fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Fólkið í hruninu: „Þetta var algjört kjaftæði. Fólk var jú reitt en ekki þannig að neinum stæði ógn af“

Kristinn H. Guðnason, Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 7. október 2018 13:00

DV 2. desember 2008 Pattstaða lögreglu og mótmælenda í Seðlabankanum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hrunið og búsáhaldabyltingin eru einhverjir mestu örlagatímar á Íslandi undanfarna áratugi. Þjóðfélagið lék á reiðiskjálfi og litlu mátti muna að illa færi á köflum. Upp úr þessum jarðvegi spruttu upp persónur sem urðu áberandi í þjóðfélaginu af ýmsum ástæðum. DV tók saman nokkrar af þeim helstu og hvað varð um þær.

Birgitta Jónsdóttir
„Þetta varð ógnvekjandi á tímabili, þegar þeir voru byrjaðir að beita táragasi og til tals kom að flytja inn einhverjar óeirða græjur frá Danmörku“

Telur lögregluna hafa gengið of hart fram

Fyrir hrunið var Birgitta Jónsdóttir þekkt sem skáldkona og aktívísti. Þegar búsáhaldabyltingin skall á varð hún áberandi talskona þeirra sem vildu knýja breytingar í gegn og var viðstödd flestallar samkomur sem haldnar voru. Síðar var hún kjörin á þing fyrir Borgarahreyfinguna og árið 2012 tók hún þátt í að stofna flokk Pírata.

Birgitta segir að fólk hafi mætt til að mótmæla á Austurvelli af ýmsum ástæðum en flestir hafi óttast um afkomu sína og sinna.

„Um tíma leit út fyrir að matar- og lyfjaöryggi landsins væri í hættu,“ segir Birgitta í samtali við DV. „Ég var að vinna í matvöruverslun í gamla daga þegar allsherjarverkfall stóð yfir og hillurnar byrjuðu að tæmast. Þegar hrunið skall á sá ég að það var farið að raða í hillurnar á svipaðan hátt. Þá fór ég að hugsa um hvort ég ætti að birgja mig upp af hveiti og öðru slíku, hvort maturinn í landinu væri að klárast. Þetta voru ógnvekjandi tímar. Ég þekkti líka fólk sem var í námi erlendis og gat ekki tekið út neina peninga. Íslendingar voru allt í einu orðnir þriðja flokks þegnar en þetta er að gleymast í öllum hvítþvottinum um hrunið. Fólki fannst ekki einungis að fjármálakerfið hefði hrunið, heldur allar þær undirstöður sem tryggja að samfélagið sé heilbrigt.“

Eina af þessum undirstöðum segir Birgitta hafa verið fjölmiðlana og því hafi hún og fleiri tekið það að sér að taka upp og skrifa um mótmælin. Nefnir hún sérstaklega umfjöllun 365 um „kryddsíldarmótmælin“ þar sem sagt var að mótmælendur hefðu verið reiðir og ágengir.

„Ég tók myndbönd frá þessum degi og þetta var algjört kjaftæði. Fólk var jú reitt en ekki þannig að neinum stæði ógn af. Stemningin almennt var ekki ágeng eða ofbeldisfull. Það var eitthvert fólk sem var að reyna að nýta sér ástandið, góðkunningjar lögreglunnar, en þá stóðu mótmælendur vörð um lögregluna.“

Hvernig fannst þér lögreglan bregðast við?

„Misjafnlega. Þetta var langverst þegar þeir klæddu sig í óeirðagallana, því að þá hættu þeir að vera manneskjur. Í janúar gengu þeir fram með miklu offorsi og settu fólk til dæmis niður í bílakjallara þinghússins. Þetta varð ógnvekjandi á tímabili, þegar þeir voru byrjaðir að beita táragasi og til tals kom að flytja inn einhverjar óeirðagræjur frá Danmörku. Lögreglan gerði fjölda mistaka í þessu ferli en hún hafði aldrei lent í neinu svona áður.“

Birgitta sat á þingi til ársins 2017 og var virk í ýmsum verkefnum, bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Til dæmis í kringum uppljóstrunarvefinn Wikileaks. Í dag situr hún við skriftir á ævisögu móður sinnar, Bergþóru Árnadóttur söngvaskálds, og stefnir á útgáfu á næsta ári. Einnig vinnur hún að ýmsum verkefnum erlendis í tengslum við mannréttindi í hinum stafræna heimi.

