Á heimasíðu Markhóll markþjálfunar skrifar Fanney Sigurðardóttir um stjörnumerkin og klæðaburð þeirra.
Finndu þitt rísandi merki
Þegar við hugsum um stíl og útlit horfum við til rísandi merkis. Rísandi merki er það merki sem hefur mest áhrif á hvernig þú sýnir þig heiminum, yfirborðið. Sólarmerkið ræðst af afmælisdegi þínum og segir til um grunneðli þitt og lífsorku. Til að finna þitt rísandi merki geturðu notast við fæðingarkort á síðu Gunnlaugs Guðmundssonar, stjörnuspekings. Taktu eftir að það er mjög mikilvægt að slá inn réttan fæðingartíma. Ég fæddist kl. 05.39 og er því rísandi bogmaður. Ef ég set inn 07.00 er ég rísandi steingeit. Tvö ákaflega ólík merki. Finndu þitt rísandi merki á síðu Gunnlaugs hér.
Fyrsta merkið er Vogin 23. september – 22. október.
Klassískur stíll og klassísk fegurð eru einkennandi fyrir rísandi vog. Rísandi vog samsvarar sér vel. Líkamsbygging hennar og andlit eru gjarnan í samsvarandi og jöfnum hlutföllum. Tákn vogarinnar er vog með tveimur vogarskálum sem vísar til jafnvægis. Þess vegna hugsar vogin alltaf um heildar „lúkkið“, góð samræming í fatnaði er hér lykilatriði. Það er ekkert verið að henda einhverju saman. Vogin hefur óbeit á ójafnvægi og það á við á öllum sviðum, líka þegar kemur að klæðnaði.
Það hefur verið talað um rómönsku gyðjuna Venus sem kventákn rísandi vogar. Hún ber klassíska fegurð og líkami hennar þykir í fullkomnu jafnvægi. Ef við horfum á þetta heillandi verk Botticellis, Fæðing Venusar, þá eru litir perlu og bleikra rósa áberandi ásamt pastel og mjúkum hlýjum tónum. Þar er vogin staðsett, kvenleg, klassísk, fáguð og í samræmi.
Rísandi vogir líta gjarnan út fyrir að vera yngri en þær eru og oft er talað um þær sem guði og gyðjur dýrahringsins – þær bara virðast ekki eldast.
Ef svo ólíklega vill til að rísandi vog vilji setja hárið upp í klikkaða og öðruvísi greiðslu ætti hún ekki að klæðast látlausum kjól á sama tíma vegna þess að það skapar ójafnvægi. Það gengur ekki fyrir hana að fara hálfa leiðina út fyrir boxið og hálfa leiðina klassískt. Vilji hún fara „crazy“ þarf hún að fara alla leið svo að heildarmyndin sé í lagi, jafnvægið.
Rísandi vog og vorið
Rísandi vogir, karlmenn jafnt sem kvenmenn, bera vorliti einstaklega vel. Rísandi vog lifnar hreinlega við í vortónum eins og þegar jörðin lifnar við að vori eftir vetur.
Rísandi vog getur vel bætt við dökkum tónum í stíl sinn en ætti ekki að leggja áherslu á þá liti. Leður og pönk er stíll sem fer rísandi vog ekki vel og/eða stíll sem telst „edgy“.
Rísandi vogir ættu ekki að fara hamförum þegar kemur að tískustraumum einfaldlega vegna þess að klassískur stíll fer þeim lang lang best. Flæðandi einlit efni, hálsmál með jöfnu sniði, til dæmis hjartalaga og jafnar útlínur í sniðum. Í þessu samhengi má til gamans geta að vog í sól á nokkuð erfitt með andlausa tískuþræla.
Britney Spears er rísandi vog. Hana klæða vel mjúkir pastel litir. Mjúkir, ljósir, jarð -og perlulitir í förðun eiga líka vel við hana. Hún hefur á seinni árum verið mikið í svörtu og málað augu sín mjög svört sem dregur hennar náttúrulegu og klassísku fegurð ekki jafn mikið fram og pastel, mjúki, klassíski stíllinn.
Vertu í því sem þú vilt!
Það er vel hægt að horfa á sólarmerkið og tunglmerkið þegar horft er til stíls og klæðaburðar. Þau merki segja til um hverju þú dregst að en rísandi merkið er það merki sem er ráðandi þegar horft er til útlits og hvernig við veljum að birtast öðrum.
Mig langar að taka fram ég er dyggur stuðningsmaður þess að fara sínar eigin leiðir þegar kemur að stíl og klæðaburði. Ekki láta neinn segja þér hvað er flott og ekki flott. Vertu í því sem þú vilt. Með pistlum mínum um stjörnumerkin og stíl er ég einungis að endursegja það sem stjörnuspekin hefur varpað ljósi á í gegnum aldirnar.
Samband mitt við stjörnuspeki hófst um 10 ára aldurinn. Ég spændi upp allar bækur sem ég komst yfir fram yfir unglingsárin til að skilja hver ég var. Seinna komst ég að því að þessi endalausa leit að svarinu við spurningunni; „hver er ég?“ stafaði af ástandi sem kallast geðhvörf eða á ensku bi-polar. Þar skiptast á miklar geðhæðir, geðlægðir og stöðugleiki þess á milli. Haustið 2012 byrjaði ég að skrifa greinar um stjörnuspeki. Nú langar mig að skrifa um stjörnumerkin með tilliti til fatastíls á tískubloggi Markhóls.