Elín Káradóttir heldur úti blogsíðu undir eigin nafni þar sem hún skrifar um jákvætt hugarfar, fjármál og lífstíl. Í þessum pistli fjallar hún um hvernig við komum hlutunum í verk og að klára „To-do listann“ okkar.
Oft finnst manni erfitt að koma hlutunum í verk. Margar ástæður geta verið fyrir því; stundum leti, erfitt að ná fókus og hvar ætti maður að byrja? Sjálf hef ég átt erfitt með að byrja á verkefnum sem ég hef aldrei glímt við áður. Þá blossar upp hin fræga frestunar árátta. Ég og hún eigum í stríði og með blað, penna og skipulagsforrit að vopni sigra ég flesta bardaga við þessa elsku.
Blað og penni
Mér finnst gott að taka mér nokkrar mínútur með autt blað og penna, og skrifa niður allt sem þarf að gera. Þegar „allt“ er komið á blað þá er gott að forgangsraða því sem er mikilvægast að klára og svo því sem tekur stuttan tíma að gera.
Listinn inniheldur „allt“ sem tengist heimilinu, skólanum, vinnunni, fjölskyldunni og félagslífinu.
Lykilatriði er að skrifa allt niður, þó að sumt sé mjög einfalt og tekur mjög stutta stund að klára. Það er ekkert verkefni svo lítið að það taki því ekki að skrifa það niður. Með því að skrifa allt niður heldur þú betur utan um verkefnin.
Mundu – þú átt eftir að gera marga lista og í raun tæmist listinn aldrei.
Þú gætir verið komin með 10 atriði á listann, og þér finnst þetta óyfirstíganlegt. Sumir kjósa að byrja á einhverju sem tekur enga stund og er einfalt að klára. Aðrir eru hrifnari af því að gera það sem er erfitt, krefjandi og „leiðinlegt“ fyrst. Þetta er einstaklingsbundið – finndu þinn takt í þessu. Þú munt alltaf þurfa að klára allan listann hvort sem er.
Farðu vel með tímann
Segjum að þú ætlir að gefa þér 2 klst. í dag til að vinna í listanum. Stilltu klukku, og hættu að vinna þegar klukkan hringir. Á morgun kemur nýr dagur og listinn er ennþá til staðar á morgun.
Daginn eftir getur verið gott að hreinskrifa listann – en það er alls ekki nauðsynlegt. Ef þú hefur einungis 30 mínútur lausar í dag, þá er sniðugt að nota klukkuna og vinna markvisst í þessar 30 mínútur.
Alltaf þegar þú sérð eitthvað nýtt sem þarf að gera – settu það á listann. Dæmi um slík verkefni er að taka til í plastpokaskúffunni, svara tölvupóstinum eða sópa forstofuna. Leyfðu verkefnunum að fá sitt pláss á listanum – ekki drífa í öllu í einu, því þá klárast sennilega ekkert. Farðu vel með tímann sem þú hefur – haltu þig við listann.
Núna skal ég massa listann!
Þú ætlar að gefa þér max 2 klst. í þetta þennan daginn, enda ættu þessi verkefni ekki að taka svo langan tíma.
Sumir segja: „þetta er ekki til neins – því verkefnin eru endalaus.“ Mín skilaboð til þín:„Já en haltu fókus, ekki láta neitt trufla þig. Nýir listar verða til aftur og aftur, núna er verið að einblína á að klára þennan lista“.
Áður en þú veist af er listinn allt í einu að verða tómur, bara 1 atriði eftir. Passaðu þig hérna, því á þessum tímapunkti hefur sjaldan verið jafn freistandi að setjast niður með tölvuna eða slaka á með bók. Allur listinn er kláraður, nema þetta eina atriði sem er svo auðvelt að klára, en líka svo auðvelt að sleppa.
Það er betra að klára hlutina strax.
Ég hef brennt mig á þessu og þú mátt alveg gera það líka. Ég mæli með að þú klárir listann strax.Þetta eina litla atriði getur undið upp á sig og orðið að stóru vandamáli ef þú klárar þetta ekki núna.