„Ég hef verið að ganga í gegnum mikla kulnun undanfarið. Ég held að ég hafi ofgert mér í þessari vinnu sem ég valdi mér.“

 

DV 30. apríl 2012
Húsbrjóturinn var hylltur til hetja áður en sannleikurinn kom í ljós.

Húsbrjóturinn dæmdur í fangelsi

Í kjölfar hrunsins misstu fjölmargir Íslendingar skuldsett heimili sín enda ruku lán upp úr öllu valdi. Samtök heimilanna voru stofnuð til að aðstoða þetta fólk og margar skrautlegar uppákomur urðu. Á þjóðhátíðardaginn árið 2009 barst sú frétt að maður hefði eyðilagt hús sitt á Álftanesi og fögnuðu margir dirfsku hans. Hann var talinn hetja fyrir að láta ekki bankann fá að taka húsið en síðar kom í ljós að maðkur var í mysunni.

Mál húsbrjótsins, Björns Braga Mikkaelssonar, nær fram fyrir hrunið. Til ársins 2007 þegar hann, við sölu einingahúss, notaði fjármuni frá viðskiptavinum sínum til að greiða niður lán á heimili hans við Hólmatún á Álftanesi. Hjón um þrítugt greiddu um sjö milljónir króna inn á reikning félags hans, Sun House Ísland, og áttu greiðslurnar að fara til finnsks framleiðanda.

Fyrirtækið var þá í miklum fjárhagsvandræðum og beiðni var lögð fram um nauðungarsölu á húsinu. Sú beiðni var afturkölluð þegar Björn greiddi inn á lánið. Afgangurinn fór beint í rekstur Sun House, til Björns sjálfs og fjölskyldumeðlima. Tæpu ári síðar var félagið komið í sams konar vanda og fjárnám gert í húsinu. Þetta gerðist allt saman fyrir hrun.

Þann 17. júní árið 2009 komst Björn í fréttirnar þegar hann braut niður húsið á Álftanesi með beltagröfu. Húsið var þá í eigu Sun House. Lét hann ekki þar við sitja og eyðilagði Mercedes Benz-bifreið í eigu félagsins.

Björn var ákærður og játaði að hafa skemmt húsið. Hann neitaði hins vegar að hafa gerst sekur um fjársvik og skilasvik. Þann 17. janúar var hann í Héraðsdómi Reykjaness sakfelldur í ákæruliðunum og ekki talinn eiga sér neinar málsbætur. Hlaut hann átján mánaða óskilorðsbundinn fangelsisdóm.

Árið 2013 var Björn úrskurðaður gjaldþrota og ekkert fékkst upp í 115 milljóna króna kröfur í búið. Gat hann því ekki greitt þær bætur sem hann var dæmdur til að inna af hendi. DV hefur ekki vitneskju um hvar Björn er staddur í dag.

 

Lögregluforinginn
Óttaðist að lögreglan réði ekki við ástandið.

Varði þinghúsið og settist svo á þing

Eftir að bankahrunið raungerðist magnaðist hratt upp reiði í þjóðfélaginu. Beindist hún bæði að bankamönnum og stjórnvöldum sem voru talin hafa brugðist. Veturinn 2008 til 2009 einkenndist af mótmælum sem stigmögnuðust dag frá degi og stóð lögreglan í ströngu við að verja Alþingishúsið við Austurvöll og aðrar ríkisstofnanir. Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn stýrði aðgerðum lögreglunnar við erfiðar aðstæður.

Geir segist í samtali við DV hafa verið virkilega smeykur þegar mestu lætin gengu yfir.

„Þetta var mjög tæpt á köflum. Ég var smeykastur við að fólk myndi slasast, bæði lögreglumenn og mótmælendur, og einnig að lögreglan myndi ekki ná að hafa tök á þessu. Ég var mjög hræddur við það.“

Hvenær var hættan mest?

„Ég man sérstaklega eftir mótmælunum 20. janúar og nóttina þar á eftir. Síðan mótmælunum við lögreglustöðina í nóvember, sem voru mjög alvarleg. Það var búið að brjóta allar rúður á framhliðinni og hurðin var komin inn. Það var ekki nokkur leið að róa fólkið og við urðum að grípa til aðgerða.“

Hvað með menn þína, buguðust þeir einhvern tímann?

„Nei, en það var tæpt á því. Menn voru orðnir mjög þreyttir enda var þetta langvarandi staða. En ég fann aldrei fyrir neinni uppgjöf. Margir af þeim voru í sömu stöðu og mótmælendur og misstu jafnvel heimili sín en þeir hugsuðu fyrst og fremst um að standa sína plikt. Þetta bitnaði harðast á lögreglunni því hún stóð í fremstu víglínu fyrir hið opinbera og heimili sem veist var að.“

Geir segir það hafa verið mjög mismunandi hverju fólk var að mótmæla.

