Óhætt er að fullyrða að það gusti um dómsmálaráðherra þjóðarinnar, Sigríði Ásthildi Andersen. Hæstiréttur Íslands úrskurðaði á dögunum að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún vék frá niðurstöðu sérstakrar dómnefndar við skipan dómara við Landsrétt. Pólitískir andstæðingar urðu æfir og kröfðust afsagnar ráðherrans, sem situr þó sem fastast.
Það er lítt kunn staðreynd að dómsmálaráðherra er náfrænka leikkonunnar Brynhildar Guðjónsdóttur, sem fer á kostum í hlutverki Davíðs Oddssonar í leikritinu Guð blessi Ísland í Borgarleikhúsinu þessi dægrin.
Ömmur þeirra, Sigríður Ásthildur og Regína Guðjónsdætur, voru systur. Þær ólust upp í Garðastræti 13, svokölluðu Hildibrandshúsi sem stendur við hliðina á Unuhúsi.