Guðmundur hugsar um fuglana við Lækinn
Sambýli manna og dýra er oft náið og er Lækurinn í Hafnarfirði gott dæmi um það. Fyrir nokkrum árum sendi Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður og íbúi í Hafnarfirði, bréf til bæjaryfirvalda um hvort hann mætti taka að sér að varpstaðina og reyna að minnka afföll unga á Læknum. Beiðnin var samþykkt og „Project Henrý“ varð að veruleika.
„Þetta byrjaði þannig að fyrir mörgum árum þá las ég frétt um Henrý Bæringsson sem býr á Ísafirði, hann sótti um að taka í fóstur óræktaða spildu gegnt heimili hans. Hann sá um spilduna á eigin kostnað og í eigin tíma, setti þar upp þökur og spildur,“ segir Guðmundur. „Af því ég er nú Strandamaður og ólst upp við æðarfuglinn og að sinna honum, á líka fjögur börn og búinn að búa í Hafnarfirði síðan 1998, þá fannst mér svolítið afskiptaleysi þarna gagnvart fuglunum við Lækinn. Því ég sendi bréf til bæjarins og bað um leyfi til að hlúa að fuglunum þar á eigin kostnað.“
Líkt og á Ísafirði var leyfið veitt og Guðmundur hóf að skoða hvað var hægt að gera til að koma fleiri ungum á legg. „Það var eitt og annað í umhverfinu sem þurfti að laga, það kom fullt af ungum en þeir voru étnir mjög hratt og fáir sem komust á legg. Bæði mávurinn og lækurinn sjálfur eru ungum hættulegir. Lækurinn liggur í hæðum og ef einn ungi fer niður þá kemst hann ekki aftur til baka, svo koma bara allir ungarnir á eftir honum. Við Strandgötuna er síðan ræsi og rör og þar drukkna þeir.“
Farið var í nokkrar aðgerðir. Bærinn útbjó tröppur fyrir ungana til að komast til baka upp lækinn, við ræsið í Strandgötu er sett fínna net yfir ræsið þegar ungar koma í byrjun júní og byrjun júlí. „Við erum að koma 15–20 ungum á legg á hverju sumri,“ segir Guðmundur sem telur að árin séu orðin sex eða sjö síðan verkefnið byrjaði.
Hann sinnir Læknum þegar hann hefur tíma, hann biður aðra ekki um aðstoð, en allir eru velkomnir að hjálpa til. „Ég á þetta ekki, þótt ég hafi ýtt verkefninu úr vör og stundum hef ég mikinn tíma til að sinna því og stundum lítinn,“ segir Guðmundur. Hópur af fólki hefur hjálpað Guðmundi með ýmsum hætti, til dæmis séð um gjafir til fuglanna.
„Ég vildi bara að það væri skýrt á milli mín og bæjarins að ég hefði eitthvað um Lækinn að segja og mætti gera svona minni háttar hluti. Ég prófaði til dæmis að setja upp veifur, en endurnar eru ekkert hrifnar af því. Á tímabili var ég með 3g-myndavél og var að fylgjast með.“
2017 fékk verkefnið 60 þúsund króna styrk frá Dýraverndarsambandinu. „Þá var ég að spá í að gera ungastiga við Austurgötuna, en þar eru tvær stíflur og þar eiga ungar enga möguleika á að komast til baka, en það virðist sem að eftir að tröppurnar voru settar upp aðeins ofar þá séu þeir ekkert að fara niður. Þannig að nú er ég að skoða að setja upp upplýsingaskilti með myndum og hvaða fugla megi sjá við Lækinn. Þarna eru að koma stokkandar-, álftar- og gæsarungar, ég hef ekki séð aðra unga. Ég er enginn fuglafræðingur og þarf að fletta tegundunum upp, en til dæmis þar síðasta vetur voru þarna nokkur pör af rauðhöfðaöndum, sem lentu í einhverjum hremmingum og enduðu hjá okkur við Lækinn yfir veturinn. Gulönd er sjaldgæf, en par hefur verið í tvo vetur hjá okkur. Toppönd hefur komið og skarfurinn, sem er yfirleitt við sjó.“
Mannlífið við Lækinn er mikið, þar eru góðar gönguleiðir og bekkir, og er hann vel sóttur af íbúum við Lækinn og öðrum. „Við Lækinn erum við með Sólvang hjúkrunarheimili, margir eldri borgarar búa í nágrenninu og þeir gefa sig á tal við mann og láta mann vita ef eitthvað er að. Hér er leikskóli og grunnskóli auk gamla Lækjarskólans, Lækur athvarf fyrir geðfatlaða, hinum megin við götuna er dýrabúð og dýralæknir og fólk kemur þangað ef það verður vart við veika eða slasaða fugla,“ segir Guðmundur. Ljóst er því að sambýli dýra og manna er mikið við Lækinn.
Guðmundur hefur verið lengi í félagsstörfum, en hann byrjaði sautján ára gamall í slökkviliðinu á Ísafirði. Hann hefur komið víða við í félagsstörfum, en í dag, auk þess að sinna Læknum, situr hann í stjórn Dýraverndunarfélags Hafnarfjarðar, í stjórn Hollvinasamtaka Sólvangs og Öldrunarráði Hafnarfjarðar. „Ég kalla þetta alltaf samfélagsþjónustu, maður er bara að reyna að bæta samfélagið í kringum sig með litlum atriðum.“
Finna má Project Henrý á Facebook.