„Við sáum það að fólk var að láta reiði sína bitna á lögreglunni vegna annarra mála, ótengdum hruninu. Það notfærði sér tækifærið og það bakland sem mótmælin veittu.“

Lentu lögreglumenn í áreiti utan vinnu?

„Já. Ekki ég persónulega en það var sótt að heimilum lögreglumanna.“

Geir harmar að stjórnvöld hafi ekki sýnt lögreglunni skilning og að embættið hafi sjálft þurft að standa straum af kostnaðinum. Almennt séð hafi stjórnmálamenn stutt lögregluna en fjárútlátin fylgdu ekki, þvert á móti var skorið niður þrátt fyrir álagið.

Árið 2012 hætti hann hjá lögreglunni og síðar fór hann inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem varaþingmaður. Þá spruttu upp mótmæli vegna ákvörðunar Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að binda endi á Evrópusambandsumsókn Íslands.

„Það var mjög sérstök tilfinning að upplifa hávaðann og lætin innan veggja þinghússins eftir að hafa staðið fyrir utan í hruninu. Heyra flautin og öskrin.“

Langaði þig til að fara út og stjórna aðgerðum?

„Nei, alls ekki. Karlinn var búinn með sína skyldu og hæfir menn teknir við.“

Geir er enn að berjast fyrir auknu fjármagni til löggæslu en hann býr nú í Vestmannaeyjum og er formaður Rauða krossins þar.

 

DV 24. nóvember 2008
Fagnaðarlæti þegar Hauki var sleppt lausum.

Umsátur við lögreglustöðina

Föstudagskvöldið 21. nóvember var ungur mótmælandi, Haukur Hilmarsson, handtekinn eftir vísindaferð heimspekinema í Alþingishúsinu. Haukur var þekktur aktívisti sem meðal annars hafði tekið þátt í mótmælum við Kárahnjúkavirkjun og í búsáhaldabyltingunni. Tveimur vikum fyrir handtökuna hafði hann hengt fána Bónus-verslananna á þinghúsið.

Mótmælendur gengu að lögreglustöðinni við Hverfisgötu og vildu Hauk lausan. Spörkuðu þeir í hurðina og lömdu með mótmælaskiltum. Loks gáfu bæði ytri og innri hurðir stöðvarinnar sig en þá réðst lögreglan til atlögu gegn mótmælendum og víkingasveitin kom hlaupandi frá bakhliðinni.

Táragasi var beitt og þurftu margir að leita aðstoðar, til dæmis Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, sem þurfti að leita á spítala. Mótmælendur létu eggjum rigna yfir lögreglumennina sem stóðu vörð fyrir framan stöðina. Lauk umsátrinu með því að Hauki var sleppt lausum og færðist þá ró yfir.

Haukur leit á sig sem anarkista og barðist fyrir hugsjónum sínum alla tíð síðan. Hann varð einna þekktastur fyrir að beita sér í málefnum hælisleitenda, oft með beinum hætti. Fékk hann til dæmis 60 daga fangelsisdóm fyrir að reyna að stöðva flutning hælisleitandans Pauls Ramses úr landi árið 2010.

Árið 2017 gekk hann til liðs við frelsisher Kúrda í Sýrlandi og barðist gegn hryðjuverkasamtökunum ISIS þar í landi. Í mars síðastliðnum var tilkynnt að hann hefði fallið í loftárás Tyrkja í héraðinu Afrin fyrr á árinu. Síðan þá hefur fjölskylda Hauks þráspurt um afdrif hans en ekki hefur tekist að staðfesta andlátið.

 

Mætti alltaf fyrst
„Ég vildi ekkert endilega kosningar strax.“

Tók hruninu sem árás á heimili sitt

Margrét Tryggvadóttir rithöfundur var á meðal þeirra þúsunda Íslendinga sem mættu til að mótmæla í búsáhaldabyltingunni. Eftir hrunið var hún kjörin á þing fyrir nýjan flokk, Borgarahreyfinguna, sem spratt upp úr jarðvegi byltingarinnar. Í samtali við DV segir hún:

„Ég var sjálfstætt starfandi á þessum tíma og leigði með nokkrum öðrum einyrkjum. Okkar staða var mjög veik, með skuldbindingar en engan atvinnuleysisbótarétt. Við fylgdumst því náið með og tókum þátt. Ég tók hruninu mjög persónulega. Mér fannst þetta vera svik og árás á heimili mitt. Allt sem maður hélt að væri traust var byggt á lygi.“

Margrét segist ekki hafa verið reið á fyrstu dögunum, en óttinn og óvissan var mikil. Hún mætti á mótmælin sem Hörður Torfason skipulagði um helgar og taldi það borgaralega skyldu sína.

