Á bloggsíðunni Hint of Helen er að finna aragrúa af uppskriftum eftir áhugakokkinn Helen sem eldar af mikilli ástríðu.
Ekki skemmir fyrir að margir réttanna sem hún töfrar fram eru afar einfaldir, eins og til dæmis þessi asíski réttur úr nautakjöti og brokkolíi.
Marinering – hráefni:
400 g magurt nautakjöt
4 hvítlauksgeirar, maukaðir
20 g engifer, rifið
3 msk sojasósa + 4 msk til eldunar
4 msk ostrusósa
Sósa – hráefni:
2 msk olía
1 brokkolíhaus
2 tsk maíssterkja
100 ml nautasoð
Aðferð:
Skerið nautakjötið í þunna strimla og blandið því saman við öll hráefnin í marineringunni. Best er að leyfa þessu að marinerast í að minnsta kosti tvo klukkutíma, en það er alveg hægt að sleppa því.
Skerið brokkolí í litla bita. Blandið soðinu saman við maíssterkju og setjið til hliðar. Setjið olíu á pönnu og hitið á háum hita. Steikið brokkolíið í eina mínútu og bætið síðan nautakjötinu, með allri marineringu, saman við og steikið í eina mínútu. Bætið síðan soðblöndunni og 4 msk af soja sósu saman við. Hrærið vel í blöndunni og leyfið þessu að malla í nokkrar mínútur, eða þar til sósan hefur þykknað og blandast vel saman við nautakjötið og brokkolíið. Takið af hellunni og berið fram.