Öll finnum við fyrir einkennum kvíða enda væri annað í hæsta máti óeðlilegt. Kvíði er í raun eðlilegt viðbragð við aðsteðjandi hættu en stundum verður kvíðinn of mikill á þá leið að hann hefur neikvæð áhrif á lífsgæði okkar.
„Sumir sjá kvíða fyrir sér sem einksonar karakter í Woody Allen-mynd,“ segir Jamie Howard, sálfræðingur við stofnun sem heitir Child Mind Institute í New York. Þó að sumir geti litið á kvíða og brosað út í annað á það ekki við um þá sem þjást af kvíðaröskunum. Vefurinn Real Simple tók saman þrettán atriði, með aðstoð Jamie, sem fólk með kvíða vill að þú vitir.
Ekki er óalgengt að fólk líti svo á að fólk með kvíðaraskanir vilji hafa áhyggjur. Það er þó ekki svo. „Þeir sem eru kvíðnir væru mikið til í að vera kærulausari,“ segir Howard og bendir á að þeir eigi erfitt með það af lífeðlisfræðilegum ástæðum sem rekja má til boðefna í heilanum. „Þeir trúa því að raunveruleg hætta stafi af því sem þeir hafa áhyggjur af.“
„Þegar þú ert með kvíðaröskun þá bregst líkaminn í heild við aðsteðjandi hættu,“ segir Howard. „Heilinn túlkar ákveðnar aðstæður sem hættulegar og sendir skilaboð til líkamans um að vera viðbúinn,“ segir Howard og bætir við að líkaminn bregðist við með örari hjartslætti, grynnri andardrætti, svita og jafnvel skjálfta.
Sé litið til þess hvernig líkaminn bregst við kvíða, er ekki óalgengt að fólk með kvíðaraskanir forðist ákveðnar aðstæður sem hugsanlega geta kallað fram kvíða. Dæmi: Fólk með kvíðaraskanir gæti átt erfitt með að ljúka ritgerð fyrir skólann eða átt erfitt með að ákveða hvaða mublu það vill inn í herbergið sitt. Hlutir sem geta verið erfiðir en bærilegir fyrir flesta geta orðið óbærilegir fyrir fólk með kvíðaröskun.
„Einhverjir gætu túlkað vangetuna til að ljúka verkefnum sem leti,“ segir Howard sem bætir við að málið sé flóknara en svo. Undir niðri sé óttinn við mistök stærsta hindrunin. „Mjög greindir nemendur gætu lenti í því að skila ekki ritgerð af ótta við að kennaranum líki hún ekki,“ segir Howard sem bætir við að þó nemendurnir séu ekki í neinni raunverulegri hættu túlki þeir aðstæður á þann veg.
Að geta ekki framkvæmt eða lokið við einfalda hluti er ekki beinlínis til þess fallið að auka sjálfstraustið. „Hugsunin: „Ég get ekki“ er alltaf viðvarandi og gerir það að verkum að fólk með kvíðaraskanir vill forðast ákveðnar aðstæður sem aftur gerir það að verkum að því fer að líða illa.
Kvíði getur haft áhrif á félagslíf fólks. Sumir þeirra sem glíma við kvíðaraskanir vilja heldur halda sig heima en fara út með vinum. Þetta gera þeir því þeim líður óþægilega innan um marga eða eru smeykir um að verða sér til skammar. „Þeir eru því stundum stimplaðir sem óskemmtilegir sem er ekki endilega rétt. Þetta er fólk sem vildi nær örugglega fara út ef ekki væri fyrir kvíðann,“ segir Howard sem bætir við að sumir taki þessu persónulega. Kvíðnir eigi það til að missa tengsl við vini og aðra út af röskuninni.
Við kunnum að meta það þegar vinir og vandamenn sýna hluttekningu. Þetta er hægt að gera með því að segja til dæmis: „Þú virðist mjög kvíðin/n. Það hlýtur að vera erfitt. Get ég gert eitthvað til að hjálpa?“
Segjum sem svo að þú ætlir að halda gleðskap og viljir bjóða 10 vinum. Þú veist að vini þínum með kvíðaröskunina líður illa innan um svo margt fólk og myndi að líkindum ekki mæta ef svo margir kæmu. Ekki fækka á gestalistanum hans vegna. „Bjóddu þeim sem þú vilt bjóða og segðu vini þínum að þú vonir að þú sjáir hann/hana,“ segir Howard sem bætir við að sú staðreynd að forðast ákveðnar aðstæður sé það sem viðhaldi kvíðanum.
Fólk með kvíðaraskanir þarf að eiga við allskonar vandamál, raunar mun fleiri vandamál en meðalmaðurinn. Samt eiga þeir til að fá yfir sig gagnrýni vegna þeirra hluta sem þeir erfitt með að framkvæma.
Þú getur ekki upp á þitt einsdæmi fengið einstakling með kvíðaröskun til verða virkari og minna kvíðinn. Þannig að það virkar ekki að reyna að fá einstaklinga til að framkvæma hluti sem þeir vilja ekki framkvæma.
Kvíðaraskanir er hægt að meðhöndla hjá fagfólki, til dæmis með hugrænni atferlismeðferð hjá sálfræðingi. Sum lyf gagnast einnig sjúklingum með kvíðaraskanir.
Meðferð við kvíðaröskunum getur tekið margar vikur og segir Howard að hún taki að lágmarki tólf vikur. „Margir munu sjá framfarir á þeim tíma en í sumum alvarlegri tilfellum getur meðferðin tekið lengri tíma og framfarirnar verða í smærri skrefum,“ segir Howard. Hvort heldur sem er mun röskunin ekki læknast á einni nóttu.
„Kvíðinn er ekki persónuleiki fólks. Hann er ekki það sem skilgreinir fólk,“ segir Howard sem bætir við að kvíðaröskun sé ákveðin lasleiki sem fólk glímir við og hann hafi ákveðnar afleiðingar.
Birtist fyrst á DV.is