tina kemur Erwin á óvart og ekki á góðan hátt

Þannig að ég tók rétta ákvörðun þegar ég pakkaði tíu Louis Vuitton ferðatöskum og hélt til tveggja herbergja íbúðar Erwin nálægt Cologne. Í henni var frábært hljóðkerfi, en ekki mikið annað.

Þegar ég kynntist Erwin betur komst ég að því að „mínímalismi“ er millinafn hans, hann hatar dót. Ég hins vegar fylli allt af bókum, kertum, ljósmyndum, skrautmunum, allt sem gefur til kynna persónuleika.

Þannig að það fyrsta sem ég hugsaði var: „Þetta herbergi þarf á skrauti að halda.“ Ég beið eftir að Erwin var floginn til Brasilíu í viðskiptaferð, fór hamförum í verslunarferð í heimilisverslun og breytti öllu í íbúðinni hans. Þetta átti að vera óvænt og það var það. Honum fannst þetta hryllilegt. Hvert sem hann horfði var dót, dót og meira dót.

Sem betur fer var vinur okkar í mat sama kvöld, þannig að Erwin hélt aftur af sér og daginn eftir var hann búin að róast aðeins.

Er ekki fyndið að hann átti erfiðara með að venjast nýjum húsgögnum en nýrri konu í lífi sínu? Við lifðum þennan slag af, en skreytingarstríðið er enn í gangi.

Töskurnar mínar tíu (mánaðarferðalag) voru líka vandamál, það var ekkert pláss fyrir þær í 100 fm2 íbúð hans. Þannig að ég geymdi þær í geymslunni niður í kjallara og hljóp alltaf niður til að ná í föt.

Þú getur ímyndað þér hvað nágrönnum hans brá þegar þeir löbbuðu inn í þvottahúsið í kjallaranum og þar var Tina Turner að gramsa í töskum til að finna eitthvað að fara í.

Öryggisverðir mínir sváfu á nærliggjandi hóteli og töluðu við mig í gegnum talstöðvar. Ég er viss um að Erwin fannst oft nóg um því hann er ekkert hrifinn af frægð og því sem henni fylgir.

Ég var ástfangin upp fyrir haus af honum. Í fyrsta skipti fannst mér sem ég væri í alvöru sambandi. Svona á þetta að vera hugsaði ég með mér.

Einn daginn spurði hann mig á sig heillandi þýska máta: „Erum við saman, erum við par?“

Eftir fyrstu viðreynslu mína við hann stuttu eftir að við hittumst þá gat hann ekki annað en velt því fyrir sér hvort að ég væri villt og óútreiknanleg, að ég væri bara að leika mér að honum og myndi fara frá honum einn daginn.

En í stað þess að vilja flýja, sem var tilfinningin sem ég fann alltaf fyrir gagnvart Ike, þá langaði mig bara að vera meira og oftar með Erwin.

Ég var ekki að leita að eiginmanni, ég vildi bara vera elskuð. Barnæska, engin ást. Fyrri sambönd, engin ást. Allt mitt líf, aldrei raunverulega elskuð. Ég vildi finna að Erwin elskaði mig, meira en allt. Og það gerði hann. Svo sannarlega.

Erwin biður Tinu í fyrsta sinn

1989 þegar ég var að verða fimmtug, bað hann mín. En ég var ekki viss um hvað mér fannst um hjónaband. Það gat breytt hlutunum og samkvæmt minni reynslu, ekki alltaf til hins betra.

Næstu árin vörðum við miklum tíma saman í Cologne og í húsi sem ég keypti í Suður-Frakklandi.

1995 þegar hann var beðinn um að taka við skrifstofu EMI í Sviss, þá fylgdi ég honum eins og góð þýsk frú. Við fluttum í gamaldags villu við Zurich vatn, Château Algonquin, þar sem við búum enn þá.

Við eigum marga góða vini. Og trúðu mér, það er ekkert „frægðarlegt“ við líf okkar hér.

Einn daginn sat ég við hliðina á Sophiu Loren á tísusýningu Armani í Milan og ég sagði við hana að ég væri í fríi frá söngnum.

Hversu lengi? spurði hún. Þegar ég svaraði: Það eru komin sjö ár, þá svaraði hún til baka: Hvíldinni er lokið. Fólk vill sjá þig. Farðu aftur að vinna.