„Ég vildi ekkert endilega kosningar strax. Ég taldi að fólkið sem var best inni í þessum málum væri best til þess fallið að koma okkur út úr þessu, jafnvel þó að það hefði komið okkur í þetta til að byrja með. En þegar tíminn leið og stjórnvöld virtust vanmáttug þá fannst mér ekki spurning um að við ættum að kjósa.“

Fannst þér mótmælin bera árangur?

„Já, það var stígandi í þeim. En þetta var ekki auðvelt og eftir þrjár eða fjórar vikur hugsaði ég með mér að ég þyrfti að fá helgarfrí frá mótmælum. Fólk þurfti að kúpla sig út stöku sinnum og það var almenn samstaða um að gera hlé yfir jólin. En koma svo af fullum krafti aftur í janúar.“

Hún segir að mótmælin hafi heilt yfir gengið friðsamlega fyrir sig og fólk sýnt stillingu, báðum megin við borðið, en þó ekki alltaf.

„Ég man sérstaklega eftir fyrsta degi búsáhaldabyltingarinnar. Þá var ég hálf lömuð og grét yfir þessu. Mér fannst lögreglan ganga fram með allt of mikilli hörku og mér brá af því ég hafði aldrei séð þetta áður. Þeir voru að handtaka fimmtán ára krakka og hlekkja þá saman. Ég held að þeir hafi síðan áttað sig á því að þeir hafi gengið of hart fram, því að þeir gerðu það ekki eftir þetta.“

Margét valdi sér það hlutverk að vera ávallt mætt fyrst á svæðið því henni fannst mikilvægt að einhver væri mættur. Margir væru feimnir og hefði fundist það óþægilegt að mótmæla einir.

Óttaðist þú einhvern tímann að upp úr syði?

„Fyrsta daginn gerði ég það og ég vissi að það voru læti á kvöldin, þegar ég var farin heim. Þá voru mættir einhverjir sem voru ekki að mótmæla heldur í slag við lögguna. En mótmælin sjálf voru heilt yfir stillt og yfirveguð eftir þennan fyrsta dag.“

Margrét er varaþingmaður fyrir Samfylkinguna í dag og starfar sem barnabókahöfundur.

Sturla Jónsson
Kominn með sama vagn og fyrir hrun.

Keypti nýjan vagn með blóðpeningum

Sturla Jónsson bílstjóri var afar áberandi í íslenskri þjóðfélagsumræðu á árunum eftir hrun. Hann hafði stundað eigin rekstur í rúman áratug og hafði fjárfest í glæsilegum vörubíl á uppgangsárunum og fengið lán fyrir hluta kaupverðsins. Eins og hjá mörgum öðrum þöndust lánin út og Sturla missti allt sitt. Í kjölfarið hellti hann sér út í stjórnmálabaráttu og bauð sig meðal annars þrisvar sinnum fram til setu á Alþingi og var einn af þeim sem buðu sig fram til forseta íslenska lýðveldisins árið 2016. Hlaut Sturla 3,5% atkvæða eða 6.446 alls.

Í dag starfar Sturla enn sem bílstjóri. Á dögunum birti hann mynd af vagni sem hann hafði fjárfest í en aðstæðurnar eru ólíkar því sem var fyrri hrun. Í þetta sinn staðgreiddi Sturla vagninn með blóðpeningum, svo hans orð séu notuð. Í samtali við DV segir hann:

„Ég var neyddur til þess að selja húsið mitt og átti afgang til þess að kaupa vagninn enda er þetta lífsviðurværi mitt. Maður er byrjaður að vinna fyrir sömu hlutunum aftur,“ segir Sturla.

Að hans mati hefur þjóðin lítið lært á hruninu. „Mér líst í raun og veru ekki á blikuna. Fjármálaliðið og stjórnmálamennirnir virðast vera að komnir í svipaðan gír og á árunum fyrir hrun. Á meðan berst vinnandi fólk og sérstaklega leigjendur í bökkum. Það er stór hópur fólks sem er enn að takast á við afleiðingar hrunsins og hefur aldrei fengið neina hjálp,“ segir Sturla.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti