Þessi réttur er einstaklega einfaldur og tilvalinn að grípa í hann þegar maður hefur ekki hugmynd um hvað maður á að elda. Hann er í sterkara lagi, en ef hann er borinn fram fyrir börn mælum við með að taka út sterku sósurnar og chili-flögurnar.
Hráefni:
225 g spaghettí
225 g verkaðar risarækjur
1 msk ólífuolía
3 hvítlauksgeirar, saxaðir
1 tsk reykt paprikukrydd
salt og pipar
2 msk fersk steinselja, söxuð
Sósa – Hráefni:
1/2 bolli mæjónes
1/4 bolli Thai sweet chili-sósa
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
safi úr hálfu súraldin
1 tsk Sriracha-sósa (má sleppa)
örlítið af þurrkuðum chili-flögum
Aðferð:
Byrjið á því að búa til sósuna. Blandið öllum hráefnum vel saman og smakkið til.
Setjið vatn í stóran pott og saltið það. Setjið það á hellu yfir háum hita og náið upp suðu. Eldið pastað samkvæmt leiðbeiningum.
Hitið ofninn í 200°C og smyrjið ofnskúffu með smá ólífuolíu. Setjið rækjurnar í skúffuna og drissið ólífuolíu yfir þær. Kryddið þær með hvítlauk, paprikukryddi og salti og pipar. Hrærið létt í rækjunum til að allar séu vel kryddaðar. Setjið inn í ofn og bakið í 6 til 8 mínútur, eða þar til þær eru fagurbleikar og eldaðar.
Blandið rækjum, spaghettíi og sósu vel saman í stórri skál og berið strax fram, skreytt með saxaðri steinselju og jafnvel ferskum, rauðum chili.