Og þá fór ég í 50 ára afmælistónleikaferðalag og hélt upp á hálfrar aldar afmæli sem söngkona. Ég var spennt fyrir að vinna aftur, en tók eftir að ég var ekki jafnfull af orku eins og áður.

Ef þú vilt fá Guð til að hlæja, segðu honum hvað þú ert búin/n að skipuleggja

Ég var vissulega 69 ára og á krefjandi tónleikaferðalagi. Ég var líka með háan blóðþrýsting og hafði verið á lyfjum við honum síðan 1985. Var það þess vegna sem ég kláraði orkuna á hverju einasta kvöldi?

Eftir að hafa unnið mikið í mörg ár, þá var ég tilbúin til að hætta. Ég vildi ekki að aðdáendur mínir myndu mæta á tónleika eftir ár, eða tvö, og hugsa: „Vá hún var einu sinni góð.“

Ég er mjög stolt og ég hef alltaf haft gott tímaskyn. Þannig að þegar ferðalaginu lauk hætti ég að koma fram alfarið. Í fyrstu elskaði ég að vera hætt að vinna. Ég vildi bara fara og versla í matinn, fara í gönguferðir með Erwin, vinna í garðinum, horfa á árstíðaskiptin og umfram allt, njóta kyrrðarinnar.

Mér leið vel. Ég hef aldrei reykt eða tekið eiturlyf. Ég var í góðu formi eftir 50 ár á sviði. Ég leit nokkuð vel út og 2013 óskaði þýska Vogue eftir að ég væri á forsíðu. Ég held að mér sé óhætt að segja að 73 ára þá var ég elsta forsíðu „stúlka“ í sögu Vogue.

Árið áður hafði Erwin beðið mín aftur og þá hafði ég svarað með áherslu, Já! Þetta var skuldbinding sem var mér ekki auðveld, en ég vissi að hann var ástin í lífi mínu,

Þú þekkir máltækið: Ef þú vilt fá Guð til að hlæja, segðu honum hvað þú ert búin/n að skipuleggja?

Heilsa Tinu byrjar að gefa sig

Á venjulegum októbermorgni 2013, þremur mánuðum eftir brúðkaupið okkar, vaknaði ég og fann þvílíkan sting í höfðinu og hægri fætinum. Ég reyndi að tala en engin orð komu. Ég var að fá slag.

Slagið hafði þau áhrif að allur líkami minn var lamaður hægra megin. Ég þurfti á aðstoð þjálfara að halda til að geta gengið aftur, sagði læknirinn mér og að nota hægri hendina yrði vandi.

En andlegu áhrifin voru meiri. Mér leið ömurlega. Baráttan fyrir betri heilsu skildi mig eftir með engan styrk eða orku. Og ég var ekki aðeins að eiga við afleiðingar slagsins, heldur hafði læknirinn áhyggur af því að hár blóðþrýstingur minn hefði áhrif á nýrun og sendi hann mig til sérfræðings.

Dr Jorg Bleisch, nýrnasérfræðingur, sagði mér að nýrun væru aðeins að starfa 35% miðað við það sem eðlilegt væri. Við þurfum að fylgjast vel með þér, sagði hann, og skrifaði upp á meiri lyf til að halda blóðþrýstingnum í skefjum.

Það sem ég áttaði mig ekki á var að það voru fleiri erfiðleikar framundan. Erfiðleikar þar sem ég spurði mig: „Hvernig fór ég frá því að vera heilsuhraust forsíðustúlka, brúður, í að vera þetta? Eftir stuttan tíma fór ég að fá andúð á lyfjunum sem ég var að taka til að stjórna blóðþrýstingnum, ég var viss um að þau höfðu þau áhrif að ég var ekki að hugsa skýrt og var orkulaus.

Þannig að þegar vinur minn ráðlagði hómópata í Frakklandi, þá ákvað ég að leita lækningar á óhefðbundinn hátt.

Hómópatinn var sannfærður um að líkami minn hefði orðið fyrir eituráhrifum úr vatninu heima hjá mér. Tilbúin til að reyna nýjar aðfarir, hversu langsóttar sem þær væru, lét ég endurnýja allar vatnslagnir í húsinu og vatnið okkar var hreinsað.

Nýju aðferðirnar urðu til þess að mér leið betur, en ég vissi að læknarnir yrðu ekki hrifnir, þannig að ég fór heigulsleiðina og sagði þeim einfaldlega ekki frá.

