„Öryggisnetið mitt var farið þegar ég var barn,“ segir Sofia
Hún segir það sem hún hugsar, brosir sjaldan og hlær aldrei. Sænska lögreglukonan Saga Norén úr hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Broen á við sína fortíðardjöfla að draga, en það sama má segja um leikkonuna sem túlkar Sögu, Sofiu Helin.
Í umfjöllun BT í Danmörku um Sofiu kemur fram að Sofia hafi orðið fyrir nokkrum áföllum á lífsleiðinni sem hafa mótað hana. Þegar hún var ekki orðin eins árs varð eldri bróðir hennar fyrir bíl með þeim afleiðingum að hann lést. Slysið hafði mikil áhrif á fjölskylduna; faðir hennar leiddist út í áfengisdrykkju og foreldrar hennar skildu þegar hún var fjögurra ára.
„Öryggisnetið mitt var farið þegar ég var barn,“ segir Sofia og bætir við að hún hafi lokast og haldið tilfinningum sínum fyrir sjálfa sig – rétt eins og Saga í þáttunum.
Sofia, sem er 45 ára, er gift Daniel Götschenhjelm, en saman eiga þau tvö börn. Ef allt hefði gengið að óskum væru þau þó þrjú. Sofia missti eitt sinn fóstur.
„Eins og amma mín hef ég fætt fleiri börn en ég hef séð alist upp,“ sagði hún í viðtali við Aftonbladet árið 2014. Sofia fór ekki nánar út í það hvenær þetta var en segir að þetta tímabil hafi einkennst af þoku. Henni hafi liðið illa. Eiginmaður hennar, Daniel, er prestur og segir hún að hún og fjölskylda hennar hafi leitað huggunar hjá Guði og í trúnni.
Dyggir aðdáendur sjónvarpsþáttanna hafa eflaust tekið eftir öri á andliti Sofiu, rétt fyrir ofan munninn. Örið má rekja til reiðhjólaslyss sem Sofia lenti í þegar hún var 24 ára. Hún datt af hjólinu og skall með andlitið í gangstéttina; afleiðingar slyssins urðu þær að tennur brotnuðu og þá hlaut hún kjálkabrot að ógleymdum skurði fyrir ofan munninn.
Sofia sagði í viðtali við Dagbladet Magazine ekki alls fyrir löngu að hún hafi átt erfitt með að sætta sig við örið til að byrja með, en svo hafi hún lært að lifa með því. „Eftir ákveðinn tíma varð ég sátt við örið og viðurkenndi það sem hluta af mér. Örið finnst mér ágætt einkenni á mér,“ sagði hún.
Nú standa yfir sýningar á fjórðu þáttaröð Broen, eða Brúarinnar, en þættirnir eru sýndir á mánudagskvöldum í Sjónvarpinu.