„Epalhommi er ágætis orð en upphaflega notkunin var uppnefni, til þess eins fallið að draga úr mikilvægi þess sem Sindri hafði að segja,“ segir Reynir Þór Eggertsson, einn mesti Evróvisionsérfræðingur Íslands, í þræði Hildar Lilliendahl Viggódóttur á Facebook. Reynir færir þar rök fyrir því að orðið sé niðrandi í garð homma og furðar sig á því að hann sem samkynhneigður karlmaður sé sakaður um hrútskýringar þegar hann segir sína skoðun á orðinu. Sindri Sindrason kemur Hildi hins vegar til varnar.
RÚV, Stofnun Árna Magnússonar og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands, völdu í gær orðið „Epalhommi“ sem orð ársins 2017. Í tilkynningu um það var vitnaði í Hildi og hún sögð hafa sagt það fyrst vegna viðtals Sindra Sindrasonar við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur. „[…] meðal annars talaði Hildur Lilliendahl Viggósdóttir um kúgaða, hvíta, ófatlaða epalhommann og þar birtist orðið fyrst,“ segir á vef RÚV.
Hildur heldur því fram á Facebook að Epalhomi hafi ekki verið sagt í niðrandi merkingu. „Gott val, vondur rökstuðningur. Epalhommi var ekki sett fram í niðrandi merkingu heldur til að lýsa ákveðinni týpu af homma. Hommi er nefnilega ekki niðrandi orð þvert á það sem sum virðast halda,“ segir Hildur.
Eurovision Reynir segir að upphafleg notkun Hildar hafi verið uppnefni. „Nei, alls ekki. Heldur til þess fallið að draga fram forréttindablindu Sindra,“ svarar Hildur. Reynir er ekki sammála þessu og segir öll uppnefni tegund af ofbeldi. Þá mætir Brynhildur Yrsa nokkur og sakar Reyni um hrútskýringu. „Alltaf svo hressilega gaman að sjá fólk taka útskýringar manneskju á sínu athæfi, og útskýra fyrir alþjóð hvað raunverulega bjó á við það sem viðkomandi sagði. Eigum við ekki orð fyrir þessa hegðun? Var einmitt það athæfi ekki orð ársins í fyrra?,“ spyr hún og vísar til orðs ársins 2016, að hrútskýra.
Reynir svarar þessu fullum hálsi. „Einmitt, það að feitur hommi geri athugasemd við orðanotkun og samhengi sem hann upplifir sem hómófóbískt er auðvitað hrútskýring og á engan veginn rétt á sér í ljósi augljósrar forréttindastöðu hans samanborið við granna gagnkynhneigða konu,“ segir Reynir.
Þá svarar Brynhildur að Hildur ein geti sagt hvað bjó að baki því sem hún sagði. Því svarar Reynir: „En aðrir hljóta að mega benda á sína upplifun af orðum hennar. Það er ekki hrútskýring. Þegar maður velur að taka orð eins og hommi, sem enn er notað á niðrandi hátt í ýmsum samfélagshópum þrátt fyrir áratuga tilraunir homma til að gera það jákvætt, og skellir framan á það forskeyti sem ekki virðist hugsað til hróss, má maður búast við því að menn sem upplifað hafa ára- eða áratugalanga smánun og niðurlægingu með alls kyns útgáfum af homma-þetta og -hitt, taki því ekki beint fagnandi og leyfi sér að hafa skoðanir á því og benda á það. Þar liggur kjarninn í málfrelsinu.“
Hildur birtir svo skjáskot af tísti Þórunnar Ólafsdóttur sem kemur með svipað stef og Brynhildur. „Kona býr til orð ársins 2017 og fullt af körlum fara að útskýra fyrir henni hvað það þýðir og hvað hún var sko að meina. Smá eins og leikþáttur byggður á orði ársins 2016,“ segir Þórunn.
Þessu svarar Reynir. „Meira að segja hommar mega ekki segja hvernig þeir skilja orðið. Aðdáunarverðri konu sem safnar hatursfullum ummælum karla um konur verður það á að uppnefna þekktan homma og það má ekki benda henni á það hvernig sumir hommar upplifa orð hennar. Það getur nefnilega vel verið að hommar hafi ákveðna forréttindastöðu í ákveðnum málefnum samanborið við suma aðra, en það breytir því þó ekki að allir höfum við alist upp við ljót hommatengd uppnefni sem setur okkur í ákveðna varnarstöðu, sér í lagi þegar reynt er að draga úr mikilvægi skoðana okkar og orða.“
Sindri Sindrason, sá sem var kallaður Epalhommi, var hins vegar sáttur og sagði í þræði Hildar: „Epalhommi er bara fyndið og skemmtilegt orð :))) og ég held að flestir séu sammála. Mér finnst fólk stundum vera aðeins of viðkvæmt fyrir beittum húmor!“