Vandamálið byrjaði þegar ég fór í skoðun til Dr. Bleisch. Mér leið vel þannig að ég átti von á góðum tíðindum. Þannig að ég sagði honum hvað ég væri búin að vera að gera.

Stór mistök. Stór, stór mistök. Hann var í áfalli og fannst þetta ótrúlegt. Hann sagði mér að af því að ég hafði ekki hugsað betur um blóðþrýstinginn, þá væru nýrun að skemmast.

Ef ég hefði vitað hver áhrifin yrðu að sinna ekki blóðþrýstingnum, þá hefði ég auðvitað ekki skipt lyfjum út fyrir hómópatískar lausnir. Og heimska mín að þessu leyti, var ákvörðun upp á líf eða dauða.

Höfum það alveg á hreinu að ég er ekki að setja út á hómópatíu. 1969 fékk ég bót á berklum með hómópatíu. En núna var ég mun eldri, með alvarlegan langvarandi sjúkdóm sem þurfti hefðbundna lækningu.

Ef ég hefði bara ekki hætt á lyfjunum. Ef, ef, ef! Heimskuleg ákvörðun mín hélt áfram að naga mig, en Erwin setti aldrei út á hana við mig.

Stuttu eftir slagið, fór heilsa mín að gefa sig aftur. Ég varð svo máttvana að ég gat ekki yfirgefið húsið, öll orka mín fór í að fara milli svefnherbergisins og baðherbergisins.

Þarna var ég greind með forstig af þarmakrabbameini. Meðan ég beið eftir aðgerð, þá grét ég við Erwin: „Finnst þér ekki ömurlegt að þú giftist gamalli konu?“

Sem betur fer fyrir mig, þá er hann fullur af sjálftrausti, bjartsýni og lífsgleði og náði að róa mig.

Mánuði eftir greiningu mína, þá var hluti af þörmunum fjarlægður. Læknarnir voru bjartsýnir og ég var vonglöð aftur. En það varði stutt.

Í desember 2016 voru nýrun að starfa undir 20% og mér versnaði stöðugt. Aðeins tvennt var í boði: nýrnaskipti eða regluleg blóðskilun. Aðeins nýrnaskiptin myndu gefa mér kost á venjulegu lífi. En gjafar voru af skornum skammti.

Á þessum tíma var tíðni líffæragjafa í Sviss sú lægsta í Evrópu, sem þýddi að ég, 75 ára, myndi aldrei fara efst á listann.

Dr Bleisch tímasetti blóðskilun fyrir mig, en ég neitaði og sagðist ekki ætla að lifa tengd við vél.

Þetta var ekki mín hugmynd að lífi. En eitrið í líkama mínum var að taka yfir. Ég gat ekki borðað. Ég lifði, en var ekki lifandi.

Tina íhugar að taka eigið líf með aðstoð dánaraðstoðar

Ég fór að hugsa um dauðann. Ef nýrun voru að gefa sig og það var kominn tími til að deyja, þá sætti ég mig við það. Það var í lagi. Þegar tíminn er kominn, þá er hann kominn. Ég hugsaði ekki um að deyja, mér var meira umhugað um hvernig ég myndi deyja.

Einn af kostum þess að búa í Sviss er að dánaraðstoð er lögleg, þó að sjúklingurinn þurfi að dæla efninu sjálfur í líkama sinn. Það eru nokkrar stofnanir sem sérhæfa sig í dánaraðstoð, þar á meðal Exit and Dignitas og ég skráði mig sem meðlim, bara til öryggis.

Ég held að þarna hafi Erwin loksins áttað sig á að ég gæti dáið. Hann var mjög tilfinningasamur og vildi alls ekki missa mig, hann vildi alls ekki að ég færi. Hann sagðist ekki vilja aðra konu, eða annað líf, við værum hamingjusöm og hann myndi gera hvað sem væri til að við yrðum saman.

Hann kom mér á óvart og sagðist vilja gefa mér nýra.

Ég var himinlifandi yfir þessu boði hans. En af því að ég elska hann þá voru fyrstu viðbrögð mín að fá hann ofan af því að taka svona afdrifaríka ákvörðun. Hann er ungur maður. Af hverju ætti hann að leggja á sig þessa áhættu til að gefa eldri konu nokkur auka ár. Hvað ef að hann lendir seinna í erfiðleikum með eigið nýra.

„Ástin mín þú ert ungur. Alls, alls, alls ekki leggja þitt líf í hættu. Hugsaðu um eigin framtíð,“ ítrekaði ég við hann. En Erwin var búinn að gera upp hug sinn. „Mín framtíð er okkar framtíð.“

Erwin þurfti að fara í fjöldamörg sálfræðipróf við Háskólasjúkrahúsið í Basel, til að hægt væri að ganga úr skugga um að hann væri að gefa nýra á réttum forsendum.

Eins og ég átti von á, þá ákváðu læknarnir að hann vissi hvað hann væri að gera. Erwin veit alltaf nákvæmlega hvað hann er að gera, það er hans eiginleiki. Boð hans um að gefa mér nýra var gjöf ástar, og hann var ákveðinn og rólegur. Síðan tóku við læknisfræðileg próf til að ganga úr skugga um að við ættum saman og við fengum þær jákvæðu fréttir að við tilheyrðum sama blóðflokki. En á sama tíma leið tíminn hratt og ég mátti ekki við því að missa meiri kraft, orku eða hugrekki.

Ég var þá þegar sjúklingur í áhættuflokki vegna krabbans sem ég var nýbúin að ná mér af, en áhættan óx þegar niðurstöður sýndu að hjartað í mér var skemmt eftir að hafa lengi verið með of háan blóðþrýsting, vöðvinn hafði stækkað og æðarnar voru kalkaðar.

Það var álitamál hvort að svo veikt hjarta myndi þola álagið sem fylgdi aðgerð.

Stóri dagurinn rennur upp

En að lokum var stóri dagurinn settur: 7. apríl 2017. Tvö skurðstofuteymi voru undirbúin, eitt fyrir gjafann og eitt fyrir þegann, tvö teymi, tvennt af öllu. Aðgerð Erwins hófst fyrst. Þó að mig kviði fyrir eigin aðgerð, þá hafði ég mun meiri áhyggjur af hans aðgerð. Eftir um það bil klukkustund var komið að minni aðgerð.

Þegar ég vaknaði var ég svo út úr heiminum að allt, ljós, hljóð, samræður í kringum mig, heimsóknir lækna og hjúkrunarfólks, voru eins og í draumi.

Ég var smá tíma að átta mig á að ég var á gjörgæslu, umkringd að því er virtist hundruðum véla, um það bil að hefja nýtt líf sem kona með heilbrigt nýra. Næsta dag, þá áttaði ég mig á að mér leið vel. Besta stundin var þegar Erwin rúllaði inn í stofuna til mín í hjólastól.

Þrátt fyrir það náði hann að líta vel út, jafnvel myndarlegur, þegar hann heilsaði mér með kröftugu: „Hæ elskan!“ Ég var svo tilfinningasöm, hamingjusöm og ánægð með að við komumst í gegnum aðgerðina.

Sjö dögum seinna var ég útskrifuð og bati Erwin var mun styttri.

Hann varð strax aftur eins og hann átti að sér og hefur síðan stefnt af fullum krafti áfram. Ég hins vegar á mínar hæðir og lægðir. Líkami minn reynir af og til að hafna nýranu, sem er ekki óalgengt eftir líffæraígræðslu. Þetta hefur í för með sér að ég þarf að taka lyf, og lyfjameðferðin sem veldur gleymsku, kvíða og svima, hefur það í för með sér að ég þarf að eyða meiri tíma inn á spítala.

Í fyrra um jólaleytið fann ég fyrir meiri krafti en áður. Ég er ekki að reyna að storka örlögunum samt, ég veit að læknasögu minni er ekki lokið. Eftir líffæraígræðslu, þá er eins og það sé alltaf annað próf, annar læknatími eða skoðun sem þarf að fara í gegnum.

En ég er enn þá hérna. Við erum bæði enn þá hérna, nánari en við gátum nokkurn tíma ímyndað okkur og því ber að fagna.

Erwin vissi að gamla Tina var komin aftur þegar ég var spennt fyrir að hengja upp jólaskraut og panta ný borð fyrir stofuna.

Eftir mörg ár í ótta og veikindum, þá naut ég þeirrar einstöku gleði að vera lifandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Í gær

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dóttir Margrétar og Ísaks komin með nafn – Skírnartertan eins og listaverk

Dóttir Margrétar og Ísaks komin með nafn – Skírnartertan eins og listaverk